10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. meiri hl. (Ellert B. Schram):

Virðulegi forseti. Allshn. hefur haft frv. til l. um íslenska stafsetningu, 115. mál, til athugunar um nokkurt skeið. N. hefur nú afgreitt málið og er skemmst frá því að segja að hún hefur klofnað í afstöðu sinni til frv. Meiri hl. n., sem ég er frsm. fyrir, mælir með að frv. verði samþykkt með breytingu á 4. gr. frv.

Eins og þingheimi er kunnugt um, þá vöknuðu upp miklar deilur á þjóðfélaginu um íslenska stafsetningu eftir að auglýsingar menntmrn. voru birtar á árunum 1973 og 1974. Þær auglýsingar kváðu á um allverulegar og róttækar breytingar á íslenskri stafsetningu og voru menn langt frá því að vera á eitt sáttir um þær breytingar. Þær deilur náðu hingað inn í sali Alþ., og á þinginu 1973–1974 var borin fram þáltill. sem var síðan samþ. og var á þá leið að Alþ. ályktaði að hrundið skuli þeirri ákvörðun að fella z niður í íslensku ritmáli, en deilur voru, eins og mönnum er kunnugt um, helst um það hvort z skyldi vera áfram í ritmáli eða ekki. Þessi ályktun Alþ. var ekki virt, því reglunum var ekki breytt í samræmi við vilja Alþ. hvað þetta snertir.

Á þinginu 1974–1975 var því þetta mál aftur á dagskrá og var þá enn samþykkt þál. varðandi íslenska stafsetningu, og nú var samþykkt Alþ. á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu.“

Þegar menn var farið að lengja eftir frv. til l. um íslenska stafsetningu, þá var lagt fram frv. til l. af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni og fimm öðrum hv. þm. og það frv. er nú hér á dagskrá.

Öllum er ljóst að vegna þessara ákvarðana á Alþ. annars vegar og auglýsingar menntmrn. hins vegar hefur ríkt veruleg óvissa um íslenska stafsetningu og hefur það verið til mikils baga fyrir fræðsluyfirvöld og í kennslumálum almennt. Hver sem niðurstaðan verður nú um þetta mikla ágreiningsmál, þá geri ég ráð fyrir að flestir séu sammála um að nauðsynlegt sé að taka af allan vafa í þessum efnum, það sé nauðsynlegt nú á þessu þingi að úrslit liggi fyrir, að afstaða Alþ. sé ljós varðandi íslenska stafsetningu og þær grundvallarreglur sem deilt er um. Það er af þessum ástæðum sem meiri hl. n. mælir með því að frv. á þskj. 140 verði samþykkt með einni breytingu. Ástæðurnar eru í fyrsta lagi sú, að nauðsyn er á að úrslit fáist í þessu máli, og í öðru lagi að sjálfsögðu, að meiri hl. er þeirrar skoðunar að þær reglur skuli gilda sem frv. felur í sér.

Minni hl. n., þrír hv. þm., mun sjálfsagt gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls, en í nál., sem dreift hefur verið af þeirra hálfu, kemur fram eða er sagt frá því að meiri hl. n. hafi fellt þá till. að taka til meðferðar og afgreiðslu jafnhliða það frv., sem hér er á dagskrá, og frv. það, sem hæstv. menntmrh. hefur borið fram. Það er rétt að það var ákveðið af meiri hl. n. að afgreiðsla á frv. hæstv. menntmrh. skyldi látin biða, og sú ákvörðun var tekin á þeim fundi sem afgreiðsla þessa frv. var ákveðin. Þegar ég segi: bíða, þá er það ekki endilega svo, að n. vildi alls ekki afgreiða frv. hæstv. ráðh., heldur vildi hún láta á það reyna hver afstaða þingsins væri til þess frv. sem hér er á dagskrá.

Forsendur þessarar afstöðu eru fyrst og fremst þær, að fyrir þá, sem vilja að zetan sé tekin upp í íslensku ritmáli, er ekki annarra kosta völ heldur en þrýsta á um afgreiðslu á þessu frv. Fyrir liggur auglýsing menntmrn. um að zetan skuli felld úr ritmáli, og á það hefur reynt hér á þingi að þrátt fyrir yfirlýsingar Alþ. um breytingar í þessu efni hefur því ekki verið sinnt. Virðist því ekki annarra kosta völ en það sé ákveðið með lögum að zetan skuli tekin upp aftur. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að það frv., sem hér liggur fyrir, sé afgreitt. Það hefur forgang að mati meiri hl. n. Að því afgreiddu má síðan athuga hvaða meðferð og afgreiðslu frv. hæstv. menntmrh. skal hafa.

Fullyrt er í áliti minni hl. að þessi frv. stangist algerlega á. Nú skal ég ekkert um það segja. En ef svo er, þá felst vitaskuld með afgreiðslu og samþykki á þessu frv., sem hér er á dagskrá, þá felst í því um leið afgreiðsla og afstaða til hins frv. Ef það er skoðun minni hl. og annarra þm. að þessi frv. geti ekki orðið samþykkt bæði tvö, þá erum við að hafna hinu og svo aftur öfugt. Þess vegna finnst mér í sjálfu sér það ekki vera röksemd til þess að skapa sérstöðu í n. eða til þess að hafna þessu frv. út af fyrir sig þó að hitt málið hafi ekki verið afgreitt samtímis úr nefnd.

brtt., sem lögð er fram af meiri hl. n., er við 4. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir því að niðurlag gr. breytist eins og í till. segir. Ég tel ekki ástæðu til þess að útskýra það frekar, það sést ljóslega við lestur frv. og till. Ég tel ekki heldur ástæðu til að fara frekari orðum um þetta álit meiri hl., en niðurstaðan er að lagt er til að frv. sé samþykkt með nefndri brtt.