11.05.1976
Sameinað þing: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum að lengja ekki mjög þessar umr. þó að vissulega sé til þess ástæða að ræða ítarlega það mál sem hér er nú til umræðu, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem nú síðast gerðust á miðunum.

Ég vil byrja á því að fagna því sérstaklega að hæstv. forsrh. er nú hættur öllu tali hér á Alþ. um að það sé nánast vitavert af hv. þm. úr stjórnarandstöðunni að hefja máls á þessu máli hér utan dagskrár á Alþ. Vera má að nú sé hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild farin að líta þetta mál það alvarlegum augum eftir þá atburði, sem gerðust nú síðast á Austfjarðamiðum, að menn hafi skipt um skoðun og telji það ekki óeðlilegt og allra síst óæskilegt að löggjafarsamkoman fjalli um þetta mál þegar slíkt gerist eins og nú hefur átt sér stað. En menn minnast þess, að í flest, ef ekki öll þau skipti sem stjórnarandstæðingar hafa tekið þetta mál hér upp til umr. á Alþ. utan dagskrár, vegna þess að öðruvísi hafa ekki fengist um það umr., þá hefur hæstv. forsrh. ekki dregið neina dul á að hann teldi það óæskilegt og nánast væri það að gera andstæðingunum greiða að taka þetta mál til umr. hér á Alþ. Sem betur fer hefur þetta breyst, a.m.k. er ekki látið á því bera nú, og það er þó skárra en áður hefur verið.

Þeir, sem hér hafa talað á undan mér úr stjórnarandstöðunni hafa talið að svo lítil viðbrögð hafi komið fram af hálfu hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir þá alvarlegu atburði sem gerðust á Austfjarðamiðum, að það bæri að átelja hæstv. ríkisstj. fyrir slík vinnubrögð. Og það er vissulega ekki að ástæðulausu. En nú hafa hv. þm. heyrt af vörum hæstv. forsrh. þau viðbrögð sem hæstv. ríkisstj. ætlar nú að sýna í þessu máli, þegar málum er svo komið, eins og hæstv. forsrh. sagði réttilega áðan, að aldrei hefur legið nær að mannslíf glötuðust heldur en einmitt í þessum atburði. Og viðbrögðin eru þau, þau eru nú ekki aldeilis amaleg, hæstv. forsrh. sagði orðrétt: „Ríkisstj. hefur rætt málið og ákveðið að taka málið upp í Öryggisráðinu og fastaráði Atlantshafsbandalagsins.“ Nákvæmlega það sama sem áður hefur gerst og í raun og veru engan árangur borið. Hvað telja menn að það gagni þó að enn eitt bréfið fari frá hæstv. ríkisstj. til Öryggisráðsins og til fastaráðs Atlantshafsbandalagsins án þess að nokkuð raunhæft í verki sé sýnt til þess að fylgja því eftir? Ég a.m.k., og þó er ég talinn heldur vinveittur vestrænni samvinnu, það hefur ekki farið milli mála, en ég tel þó að þetta geri lítið gagn ef nokkuð. Ég hef enga trú á því að þessir aðilar geri eitt eða neitt áhrifaríkt í þessu máli til stuðnings okkur íslendingum, nema því aðeins að þeim verði svo að segja stillt upp við vegg sýnt fram á það, að ef þeir taki ekki öðruvísi á málinu en þeir hafa hingað til gert, þá geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir samskipti íslendinga og aðila sem að þessum alþjóðastofnunum standa.

Ég hef sem sagt enga trú á því að þetta beri neinn árangur, og þess vegna verður að beita öðrum vinnubrögðum. Þeim hef ég lýst og mínu sjónarmiði hér áður og þarf ekki að endurtaka það. En ég tel að við íslendingar eigum fyrst og fremst að snúa okkur að þeim aðila sem er hinn sterkasti innan Atlantshafsbandalagsins, Bandaríkjunum, sem hafa með samningum tekið að sér varnir landsins og auk þess skuldbundið sig til að styðja íslendinga við gæslu landhelginnar, að þessum aðila eigi að snúa sér og gera honum ljóst að ef hann geri ekkert í þessu máli sem að gagni megi koma okkur íslendingum, þá sé það a.m.k. ekki fjarri að það geti gerst þeir atburðir hér sem leiði til þess að sú niðurstaða, sem íslendingar hafa af hendi látið til Atlantshafsbandalagsins, verði ekki lengur fyrir hendi. Ég er ekki í neinum vafa um það, ef skynsamlega væri haldið á málum á þennan veg, að þá mundi árangur nást á tiltölulega skömmum tíma.

Það var áðan vitnað til leiðara Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum um friðsamlega lausn til skamms tíma. Auðvitað er þetta ekkert nýtt og það veit auðvitað hv. þm. Stefán Jónsson. Þetta eru skrif sem meira og minna hafa gengið í Morgunblaðinu allt frá þeim tíma og í raun nokkru áður en útfærslan tók gildi. Þess vegna a.m.k. fyrir mitt leyti, kemur þetta mér ekki á óvart. Aðstandendur Morgunblaðsins margir hverjir og þeir sterkir eru þeirrar skoðunar að það eigi þrátt fyrir allt, sem á undan hefur gengið og gerst, þá eigi að semja við breta. Og þessi öfl eru því miður ekki bara innan raða hlutafélagsins Árvakurs, hvort sem menn telja það litla eða stóra Árvakur, eins og sum hver stjórnarblöðin eru nú farin að skilgreina þá hluti, þessi öfl hafa verið og eru enn til innan hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka, því miður. En þó hefur örlað á því undanfarnar vikur að það hefur verið látið líta svo út af sumum hæstv. ráðh. Framsfl., að þeir væru á annarri skoðun gagnvart aðgerðum vegna innrásar breta í landhelgina, þeir væru á annarri skoðun í þeim efnum og hverra ráða ætti að leita og hvaða ráðum skyldi beitt gagnvart NATO heldur en hæstv. ráðh. Sjálfstfl. Hér var vitnað áðan til ummæla, sem hæstv. dómsmrh. hafði viðhaft á miðstjórnarfundi Framsfl. nú um helgina, og einnig til ummæla, sem hæstv, utanrrh. hafði viðhaft bæði í hljóðvarpi og svo einnig í viðtali við dagblaðið Vísi í gær, en þar sagði hæstv. utanrrh. að það væri vandfundið það sem NATO væri að verja hér á Íslandi. Ég a.m.k. hef viljað skilja þessi ummæli hæstv. ráðh. Framsfl. á þann veg að þeir vildu vera harðari í þeim viðbrögðum sem hægt væri að sýna gagnvart þessum síendurteknu ofbeldisaðgerðum breta. En því miður hefur slíkt ekki mér vitanlega enn séð dagsins ljós í verki af þeirra hálfu. Mér þykir miður að hvorki hæstv. dómsmrh.hæstv. utanrrh. skuli vera hér við, og ég skal því ekki fara lengra út í þessa sálma þar að lútandi, vegna þess að þeir eru hér ekki í salnum. En mér þætti fróðlegt að vita hvort hæstv. ríkisstj. er algjörlega einhuga í því að gera enn eina tilraunina til þess að senda skrifleg mótmæli, skriflega beiðni um að málið verði tekið upp í Öryggisráðinu og í fastaráði Atlantshafsbandalagsins, hvort það sé svo að hæstv. ráðh. Framsfl. hafi ekki viljað láta frekar aðhafast í þessum efnum og láta frekar á það reyna hvaða leiðir væru farsælli til þess í raun og veru að hafa áhrif á þessa aðila til að standa betur með okkur íslendingum en gert hefur verið. Hæstv. ráðh. sagði líka í viðtali við dagblaðið Vísi í gær, efnislega a.m.k., að hann teldi að bandaríkjamenn hefðu frekar tekið sér stöðu með bretum heldur en okkur, Það er því engin furða þó að almenningur á íslandi sé farinn að velta því fyrir sér hverra gæða við njótum af verunni innan Atlantshafsbandalagsins og af því að hafa gert samning við Bandaríkin um varnir landsins. Það vefst ábyggilega fyrir mörgum þeim íslendingum, sem hingað til hafa verið hlynntir aðild að vestrænni samvinnu og Atlantshafsbandalaginn, að finna út hver þessi gæði eru, eftir það sem nú hefur gerst.

Ég vil aðeins minna á það sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan. Hann sagði nokkurn veginn orðrétt að gæslan á miðunum hefði borið þann árangur að afli breta hefði mjög verið takmarkaður frá því sem áður var. Ég minnist þess að það er ekki lengra síðan en líklega tveir — þrír mánuðir að a.m.k. hæstv. sjútvrh. taldi það af og frá að bað væri hægt að verja íslenska landhelgi fyrir ágengni breta með neinum árangri. Þetta hefur þó gerst og það sýnir að það er hægt að nokkru verulegu leyti að takmarka veiðar breskra veiðiþjófa hér á miðunum. Ef landhelgisgæslan er efld með þeim hætti sem þarf og skipum bætt í gæsluna, þá er þetta hægt.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það sem mitt álit, að ég tel að það mundi miklu frekar verða eftir því tekið ef hæstv. utanrrh. sækti ekki NATO-fundinn nú í næstu viku, — ég er nærri víss um að það mundi vekja meiri athygli, ef hæstv. utanrrh. færi hvergi, heldur en hitt, að hann sitji þennan fund. Þó að hann, sem ég efast ekki um, talaði yfir hausamótum þessara hv. aðila, þá mundi hitt samt að mínu viti hafa meiri áhrif, ef hann léti ekki sjá sig þar vegna þessa.

Ég vil svo að lokum taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal. Ég tel að hæstv. ríkisstj, ætti að velta því fyrir sér mjög gaumgæfilega hvort það er ekki full ástæða til þess að láta slá og gefa út afreksmerki lýðveldisins sem einungis starfsmenn Landhelgisgæslunnar gætu hlotið sem sérstakan viðurkenningarvott fyrir þau frábæru störf sem þeir aðilar hafa innt af hendi. Ég fyrir mitt leyti tel að þetta komi fyllilega til greina og ætti að skoðast gaumgæfilega. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. a.m.k. velti því máli fyrir sér, hvort slíkt væri ekki talið mjög eðlilegt og æskilegt með hliðsjón af því sem gerst hefur.