12.05.1976
Efri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Jón Árnason:

Herra forseti. Hér er um allmikinn lagabálk að ræða sem unnið hefur verið að um alllangan tíma af hálfu fjmrn. og fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og er nánast samkomulag sem þessir aðilar hafa gert með sér, en þó að sjálfsögðu háð samþykki Alþ. En þrátt fyrir þennan undirbúning, sem málið hefur fengið, er því haldið fram að ekki hafi verið fullkannaðir af hendi fulltrúa starfsmanna sumir þættir samkomulagsins, þ. á m. vilji þeirra um verkfallsheimildina með þeim skilmálum sem fram koma í þessu frv. Ég hef a.m.k. fengið upplýsingar um það að niðurstöður í hinum ýmsu félögum séu á annan veg en fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, þar sem hann fullyrti að um 85% af heildartölu félagsmanna í hinum ýmsu félögum væru því fylgjandi að þetta verkfallsákvæði væri, með þeim takmörkunum þó sem í frv. eru. En það er rétt sem hann sagði og ég hafði líka frétt varðandi starfsmenn sjálfs stjórnarráðsins, og þar var meiri hl. gegn þessu ákvæði samkomulagsins.

Í III. kafla frv., í 18. gr., segir svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði l. nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna, er Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um aðalkjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum þessum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Að vísu er rétt, eins og fram kom í ræðu frsm. n., að nokkrar takmarkanir eru á því hvenær opinberir starfsmenn mega hefja verkföll. En allt fyrir það er ég þeirrar skoðunar að þennan rétt eigi ekki að samþykkja til handa opinberum starfsmönnum nema því aðeins að þeir sitji við sama borð og aðrir launþegar í landinu hvað atvinnuöryggi og annað snertir. Atvinnuöryggið hefur alla tíð verið metið mikils, og það er einmitt á þeim forsendum sem opinberir starfsmenn hafa verið látnir fórna verkfallsrétti.

Nú er það svo, að í hvert skipti sem verkfall er boðað, þá láta æ fleiri aðilar í ljós þá skoðun að þessi baráttuaðferð sé orðin úrelt og að í slíkum menningarþjóðfélögum, sem nú eru í hinum menntaða heimi, hljóti að mega finna heilbrigðari leið til þess að útkljá málin og komast að sanngjörnum niðurstöðum um skiptingu þjóðarteknanna en hér á sér stað með þessum hætti. Mér finnst hart til þess að vita að einmitt nú þegar þessum skoðunum er að vaxa fylgi, þá skuli til þess koma að íslenska ríkið og starfsmenn þess leggi höfuðáherslu á að innleiða þetta úrelta kerfi sem hefur allt til þessa verið talið að ætti ekki við um opinbera starfsmenn.

Nú hefur mér verið tjáð, eins og ég sagði áðan, að á meðal opinberra starfsmanna og t.d. í sjálfu stjórnarráðinu séu mjög skiptar skoðanir um verkfallsákvæði samkomulagsins. Liggur það fyrir, eins og hér hefur komið fram, að þar er meiri hl. á móti því.

Ég vil að lokum taka það fram, — ég ætla ekki að orðlengja mikið um þetta mál því að það er aðallega varðandi þetta atriði sem ég er í andstöðu við þetta frv., — en ég vil að lokum taka það fram að það er mín skoðun að opinberir starfsmenn eigi ekki að sitja við lakari launakjör en aðrir launþegar í landinu, og ég held að það ætti að vera auðvelt að finna leið til þess að tryggja að svo verði. En þessari aðferð, að knýja fram kröfur sínar með verkföllum og það án þess að opinberir starfsmenn hafi fallist á að sitja að öðru leyti við sama borð og aðrir launþegar í landinu, henni get ég ekki verið fylgjandi. Ég er andvígur þessu ákvæði frv. og mun greiða atkv. gegn því þegar málið kemur til afgreiðslu í deildinni.