12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3439)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég hafði kvatt mér hér hljóðs í gær undir þessum dagskrárlið þá, utan dagskrár að segja, en var þá eins og hv. þm. Svövu Jakobsdóttur ekki hleypt í pontu á því stigi máls. En nú er hér frjálst í dag, og ég þakka hæstv. forseta það að heimila mér að segja nú örfá orð í tilefni af þessu. En áður en ég kem að því, þá vil ég vekja athygli hv. þdm. á því að það hlýtur að teljast furðulegt að þetta er í annað skipti síðan þing kom saman eftir jólaleyfið sem hæstv. dómsmrh. finnur sig til þess knúinn að setja ofan í við formenn n. og finna að starfsháttum n. hér á hv. Alþ. A.m.k. síðan ég kom inn á þing heyrir slíkt til undantekninga, að hæstv. ráðh. telji sig til þess knúna að knýja á um afgreiðslu mála úr n. En ég er ekkert hissa á þessu vegna þess að það er í mörgum tilvikum með eindæmum hvernig n. hafa starfað á þessu þingi. En nóg um það. Og meira að segja hæstv. forseti hnykkir á og hvetur nú hv. þm. Ellert B. Schram, form. allshn., til þess að boða nú til fundar og gera eitthvað í fyrramálið. Þannig er nú ástandið orðið hér á hv. Alþ. hjá stjórnarliðum. Stjórn þingsins er með þessum hætti, því miður. Það þarf að lagast.

En út af því, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér í gær, þá virtist í gærdag líta þannig út að ekki Alþ. sem heild, heldur hv. stjórnarþm., meiri hl. hér á Alþ. eða meiri hl. sjónarliða í allshn., þeir ætluðu að heykjast á því að gera eitt eða neitt í afgreiðslu þessara mikilvægu mála sem hér hafa verið ekki hvað síst í sviðsljósinu á þessum vetri og þessu þingi, þ.e.a.s. lögreglumála og réttarfarsmála. Sem betur fer virðist þetta nú vera að breytast frá degi til dags, og vonandi má vænta þess að a.m.k. þau frv., sem hæstv. dómsmrh. leggur ríka áherslu á að fái afgreiðslu á þessu þingi, þau verði afgr. Ég sé að hæstv. dómsmrh. hristir höfuðið. Ég veit ekki hvort hann er algjörlega vonlaus um það orðinn að neitt slíkt eigi sér stað, en allt bendir til þess, því miður, segi ég. Það er öllum orðið ljóst að hér er um svo mikilvæg mál að ræða, ekki síst með hliðsjón af því sem verið hefur að gerast í þessum málum nú á undanförnum víkum og mánuðum; að það er brýn þörf á því að þau frv., sem hér hafa verið lögð fram og eru í þá átt að bæta ástand þessara mála, hljóti afgreiðslu þingsins. (Gripið fram í.) Já, ég var ekki kominn að henni. En það virðist alveg greinilegt, eftir því sem nú horfa mál, að það á að leggjast á þáltill. sem a.m.k. að mínu viti og okkar, sem að henni stöndum, og hæstv. dómsmrh. er þess eðlis að hún gæti að verulegu leyti greitt götu þeirra mála sem nú eru í ólestri vegna þess að ekki eru nægir starfskraftar fyrir hendi í kerfinu. (Forseti: Ég tek fram að dómsmálin eru ekki til efnislegrar umr. nú. Það var aðeins gefið orðið til að ræða um afgreiðslu tiltekinna mála úr n. Ég bið hv. þm. að hafa það í huga og ljúka nú mjög skjótt máli sínu.) Ég skal verða við beiðni hæstv. forseta, en ég heyrði ekki betur en allflestir hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, kæmu með einum eða öðrum hætti að dómsmálunum sem fyrst og fremst er verið að ræða um í sambandi við afgreiðslu n. á þeim. En ég skal ljúka máli mínu að þessu sinni. Ég bara tek undir það sem hér hefur komið fram, að það er ekki vansalaust fyrir hv. Alþ. að láta þessi mjög brýnu mál liggja. Þau mál sem þegar hefur verið óskað eftir af hálfu hæstv. dómsmrh. að næðu fram að ganga á þessu þingi, þau á vitanlega að afgr. Annað er ekki sæmandi Alþ. eins og málum er nú háttað í þessum efnum.