12.05.1976
Neðri deild: 107. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð við 2. umr. málsins. Ég var búinn að lýsa skoðunum mínum í meginatriðum við 1. umr. málsins og skal ekki endurtaka það að neinu verulegu leyti. Ég ætla aðeins að minna á að í þeirri umr. kom einkum tvennt fram sem var gagnrýnt eða alla vega bent á, og það voru einkum og sér í lagi athugasemdir við 3. gr. frv. um skipan forstjóra og framkvæmdastjóra. Ekki lá ljóst fyrir eftir þá umr., hvað ætlað er að gera varðandi fjölda forstjóra þessarar stofnunar. Eins og bent hefur verið á, þá er það opið eins og frv. er úr garði gert, að hægt er að skipa einn, tvo eða fleiri forstjóra. Er það lagt í vald stjórnar stofnunarinnar hversu margir forstjórarnir skuli vera. Þetta var gagnrýnt, og ég var í þeim hópi sem taldi að nægilegt væri að einn framkvæmdastjóri eða forstjóri væri við þessa stofnun. Bæði er það, að ef til þess yrði gripið, þá mundi það eyða að nokkru tortryggni og ásökunum á þessa stofnun um að þar færu fram einhvers konar hrossakaup. Einn forstjóri yrði og til sparnaðar fyrir stofnunina, og þá er auðvitað gert ráð fyrir því að hann sé í fullu starfi. Mjög hefur verið deilt á það ráðslag, sem verið hefur nú að undanförnu, að tveir alþm. gegni forstjórastörfum við stofnunina, og hafa menn bent á að það sé í ósamræmi við þær reglur sem ríkjandi hafa verið t.d. hjá bankastofnunum. Í rekstri banka og í lögum um banka er ákveðið hversu margir bankastjórarnir skuli vera, það er beinlínis bundið í lögum, og sú venja hefur verið viðurkennd og í heiðri höfð að bankastjórar séu ekki samtímis alþm. Til þess að taka af allan vafa um þessi efni og til þess að vilji Alþ. komi í ljós, þá mun ég nú leyfa mér að flytja brtt. við 3. gr. frv., 2. málslið, og gera till. um að gr. orðist svo:

„Samkv. till. stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins skipar ríkisstj. einn forstjóra. Skal hann annast daglega stjórn stofnunarinnar og má ekki gegna öðrum fastlaunuðum störfum.“

Þarna er ekki verið að banna einum eða neinum eða koma í veg fyrir að einhver sé kjörgengur til þessa starfs, en þá verða menn að gera upp við sig, ef þeir sækja um starfið, hvort þeir vilja vera þar í fullu starfi eða halda áfram sínum fyrri störfum og láta þá vera að sækja um þessa stöðu. Með samþykkt á þessari till. held ég að skýrar línur muni komast á í þessum efnum, og fullyrði ég að það væri í samræmi við hagsmuni þessarar stofnunar. Það er ekki óeðlilegt, ef hún á á annað borð að lifa áfram, að þar sé einhver forstjóri. Það er ónauðsynlegt að þeir séu fleiri en einn, þar sem framkvæmdastjórar eru fyrir hverri deild og hér mundi vera tryggt að sá forstjóri mundi sinna starfinu að fullu og öllu leyti, en ekki vera að gegna því í íhlaupaverkum.

Jafnframt því sem ég flyt þessa till., þá vil ég jafnframt leggja fram aðra brtt., en hún er við 29. gr. laganna. Nokkur gagnrýni hefur komið fram um hlutverk Byggðasjóðs og ráðstöfun á því fjármagni sem þar er úr að spila. Því er haldið fram að gert sé upp á milli einstakra kjördæma og byggðarlaga. Sérstaklega hafa þeir kvartað sáran sem eru fulltrúar fyrir þéttbýlli staði hér sunnanlands, einkum Reykjavík og Reykjanes. Nú hefur það verið fullyrt og kemur fram í skýrslum frá stofnuninni að lán eru veitt til þessara kjördæma og núv. stjórnendur stofnunarinnar hafa sveigt til þessarar áttar, að réttu lagi að mínu mati. Það er líka mín túlkun á 29. gr. laganna að þar sé beinlínis gert ráð fyrir því að ráðstafa megi fé og veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda til allra landshluta til þess að bæta aðstöðu til búsetu án tillits til þess hvort um er að ræða dreifbýli eða þéttbýli. Til þess að undirstrika þessa skoðun mína, sem ég tel vera rétta, og til þess að styrkja núv. stjórnendur stofnunarinnar í þeirri stefnu sinni að veita fé til allra landshluta, þá mun ég leyfa mér að leggja fram eftirfarandi brtt. við 29. gr. og mundi þá greinin hljóða svo í heilu lagi:

„Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs hvarvetna á landinu með hliðsjón af landshlutaáætlunum, sbr. 8. gr., og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Greinin er óbreytt nema inn í hana er bætt orðunum „hvarvetna á landinu“. Ég treysti því að menn hafi skilning á þessari sjálfsögðu till. og greiði henni atkv.

Brtt. mínar eru of seint fram komnar og eru skriflegar og þarfnast afbrigða.