13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það sagði einhver að ég væri búinn að tala tvísvar og það er rétt. Ég skal vera mjög stuttorður. Þetta eru, eins og hér var sagt af einhverjum áður, miklu meiri umr. heldur en við áttum von á sem stöndum að þessari till. hv. félmn.

Ég skal ekki fara hér út í efnisumr. um þörf og ástæður fyrir þessari tekjuöflun á Akureyri. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði áður, að í afstöðu n. og till. n. felst ekkert um það að n. leggist á móti því að það sé leyst úr þeim þörfum sem liggja að baki óskum akureyringa. Þvert á móti leggur n. til að málið verði sett í þær færustu hendur sem hún telur að til séu til þess að fjalla um málið með það fyrir augum að það hljóti góð málalok.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. kafaði djúpt að eigin sögn í 5. gr. frv., og mér fannst hann kafa svo djúpt að ég missti eiginlega af því hvað hann var að fara. En í sambandi við 5. gr. held ég að hann hafi ekki uppgötvað neitt sérstakt sem öllum ætti ekki að vera ljóst, því að í skýringum við 5. gr. er tekið fram að þessi gr. sé nær shlj. 5. gr. l. nr. 51 frá árinu 1974, þ.e. 6. gr. í l. um gatnagerðargjöld. Þetta er allt sama tóbakið, ef svo mætti segja. Það, sem hér hefur komið fram, eins og ég hef áður bent á, er að það eru ferns konar tegundir af gjöldum sem eru að þvælast fyrir okkur. Okkur finnst að við þurfum að finna hagkvæma lausn á þessu til þess að það sé hægt að fullnægja þeim þörfum, sem vafalaust eru þarna fyrir hendi. Og ég tek undir það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði mjög málefnalega um þetta mál. Við þurfum að leysa þetta mál. En það er eins og hann sagði og síðasti ræðumaður, hv. 4. þm. Suðurl., undirstrikaði, að það eru fleiri en akureyringar sem þarf að líta til í þessu efni. Þetta er meginástæðan fyrir því að við teljum að það sé eðlilegt að setja almenna löggjöf um þetta. Þetta er nú svo einfalt.

Svo talaði hér hv. 12. þm. Reykv. Mér þykir mjög miður hvernig hann hefur talað í þessu máli. Mér finnst að hann hafi lítið rökrætt það. Hann hefur hins vegar haft stór orð og sagði að ég hefði farið með ósannandi. Það eru nokkuð stór orð að segja það að menn fari með ósannindi, og ég ætla ekki að láta slíku ómótmælt. Ég sagði að mér fyndist afstaða þessara tveggja og raunar þriggja góðu vina minna bera dálítinn keim af skattagleði í þessu máli, og mér kæmi það á óvart um tvo þeirra. Ég tek ekkert til baka af því sem ég hef sagt um afstöðu þeirra í þessu máli. Ég ætla ekki heldur að taka til baka að mér hafi komið það á óvart, vegna þess að ég tel að þetta sé ekki í samræmi við þá stefnu sem þessir ágætu menn hafa almennt í skattamálunum. Og ef hv. 12. þm. Reykv. kallar það ósannandi, þá hann um það. Hann var að tala um að ég ætti að biðjast afsökunar. Ég frábið mér allar leiðbeiningar frá honum um hegðun hér í þessum þingsal. Og ef verið er að tala um afsökun, þá gerði hann náttúrlega vel í því að biðjast afsökunar á því frumhlaupi sínu að hafa þessi orð í sambandi við það sem ég sagði um málið.