13.11.1975
Sameinað þing: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að rökræða við hv. þm. Albert Guðmundsson, 12. þm. Reykv., eða hv. 6. landsk. þm., Guðmund H. Garðarsson, um það hvort ég hafi nægilegt vit á atvinnulífi til þess að mega standa hér upp og tjá mig um skattagreiðslur íslenskra fyrirtækja. Mér hefur reynst það oft á undanförnum árum að þegar fulltrúar íslenskra atvinnurekenda eru komnir í rökþrot, málefnaleg rökþrot, þá er þeirra síðasta vörn að berja sér á brjóst og segja við mig og ýmsa aðra, sem ekki hafa rekið fyrirtæki: Þið þekkið þetta ekki. Þið hafið ekki tekið þátt í að reka fyrirtæki. Þið vitið ekkert um hvað þið eruð að tala — Og svo fær maður lítið meir. Það er barið sér á brjóst og sagt: Þú hefur ekki vígst til þeirra helgu véa sem íslenskur atvinnurekstur er, haf þú hægt um þið, ungi maður. — Þetta er boðskapurinn nánast. En efnisleg rök við gagnrýni eru lítil sem engin, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds hefur undirskrifað og kom fram hjá þeim báðum að efnisleg rök gagnvart þeirri þáltill., sem hér er til umr., komu engin fram.

Ég gel alveg fallist á það með hv. þm. að það eru ýmsir þættir í íslenskum atvinnurekstri sem ég og ýmsir af minni kynslóð erum ekki kunnugir. Við erum t. d. ekki kunnugir því hvernig atvinnurekendur komast í almenna sjóði, hvernig þeir koma sér upp samböndum við bankastjóra til þess að geta hagnýtt sér lánsfé almennings og rekið sín fyrirtæki. Við erum ekki kunnugir því hvernig menn afla sér umboða sem skila þeim miklum tekjum án þess að þeir þurfi að leggja nokkuð af mörkum, láta jafnvel ríkið selja og flytja inn vörurnar fyrir sig og fá svo sjálfir kommissjón af öllu saman. Það er alveg rétt, að við höfum ekki kynnst slíkum heimi. Það væri fróðlegt ef þeir hv. þm., sem telja sig þess bæra að upplýsa okkur aðra um vinnubrögðin í íslenskum atvinnurekendaheimi, segðu okkur undan og ofan af því hvernig ýmsum helstu stórfyrirtækjum landsins hefur verið komið á laggirnar og í krafti hvaða fjármálasambanda við lánastofnanir almennings og erlenda og innlenda aðila þau hafa auðgast. Það má vel vera að við, sem ekki höfðum vígst til þessara helgu véa, vinnubragða íslenskra atvinnurekenda, séum ekki færir að fjalla um það helga hof, íslenskan atvinnurekstur. Það má vel vera. En þá eru ýmsir fleiri, hv. þm. Albert Guðmundsson, sem ekki eru til þess hæfir, m. a. öll núv. ríkisstj. Það væri fróðlegt að fá það fram, vegna þess að hv. þm. Albert Guðmundsson og Guðmundur H. Garðarsson eru farnir að gefa mér og nánast Ragnari Arnalds einnig einkunn fyrir það hvort við séum hæfir til þess að fjalla um atvinnureksturinn í landinu eða ekki. (GHG: Þú verður að þola að þú sért gagnrýndur, hv. þm.) Jú, jú, ég vona þó að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson þoli það, að honum sé svarað. (GHG: Mér finnst það.) Gott, ég mælist þá til þess að þið fræðið þingheim um það hvaða ráðh. í núv. ríkisstj. eru færir að fjalla um atvinnurekstur og hvar þeir hafa vígst til þessara véa. Ég veit ekki til þess að margir þeirra, ef ekki allir, hafi nokkurn tíma komið nálægt atvinnurekstri, þó að sumir þeirra kunni að hafa átt í stöku fyrirtæki hér og þar. Og ég er viss um að það er þorri þm. samkv. þessum mælikvarða Alberts Guðmundssonar og Guðmundar H. Garðarssonar sem er alls ekki fær að fjalla um íslenskan atvinnurekstur. Og það var þá tími til kominn að Sjálfstæðisfl. skilaði inn í þingsalina slíkum kempum úr íslenskri atvinnurekendasveit eins og Albert Guðmundssyni og Guðmundi H. Garðarssyni, svo að það væri þá hægt að fjalla um þessi mál hér á þinginu. Við hinir, sem höfum ekki kynnst þessum helgu véum, gætum þá sest við fótskör meistaranna og fengið að hlýða á hvernig íslenskir atvinnuvegir eru reknir, hvernig menn geta safnað auði, en verið sífellt að tapa. Ég er reiðubúinn að hlýða á þann fyrirlestur, hvort sem menn vilja veita hann hér úr ræðustól eða annars staðar.

Hitt er svo annað mál, hvort íslenskur atvinnurekstur er rekinn fyrir eigið fé eða lánsfé, og það hafa komið fram um það hér skiptar skoðanir. Það er mjög einföld lausn í þessari deilu, og ég vona að hv. þm. Albert Guðmundsson sé nú reiðubúinn til þess að ganga til liðs við mig og jafnvel hv. þm. Ragnar Arnalds og flytja hér till. um að það verði gerð opinber úttekt á því hve mikill hluti fjárfestingar og fjármunamyndunar í íslenskum atvinnurekstri er fyrir lánsfé úr bönkum ríkisins og almannasjóðum, hvað mikið af þeirri eignamyndun, sem átt hefur sér stað í íslenskum atvinnurekstri, t. d. á s. l. 5 árum, er fyrir fé almennings í landinu og hvað mikið er fyrir eigið fé. Og af því að ég veit að hv. þm. Albert Guðmundsson er karlmenni mikið og drengskaparmaður að margra sögn, þá mun hann vera reiðubúinn til að flytja þessa till. með okkur, þannig að það komi fram svart á hvítu hvað íslenskir atvinnurekendur hafa eignast mikið í krafti eigin fjár og hvað mikið í krafti almannafjár. Þá þarf ekki að vera að deila um þetta atriði hér. Þá getum við einfaldlega fengið niðurstöður þess máls.

Ég er vissulega maður til þess að bera það að vera borinn þeim sökum að hafa ekki vit á atvinnulífi. Það er ekki í fyrsta skipti nú sem maður heyrir það og við þessir svokallaðir skólamenn eigum helst ekki að tala um neitt sem snertir raunverulegt atvinnulíf í landinu. En hitt þótti mér verra, að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson skyldi koma hér upp, fjalla um þessa þáltill., telja henni vítt og breitt flest til foráttu án þess að sjá ástæðu til þess að nefna sjálfur einn einasta galla á núverandi skattalögum hvað þau atriði snertir sem fjallað er um í þessari till. Og ég vil leiðrétta hann eins og hv. þm. Ragnar Arnalds gerði. Ég fjallaði ekki um skattsvik. Sú skattsvikaumr., sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson taldi sig vera að taka þátt i, var eintal og gefur kannske til kynna að það örli á því að honum finnist núv. skattal. óeðlileg, því að við vorum eingöngu að ræða um það sem líðst í krafti núverandi laga. Skattsvik eru allt annað og um þau fjallar ekki þessi till., eins og hv. flm. hefur bent á, svo að ég vona að Guðmundur H. Garðarsson, hv. þm., kynni sér þetta efni betur og átti sig á því að hér er verið að fjalla um lög í landinu, ekki hvernig komist sé í kringum þau, heldur hvernig lögin sjálf eiga að vera.

Ég vil taka undir það, að það var nánast sorglegt, og ég vona, að það hafi verið aðeins persónuleg mistök, en ekki ábending um raunverulega afstöðu hv. þm., að þegar hann kom hér í stólinn til þess að fjalla um þetta efni, þó sló hjarta hans ótt og títt með atvinnurekendum í landinu, en ekki með láglaunafólkinu. Það kom engin ábending fram hjá hv. þm. um að það væri þörf á einhverri lagfæringu í þágu láglaunafólksins í landinu. Þvert á móti tíundaði hann erfiðleika íslenskra atvinnurekenda og mælti þessari till. flest til foráttu. Það var nánast að skilja á honum að núverandi löggjöf fæli í sér mikið óréttlæti gagnvart atvinnurekendum í landinu og væri ekki þörf á neinum úrbótum í þessu efni.

Herra forseti. Ég lofaði að hafa þetta mál ekki langt. Ég vona satt að segja, þó að það skipti mig engu persónulega, að umr. hér um atvinnurekstur og efnahagsvanda þjóðarinnar fari ekki að komast niður á það stig að sumir hv. þm. lýsi því yfir að þeir telji aðra þm. beinlínis ekki hafa neitt vit á þessum málum. Við skulum svara hvor öðrum efnislegum röksemdum, en láta það liggja á milli hluta að fella dóm um það hver okkar hefur mest vit til að bera í þessum efnum. Það eru málefnin sjálf, röksemdirnar og gagnröksemdirnar, sem eiga að tala sínu máli. Af því geta menn dregið ályktanir um vitið. En að koma hér í pontuna og berja sér á brjóst, eins og Albert Guðmundsson og Guðmundur H. Garðarsson gerðu, og segja: Við einir vitum — hefur um aldaraðir verið háttur hræsnara einna.