17.05.1976
Efri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég tel að fjöldi dm. við afgreiðslu þessa þýðingarmikla máls sé nú upp undir það í algeru lágmarki og hefði talið eðlilegt að hæstv. sjútvrh. væri viðstaddur 2. umr. málsins. En hvað sem því líður, ég vil lýsa yfir ánægju minni með störf sjútvn., umfjöllun hennar um þetta merkilega frv., og ítreka það, sem ég sagði við 1. umr. um frv., að það er þess eðlis að mjög hefði verið æskilegt að það hefði verið lagt miklu fyrr fram og miklu fyrr veríð byrjað að fjalla um þetta frv. í n. Ed. heldur en raun varð á. Reynslan sýndi það nú að að dómi hv. þm. Nd. var starfstíma þeirrar d. betur varið til þess að fjalla um önnur mál sem þeir töldu þýðingarmeiri, svo sem stafsetningu. Hvað sem því líður, í sjútvn. Ed. hafa verið gerðar þýðingarmiklar brtt. varðandi þetta frv. sem ég er aðili að.

Ég vil aðeins bæta því við það sem fram kom hjá hv. frsm. sjútvn. að að dómi okkar þm. Norðausturlands virðist svo sem fiskfriðunarráðstafanir muni koma öllu meira niður á sjávarútvegi fyrir Norðurlandi heldu en viðast hvar annars staðar. En við umfjöllun í sjútvn. Ed. um þetta frv. voru gerðar á því ýmsar bragarbætur sem að því lúta að meira verði gert til fiskverndunar á annarri fiskislóð heldur en þeirri fyrir norðan.

Við umfjöllun í n. kom það í ljós að eigendur nokkurra togbáta fyrir Norðurlandi telja að svo sé nú að þeim kreppt með því að færa togveiðiheimildina út í 12 sjómílur að þeir megi tæpast gera út þessa báta sína til togveiða. Þetta eru bátar sem ekki voru smíðaðir til togveiða, heldur eru þetta hringnótabátar og.ætlan eigendanna var að gera þá út á tog á þeim tíma sem þeir geta ekki stundað veiðar með hringnót. Við þessu varð þó ekki séð í n. og ekki reyndist unnt að koma alfarið til móts við óskir þeirra um innfærslu frá 12 í 9 sjómílur á togveiðilínunni fyrir Norðurlandi. En litur var þó sýndur á því að ætla þeim aukið rými fyrir norðanverðum Austfjörðum til þess að stunda togveiðar.

Eins og formaður sjútvn. gat um, þá varð það að niðurstöðu í n. að Faxaflóa skyldi framvegis lokað fyrir togveiðum svo sem verið hefur. En samkomulag varð ekki um útfærslu á togveiðilínunni fyrir Snæfellsnesi. Hér verður flutt brtt. og hefur verið lögð fram brtt. sem lýtur að verulegri breytingu sem bátasjómenn á Snæfellsnesi töldu sér nauðsynlega varðandi togveiðiheimildir fyrir Snæfellsnesi. 1. flm. þeirrar till. mun vera hv. þm. Jón Árnason. Ég hét atfylgi mínu við þessa brtt. og tel að nauðsyn sjómanna á Snæfellsnesi til þess að helga sér þetta netasvæði sé óumdeilanleg.