17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4459 í B-deild Alþingistíðinda. (3879)

115. mál, íslensk stafsetning

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að brtt. þeirri sem hér hefur verið lögð fram í d. og hv. þm. Jón Helgason hefur gert grein fyrir. Það er von mín að þetta mál fái viðkunnanlegri afgreiðslu í þessari hv. d. heldur en það fékk í Nd. Ég er þess fullviss að af hálfu forseta d. verður að því stuðlað — hann mun ekki bregðast í því máli fremur en öðrum málum sem komið hafa fyrir þessa d. í vetur — að hann mun stuðla að því að málið fái eðlilega afgreiðslu hér í d. Hann hefur fullvissað mig um það eftir formanni menntmn. d. að þar verði — öfugt við það sem var í Nd. — leitað álits réttra, tilhlýðilegra stofnana og sérfræðinga á málinn sem hér liggur fyrir, og af þessu leiðir að ég mun ekki eyða tíma d. í langa ræðu gegn frv. eða tefja það að það komist til menntmn.

Eigi að síður kemst ég ekki hjá því að rekja það nokkuð með hvers konar offorsi þetta mál hefur verið sótt hér á hv. Alþ. allt frá því er forsprakkar málsins tóku sig fram um það vorið 1974 að safna undirskriftum 33 alþm. eftir að samþykkt hafði verið þáltill. hæstv. menntmrh. sem raunverulega myndar kjarnann í frv. það sem hann hefur lagt hér fram um skipun stafsetningarmála. Hausinn á skjali því, sem þessir 33 hv. alþm. undirrituðu, er á þessa lund:

„Undirritaðir alþm. skora á menntmrh. að gera ráðstafanir til þess að stafsetning sú, sem gildi tók 1929, verði notuð við prentun þeirra skólabóka sem nú er verið að undirbúa og nota á næsta vetur.“

Með háreysti og látum hefur flm. eða forustumönnum þessa þmfrv., sem hér liggur fyrir, síðan tekist að telja þessum 33 mönnum trú um það að með þessum hætti hafi þeir bundist í það að fá stafsetningarreglurnar frá 1929 leiddar í lög á Alþ. Hvort undirskriftaskjalinu frá vorinu 1974 hefur verið haldið með öllu leyndu fyrir undirskrifendunum síðan þannig að það hafi gleymst fyrir þeim, hvað það var sem þeir undirrituðu og þeir hafi síðan trúað endursögn hv. þm. Sverris Hermannssonar, frásögn hans af því hvað á þessum blaðhaus hafi staðið, veit ég ekki. En svo mikið er vist, að málið hefur verið flutt og afgreitt með mjög svo afbrigðilegum hætti í Nd. og það svo að lögmæti þeirrar málsmeðferðar er vefengd og virðist heyra til afglapa.

Eins og ég hef áður sagt, þá er ég meðflm. að brtt. sem hér hefur verið lögð fram í d. og ég ætla að fá muni hér eðlilega umfjöllun og meðferð þannig að einnig í þessu máli muni hv. Ed. auðnast að sýna það með hvaða hætti deildin ber raunverulega í meðferð mála af Nd. fyrir ýmissa hluta sakir, m.a. fyrir ágæta og réttsýna stjórn forseta d. En ég vil rétt aðeins taka það fram, að fari nú svo að — (Forseti: Ég vil aðeins taka það fram að það hæfir ekki að vera að ræða í þessari d. um hv. Nd.) Því er þá til að svara að það hefur komið í hlut þessarar d. að leiðrétta allmörg glöp framin í Nd. á þessum vetri og er ekki óeðlilegt að orð sé á því gert nú þegar keyrir um þverbak. — Ég vil aðeins taka það fram í lok ræðu minnar nú, að fari svo að brtt. okkar við þetta frv. verði nú vísað á bug í þessari hv. d., þá mun ég við 2. umr. bera fram enn brtt. um ákvæði til bráðabirgða sem ég vil lýsa hér nú þegar. Hún verður á þá lund að hæstv. menntmrh. verði falið að láta semja sérstakt stafsetningarpróf fyrir alþm., eigi þyngra en gengur og gerist um landspróf, en á landsprófi því, sem gagnfræðingar og annarsbekkingar þreyttu nú í vor, munu 15 villur hafa nægt í núll. Að þessu landsprófi þreyttu verði einkunnir alþm. lesnar upp við nafnakall svo að þeim gefist þá sérstakt tækifæri til þess að gera grein fyrir atkv. sínu með tillíti til þekkingar sinnar á íslensku máli.