17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (3970)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð um þetta mál. — Ég vil fyrst segja það, að ég tel að sú breyting, sem iðnn. hefur gert á frv., sé heldur til bóta, og ég vona að enda þótt hún verði samþ. í þessari d., þá tefji það ekki framgang málsins. Ég legg töluverða áherslu á að þetta frv. verði samþ. áður en þingi lýkur, og þegar það verður orðið að lögum, þá vil ég taka það fram að það er samt sem áður eftir að inna af hendi býsna mikla vinnu og ná samkomulagi til þess að sú hugmynd, sem þar er sett fram, geti orðið að veruleika.

Ég vil líka láta í ljós þá skoðun mína varðandi brtt. á þskj. 796 að efnislega er ég á margan hátt samþykkur þeirri brtt. sem þar er fram færð, en hins vegar tel ég að þetta ákvæði eigi tæplega heima, það sé tæplega á réttum stað í lögum um Orkubú Vestfjarða. Ég tel að enda þótt þessi till. sé ekki þar, þá beri að vinna að endurskipulagningu og skipan orkumála í landinu í heild, en þá standi Orkubú Vestfjarða í þeirri endurskipulagningu jafnfætis ýmsum öðrum virkjunum sem fyrir eru í landinu í dag. Við vitum að það hefur verið erfitt að ná samkomulagi milli þeirra fjölmörgu aðila sem framleiða raforku, og það er eflaust enn löng leið að ná þar samningum ef verður að fara samningaleið. Ég tel sem sagt að Orkubú Vestfjarða verði þar engin sérstök stofnun, hún komi inn í þá heildarmynd á sama hátt og t.d. Laxárvirkjun, Landsvirkjun og fleiri sambærilegar stofnanir. Ég vildi aðeins, herra forseti, lýsa þessari skoðun minni án þess að tala um þetta langt mál.