18.05.1976
Efri deild: 126. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4576 í B-deild Alþingistíðinda. (4175)

257. mál, jarðalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég talaði nokkuð langt mál þegar frv. þetta til jarðalaga var á dagskrá í þessari hv. d. fyrir nokkrum dögum og það gleður mig að sjá að Nd. hefur séð ástæðu til þess að vinna þetta frv. betur en Ed. sá ástæðu til að gera þrátt fyrir ábendingar. En ég vil segja að þær breyt., sem gerðar hafa verið, eru fáar og ekki mikilsverðar sumar og alls ekki nægjanlegar til þess, að Alþ. geti sóma síns vegna látið slíkt frv. frá sér fara sem samþykkt lög.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði hér í hv. d. við fyrri umr., og ítreka það, sem hv. forseti Nd. hefur haldið fram og ég geri að mínum ummælum, að þetta frv. er á margan hátt brot á stjórnarskránni. Ég vil benda á aðeins eitt dæmi, 26. gr., sem þó er breytt og einmitt þann líð sem var breytt, að „falli fasteignarréttindi við erfðir til annarra en þeirra, er greinir í 1. tölulið, á hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt því verði sem þau eru lögð erfingjum til arfs.“ En nú er búið að bæta þarna inn í, að náist ekki samkomulag, þá skal greiða fyrir viðkomandi fasteign að mati og síðan skal beita eignarnámsheimild. Ég álít að ef menn erfa lóð — það er víst ekki lóð lengur, það er búið að leiðrétta það líka — eða land, þá eigi þeir að fá að ráða því sjálfir hvort þeir eiga það til frambúðar, en þeir eiga ekki að vera neyddir til þess að selja það sem réttilega er þeirra. Og þar álit ég og undirstrika það, sem fram kom hjá hæstv. forseta Nd., að það er brot á mannréttindum og þar með stjórnarskrárbrot. Ég sem þm. óska eftir því að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. og ríkisstj. láti fara fram athugun á því líð fyrir líð, og ég skal svo samþ. frv. þegar það kemur þannig athugað ef hægt er að sannfæra mig og aðra hv. þm. um að hvergi sé brotinn eignarréttur þeirra sem um er rætt í þessu frv.

Ég vil enn benda á það að skv. 9. gr. er óheimilt að þinglýsa skjölum varðandi ráðstöfun fasteigna, sem lög þessi ná til, nema fyrir liggi samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og jarðanefndar, og vísað svo í 6. og 7. gr. Geta menn virkilega sætt sig við það að geta ekki þinglýst eigin eignum að eigin mati án þess að sækja um heimild til opinberra aðila, sveitarstjórna eða jarðanefndar? Ég vil ítreka það, að ef Framsfl. heldur að hann sé að gæta hér hagsmuna bænda, þá er þar langt frá því að mínu mati. Og það er hreinlega til skammar Sjálfstfl. að standa að þessu frv.

Það eru ýmis atriði í þessu frv. sem ég hef þegar gert að umræðuefni og ég gæti endurtekið, en ég ætla nú ekki að gera það, en ég legg til að frv. verði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar á sama hátt og hæstv. forseti reyndi að gera í Nd. og er reiðubúinn til þess að leggja fram skriflega till. um það ef forseti þessarar hv. d. óskar eftir því.