02.12.1975
Sameinað þing: 27. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

296. mál, Bessastaðaárvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Á síðasta þingi voru samþ. lög um heimild til virkjunar Bessastaðaár með allt að 32 mw. afli. Áður en ákvörðun yrði tekin þurftu að sjálfsögðu að fara fram frekari rannsóknir, rennslismælingar, boranir og margt fleira. Að þessu hefur verið unnið, eins og ég gat um í svari mínu við fyrirspurninni. Ég skal ekki ræða við hv. 2. þm. Vestf. hvort þessi kostnaður er of hár eða ekki. Ég býst við að fyrirspyrjanda hafi komið á óvart að hann skyldi ekki vera hærri, því hann hefur frá sögusögnum og sagnaröndum sínum allt aðrar tölur og miklu hærri. En þegar úrvinnslu úr þeim gögnum, sem aflað hefur verið nú í sumar, er lokið, þá mun gerð skýrsla og endanleg álitsgerð um virkjunina, eins og ég skýrði frá hér í sambandi við aðra fyrirspurn frá hv. þm. Helga Seljan fyrir nokkru. Þegar þessar grg. og endanlegu álitsgerðir liggja fyrir, þá verður tekin ákvörðun um hvort í virkjunina verður ráðist.