15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

7. mál, almenningsbókasöfn

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það fer ekki á milli mála að íslensk bókaútgáfa hefur staðið nokkuð höllum fæti undanfarin ár. Upplög bóka hafa dregist saman og það hefur jafnvel verið viðkvæðið upp á síðkastið hjá bókaútgefendum að svo sé að sjá að að því stefni að ekki þýði að gefa út bækur að ráði nema fyrir bókasöfnin, því að stór hluti almennings virðist hafa lagt af bókakaup og leitist við að sækja lesefni sitt næstum einvörðungu í bókasöfn. Ekki skal ég nú fullyrða hversu mikið þetta á til síns máls. En ótvírætt er hitt, að langtum fleiri tæki og fleiri skemmti- og fræðslutæki keppa nú við bókina en áður var. Jafnframt hefur það gerst að tilkostnaður við bókaútgáfu hefur hækkað mjög ört. En þá er sú þróunin hjá bókasöfnunum í landinu að hinar lögboðnu, föstu tekjur þeirra hafa staðið í stað og kaupgeta þeirra í rauninni rýrnað ár frá ári í verðbólguþróuninni.

Það var því tímabært að endurskoða bókasafnslögin, sérstaklega með tilliti til þess að auka fjárráð safnanna. Ég er viss um að mál bókasafna í landinu væru í afar bágbornu ástandi hefði ekki sú orðið raunin á að fjöldamörg sveitarfélög hafa brugðið við og lagt fram úr sjóðum sínum til bókasafnanna langt umfram það sem lagaskylda segir. En slíkt kemur auðvitað mjög misjafnt niður. Eina úrræðið, sem að haldi kemur, er að hækka hin lögboðnu framlög til samræmis við þarfirnar á hverjum tíma, eins og lagt er til í þessu frv. Ég tel að rétt hafi verið ráðið eftir þá viðleitni sem höfð var á sínum tíma til að leggja fram ýtarlegan lagabálk um bókasöfn, þar sem upp kom um ýmis atriði töluverður ágreiningur milli aðila sem hlut áttu að máli, þá hafi verið rétt ráðið að hverfa að því að leggja fram frv. að rammalögum. Nú kemur það fram í annað sinn og bæði þörfin og vitneskjan hér á hv. Alþ. um málið ættu að stuðla að því að það fengi fljóta afgreiðslu.

Að því var fundið í ræðu hv. 9. þm. Reykv. að ekki skyldi standast á tölur samkv. þessu frv. til bókasafna og till. í nýframlögðu fjárlagafrv. Ég býst við að við hv. 9. þm. Reykv. þekkjum báðir af eigin raun að það þyrfti næstum kraftaverk til að koma inn í fjárlagafrv. tölum um fjárframlög í samræmi við ósamþykkt frv., og ég hlýt að benda á að það væri nokkuð takmörkuð virðing fyrir fjárveitingavaldi Alþ. ef upp væri tekinn sá háttur að setja tölur í fjárlagafrv. í samræmi við frv. sem enga afgreiðslu hafa hlotið á Alþ. Mergurinn málsins er að hér er verið að bæta úr brýnni þörf. Það eru nóg barefli og árásarefni á ríkisstj., að ég held, þó að ekki sé verið að seilast svo langt sem mér virtist hv. 9. þm. Reykv. ætla að gera. Nei, hvað okkur varðar hér í hv. d., þá er úrræðið innan handar. Það er að hraða svo jákvæðri meðferð þessa máls og afgreiðslu að það verði orðið að lögum með stórauknum fjárframlögum til bókasafnanna áður en endanleg fjárlagaafgreiðsla á sér stað. Þá eru allar forsendur og þá er skylt að taka tillit til þessara nýsamþykktu laga við endanlega afgreiðslu fjárlagafrv. Ráðið til þess að sjá um að úr brýnni þörf bókasafnanna sé bætt er að Alþ. geri frv. að lögum áður en fjárlög verða endanlega afgreidd.