09.12.1975
Sameinað þing: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

307. mál, milliþinganefnd í byggðamálum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það var rétt, sem kom fram hér í skýrslu frá formanni n. áðan, að þessi n. vann töluvert vel lengi framan af. En það er eins og mig minni að við stjórnarskiptin hafi deyfð færst ansi mikið yfir n. Ekki veit ég af hverju það stafaði, en svo mikið er víst, að frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum hefur n. starfað æðilítið.

Það er sem sagt von á því þó núna að þetta fari að breytast. Ég hef reyndar haft það í huga nú um nokkra hríð, að það væri óþarfi að vara í þessari n., og við hv. þm. Karvel Pálmason höfum íbugað það mjög alvarlega að hætta þátttöku í n. vegna algers starfsleysis. Mig grunar að þetta starfsleysi hafi m. a. stafað af svartsýni ýmissi á það að hægt væri nokkuð að gera í þessum málum raunhæft við núverandi stjórnarhætti. Mann grunar það svo sem. En sem sagt, nú á eitthvað að fara að gera, og þá hugsa ég að við hugsum okkur um, við hv. þm. Karvel Pálmason, og sjáum til hvernig framhaldið verður og hvernig þessum málum reiðir af undir þessari nýju stjórnarstefnu, því á það hefur ekkert reynt enn sem komið er.