10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

108. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, lýtur að mikilvægu atriði í sambandi við umferðarmál. Það er ýmislegt í því sambandi sem þarf athugunar við. Þessi málefni eru í athugun, m. a. hjá Umferðarráði.

Um þetta málefni mætti í sjálfu sér segja margt. Það er rétt, sem segir í grg. um það hvernig framkvæmd í þessum refsidómum hefur verið háttað, að sú venja hefur skapast og henni fylgt alveg fast að varðhaldi hefur verið breytt í sekt. Þær sektir hafa svo verið hækkaðar smám saman og þær fylgt alveg föstum reglum. En í frv. er gert ráð fyrir að þetta sé meir lagt á vald dómara hverju sinni.

Ég vil ekki þreyta hv. þd. nú á því að fara að tala langt mál um þetta efni, en vil mælast til þess, sem ég tel raunar alveg víst að verði gert, að hv. allshn. sendi frv. til umsagnar þeim aðilum, sem hafa með þessi mál að gera, og það verði skoðað áður en það er afgreitt. Það er mjög mikið atriði, sem hv. frsm. minntist á, að hægt sé að hraða framkvæmd og afgreiðslu ölvunarbrota. Það þarf að athuga hvort ekki er önnur og kannske enn fljótvirkari leið til þess heldur en þó þarna er gert ráð fyrir þegar um alveg augljós ölvunarbrot er að tefla.

Enn fremur er þess að geta, sem ég held að hafi ekki komið glöggt fram í grg. með frv., að vitaskuld hefur náðunin aldrei nein áhrif á ökuleyfissviptinguna. Ökuleyfissviptingin stendur. Og sannleikurinn er sá, að það er ökuleyfissviptingin sem er miklu, miklu meira atriði í þessu og mönnum þykir miklu þyngri viðurlög heldur en sú sekt sem þeir greiða í staðinn fyrir varðhald.

Herra forseti. Eins og ég sagði, þá skal ég ekkert tefja tímann nú með því að ræða um þetta fram og aftur, heldur endurtaka þá ósk að allshn. sendi málið til umsagnar dómsmrn., Umferðarráði og fleiri þeim aðilum sem hér eiga hlut að máli.