12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það skulu vera fá orð. Ég get tekið undir með frsm. 2. minni hl. um flest það sem hann talaði hér um. Mér skildist á frsm. meiri hl. að hér kæmu tiltölulega fáir nýir aðilar inn í þetta dæmi, það féllu fáir út einnig og það yrði mest um sömu aðila að ræða sem greiddu eignarskatt, miðað við það sem verið hefur. Þetta hafði hann eftir einhverjum fræðingum sem ég tók ekki eftir, hverjir voru, og ég trúi þeim auðvitað rétt mátulega. Miklu frekar hefði ég trúað því ef hv. þm. sjálfur hefði rannsakað það nákvæmlega. En aðalspurning mín varðandi þetta er varðandi vissan hóp í þjóðfélaginu, þ. e. a. s. eldra fólkið, sem á orðið skuldlausar íbúðir sínar og ég óttast það nú, það læðist að mér sá grunur að kannske sé það einmitt þetta fólk sem kynni að koma inn í þarna til viðbótar með þessu fyrirkomulagi. Ég veit sem sagt ekki hversu náið þetta hefur verið athugað. Það vill nú svo til að flest mál nú þessa dagana og kannske enn þá meira þau mál, sem eiga eftir að sjást hér í þingsölum, hafa vart verið vel ígrunduð og er reyndar enn þá verið að hnakkrífast um í stjórnarflokkunum sum þau sem veigamest eru, eða þá kannske líka að sum þeirra séu næstum hrein markleysa eða gamanmál, eins og hv. þm. Jón G. Sólnes komst nánast að orði um frv. hið næsta hér á undan, um lögboðna lækkun á ýmsum framlögum.

En hér er hins vegar auðvitað ekki neitt gamanmál á ferðinni. Við vitum hvernig fyrirkomulagið er með fasteignaskattinn, sem sveitarfélögin leggja á, gagnvart eldra fólkinu. Þar er heimild til þess að fella þennan fasteignaskatt niður og flest sveitarfélög hygg ég eða öll notfæra sér þetta, fella niður fasteignaskatta af þessu fólki, og flest gera það sjálfkrafa. En spurningin er sem sagt um það, — ég er ekki svo kunnugur þessum lögum, — hvort þarna sé um nokkur slík ákvæði að ræða gagnvart eignarskattslögunum. Það kann að vera og þá upplýsist það. En ef hér er um að ræða hættu varðandi það að einmitt eldra fólkið verði þessir viðbótaraðilar, sem hv. frsm. meiri hl. kom hér inn á, þá er margföld ástæða til þess til viðbótar við það, sem hv. þm. Ragnar Arnalds minntist hér á áðan, að vera hér andvígur. Það væri gott að fá þetta upplýst núna ef unnt væri. Ég veit ekki hversu hv. frsm. er tilbúinn til þess að gera það, en hitt veit ég, að hann er næsta fróður í öllum þessum lögum og getur veitt mér mikla vitneskju þar um.