12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Albert Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég held að leikrit það, sem óskrifað var af hv. síðasta ræðumanni, sé nú komið í skjalasafn þingsins og það er óþarfi fyrir hann að hafa meira fyrir því. Þetta var skemmtileg ræða. Ég er vanur því að vera tekinn kverkataki með annarri hendinni og klappað með hinni og tel mig mann til þess að komast undan slíku. Þetta er eins og að skvetta vatni á gæs, sem hann sagði hér.

Það er alveg rétt að mér er ekki sama hvernig farið er með fátæka fólkið. Ég tel mig vera kominn af fátæku fólki og þarf engan til að segja mér hvernig það er að vera fátækur. Ég þarf engan til að segja mér hvernig það er að brjótast áfram. Ég þarf heldur engan til að segja mér hvað það er að vera sjálfstæður. Ég er að verja fólk sem ég hef hitt á allri minni lífsleið hvort sem það er fátækt eða ríkt eða talið ríkt. Það er ekki þar með sagt að gamla fólkinu verði bjargað þótt einhver annar verði gerður fátækur.

En þegar ég er að tala um eignaupptöku, þá meina ég það að eignir verði teknar smátt og smátt af fólkinu — ef það þarf að skýra þetta nánar — yfir til ríkisins, og þar stangast á lífsskoðanir hv. síðasta ræðumanns og mínar. Því getum við ekkert gert að. Við verðum bara að bera virðingu hvor fyrir annars skoðunum. En ég vil koma í veg fyrir það að af þeim, sem hafa með dugnaði komist í eignir, verði þær teknar á ósanngjarnan hátt.

Og þá ætla ég að fá leyfi til þess að svara báðum hv. síðustu ræðumönnum sem hér sögðu að það þurfi ekki að hafa eins mikið fyrir tekjum af eignum og öðrum tekjum. Hvað haldið þið að eignamaður, sem hefur byggt upp, sé búinn að hafa mikið fyrir því að skapa þessi verðmæti sem svo koma til með að gefa honum einhverjar tekjur, á sama tíma sem einhver annar, sem hefur kannske haft hliðstæðar tekjur, hefur ekki verið með verðmætaskapandi hugdettur? Og svo á að fara að taka eignirnar, sem annar er að skapa og útvega í þjóðfélagið verðmæti fyrir framtíðina, af þeim sem hafa notað af skynsemi sínar tekjur, og jafna milli þess sem hefur kannske eytt tekjum sínum í einhvern óþarfa. Ég held að það sé mesti misskilningur. Og ég endurtek það að ég harma að ungur, vel menntaður maður í nútíma þjóðfélagi skuli ekki skilja þetta. Það getur vel verið að hann eigi eftir að koma enn þá einu sinni og segja aftur með einhverjum öðrum orðum en áðan að hann skilji þetta ekki enn þá. En látið ykkur ekki detta í hug að þegar að því kemur að maður fer að hafa tekjur af eignum, að hann hafi fengið þær fyrirhafnarlaust. Þetta er eins og hver önnur þvæla.

Þjóðfélag okkar er ekki þannig þjóðfélag að það byggist upp á því að menn erfi frá einum til annars einhverjar stórtekjur. Það er hrein undantekning og má ekki gera að neinni algildri reglu til að byggja á hér á Alþ. Það fé, sem notað er í eignasköpun á Íslandi, er fé sem er afgangs þegar menn eru búnir að standa skil á sínum opinberu gjöldum, hvort sem þeir gera það með því að flýta framkvæmdum, með því að fá lánsfé og borga þá fyrir það í peningastofnunum eða þá byggja það upp eins og margir gera í hægagangi og rólegheitum af eigin afla og hugviti eða með aðstoð annarra. Við flytjum hér frv. eftir frv., eins og t. d. það frv. til l. sem var flutt á síðasta fundi þessarar hv. d. um að koma sjónvarpi sem allra fyrst og að sjálfsögðu hljóðvarpi líka á hvern einasta sveitabæ. Það átti að taka 1310 millj. kr. lán, sem átti að endurgreiðast með 40 millj. kr. árlegum viðbótarskatti á sjónvarpseigendur. Við erum að tala um að þetta sé spákaupmennska þegar einstaklingurinn gerir það. En svo er hv. Alþ. með till. fund eftir fund um að gera það sama. Það er eitthvað mikið bogið við þá menn sem prédika eitt þegar ríkið á í hlut og kannske hagsmunir þeirra, sem þeir vilja ganga í augun á — eins og kom hér fram áðan og var sneið til mín — en annað þegar einstaklingur gerir það.

Ég vil mótmæla því að það sé ekki fyrir þeim tekjum haft sem koma af eignum. Það er rangt. Það er búið að hafa mikið fyrir því að skapa það verðmæti sem gefur af sér áður en það fer að gefa tekjur. Ég vil einnig benda á það aftur að það fé, sem er notað til þess að skapa þau verðmæti sem geta gefið einstaklingunum tekjur, það eru peningar sem ríkið er þegar búið að fá sinn skerf af. Og þegar það er farið að verka keðjuverkandi á þessa sömu peninga og eignirnar, þá er það komið út fyrir þann ramma sem ég get talið eðlilegan að nota sér sem tekjur fyrir ríkissjóð. Þar komum við að öðru sem ég líka tók fram áðan, að þetta er í ríkissjóð ætlað, þetta er ekki til þess að gera einhvern fátækan ríkari.