12.12.1975
Neðri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég vit taka það fram að ég skildi fréttafrásagnir útvarps með öðrum hætti en hv. fyrirspyrjandi. Ég skildi þær svo að það væri frásögn af því að hæstv. utanrrh. hefði rakið gang mála og þar á meðal þær samningaviðræður sem átt hefðu sér stað áður en upp úr slitnaði og bretar hófu herskipaíhlutun á Íslandsmiðum og hann hefði greint frá því að áður en til þess hefði komið og upp úr hefði slitnað í viðræðunum hefðu íslendingar sett fram hugmynd um 65 þús. tonna ársafla bretum til handa.

Það er strax óhætt að svara fsp. hv. þm. neitandi og það geri ég bæði með tilvísun til yfirlýsinga minna og hæstv. utanrrh. hér í umræðum á þingi um landhelgismál, að tilboð um 65 þús. tonna ársafla væri niður fallið af tveim ástæðum: Í fyrsta lagi væri hér um tilboð að ræða sem hefði verið hafnað, og tilboð, sem er hafnað, er ekki í gildi. Í öðru lagi er ástæðan sú, að þegar bretar hófu herskipaíhlutun hér á Íslandsmiðum hlaut slíkt tilboð af sjálfu sér að vera niður fallið. Við höfum því báðir lýst því yfir og aðrir ráðh. fyrir hönd ríkisstj., að ef og þegar upp verða teknar viðræður við breta, sem þó verður ekki að óbreyttum skilyrðum og þarf mikið að breytast, þá verður að byrja að nýju.

Ég vil líka vitna til þess, að hæstv. utanrrh. greindi frá gangi mála á fundi Atlantshafsráðsins í ræðu sinni þar í gær og tók það skýrum orðum fram að tilboðið um 65 þús. tonn væri niður fallið og stæði ekki lengur. Hið sama kom fram hjá honum á blaðamannafundi, þannig að það er ekki til umræðu nú. Þá kom það einnig fram hjá hæstv. utanrrh. að hann væri ekki kominn þangað til að semja um eitt eða neitt við breta. Við höfum lýst því yfir að við erum ekki til viðræðu meðan bresk herskip eru innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.