12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

106. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Það má kannske líta svo á að það frv., sem hér er til umr., sé ekki veigamikil breyting frá því sem nú er. Ég held þó og kannske efast um að þm. almennt geri sér grein fyrir því hverju er hér í raun og veru verið að breyta. Eins og það blasir við mér, þá er hér um það að ræða að þeir póstar, sem eru á fjárlögum og varða þetta, verði þar teknir út og Byggingarsjóður ríkisins verði látinn annast þær greiðslur sem af því kunna að hljótast. Þetta er ekki mikið fjárhagsspursmál kannske eins og er í dag, en e. t. v. er þetta grunnur að stærra verkefni, sem hér er verið að færa yfir á Byggingarsjóð, heldur en verið hefur og er í dag. Mér sýnist að hér sé verið að leggja grunninn að enn einni útgáfu af því kerfi sem er kannske hvað mest sjálfrátt um eigin gerðir að því er varðar launagreiðslur og laun. Mér sýnist hér verið að leggja til að fara inn á sama svið og t. d. bankarnir hafa en eins og allir vita eru þeir með 13 mánuði í árinu og borga laun samkv. því og þar getur ríkið eða ríkissjóður engin áhrif haft á. Það er fyrir utan alla launastiga ríkis. Framkvæmdastofnun ríkisins er með sama marki brennd. Hún þarf ekki að taka neitt mið af því sem er að gerast á hinum almenna launamarkaði hjá ríkisstarfsmönnum eða slíku og getur því — og mun í sumum tilvikum hafa gert það — gengið á undan í því að sprengja upp það sem almennt gerist á vinnumarkaðnum.

Ég skal því segja það strax fyrir mitt leyti að ég er andvígur því að þetta verði gert. Ég tel að það eigi fremur að gera til þess ráðstafanir að draga úr því misræmi sem er í þessum efnum innan ríkiskerfisins, og ég á þar t. d. bæði við banka og Framkvæmdastofnun ríkisins, þannig að þessir aðilar geti ekki leikið lausum hala fyrir utan það kerfi sem er mest í gangi.

Í öðru lagi hlýtur þetta að hafa áhrif á fjármagn Byggingarsjóðsins. Eins og ég sagði áðan er hér, eins og nú er málum háttað, ekki um verulegar upphæðir að ræða, en enginu vafi er á því að þær munu á næstu árum aukast, kannske verulega, og hafa þá enn meiri áhrif á að minnka það fjármagn sem Byggingarsjóður ríkisins hefur til umráða til lánveitinga. Mig minnir að í athugasemdum fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir að þetta sé eitthvað á þriðju milljón á árinu 1976 að því er varðar Byggingarsjóð ríkisins, og svo kemur Byggingarsjóður verkamanna þar til viðbótar.

Ég tel sem sagt að þetta frv. sé þess eðlis að það sé ekki ástæða til þess, allra síst kannske nú, að breyta hér um. Hér er um það að ræða fyrst og fremst að losna við pósta út af fjárlagafrv. og fjárlögum til þess að setja á aðra anga kerfisins og þar með að lækka fjárlögin. En ég held að þessi breyting geti haft í för með sér æðimiklu meira ef þessu verður sleppt lausu af hálfu ríkisins, og ég er því andvígur þessu frv. og mun að sjálfsögðu greiða atkv. samkv. því