12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

115. mál, íslensk stafsetning

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Rétt áður en síðasta Alþ. lauk, á s. l. vori, var flutt till. til þál. um löggjöf um íslenska stafsetningu. Efni þeirrar þáltill. var að ríkisstj. skyldi falið að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu, en þangað til slík lög yrðu sett skyldi fylgja þeirri stafsetningu sem í gildi var áður en menntmrn. gaf út þær auglýsingar sem nú gilda um íslenska stafsetningu, þ. e. auglýsingu nr. 272 frá 4. sept. 1973 og nr. 132 frá 3. maí 1974. Áður hafði ég flutt frv. til l. um lögfestingu þeirrar stafsetningar sem í gildi hafði verið áður en tvær fyrrnefndar auglýsingar voru gefnar út af þáv. hæstv. menntmrh.

Frv. kom til 1. umr., en vonlaust var að Alþ. næði að taka afstöðu til þess sökum þess hve skammt var þá til þingloka. Þess vegna varð niðurstaða ýmissa þeirra sem fylgjandi voru því að hin fyrri stafsetning; sem gilt hafði í nær hálfa öld, yrði tekin upp aftur að flutt yrði till. til þál. um málið. Var hv. þm. Sverrir Hermannsson 1. flm. hennar, en hinir fjórir aðrir voru úr öðrum þingflokkum, öðrum en SF. Niðurstaða umr. um þessa þáltill. fimmmenninganna varð sú að till. var samþ. shlj. í því formi að ríkisstj. var falið að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu en hins vegar varð samkomulag um það milli flm. og hæstv. menntmrh. að niður skyldi fellt úr till. það ákvæði að þangað til slík lög yrðu sett skyldi fylgja fyrri stafsetningu. Í lok umr. um þáltill. lýsti hæstv. menntmrh. því yfir að hann teldi skynsamlegt að sett yrði löggjöf um íslenska stafsetningu. En svo sem kunnugt er hefur sú hefð ríkt á undanförnum áratugum að íslenskri stafsetningu eða stafsetningu íslenskrar tungu hefur verið skipað með auglýsingu frá menntmrn. Slík auglýsing var gefin út árið 1929 af þáv. menntmrh. Henni var breytt lítils háttar með nýrri auglýsingu, raunar frá fræðslumálastjóra, 1934, og þær reglur, sem þá komust á voru síðan í gildi í nær hálfa öld, þar til þeim var breytt með auglýsingum frá 1973 og 1974.

Það var meginatriði í rökstuðningi fyrir því frv. sem ég flutti á síðasta þingi um stafsetningu íslenskrar tungu, að eðlilegt væri að jafnmikilvægu máli og þar væri um að ræða væri skipað af sjálfu Alþ. með lagasetningu, en væri ekki háð ákvörðunarvaldi eins ráðh. sem tekið gæti ákvörðun um það með einfaldri stjórnvaldsauglýsingu. Á þessa skoðun féllst hæstv. núv. menntmrh. í yfirlýsingu sinni við lokaumr. málsins og tókst þar með á hendur að hafa frumkvæði um að löggjöf yrði samin um stafsetningu íslenskrar tungu.

Nú er komið fram að jólahléi þingsins og enn hefur ekki bólað á frv. af hálfu hæstv. menntmrh. um þetta mikilvæga mál, og hann mun ekki hafa falið neinni nefnd eða neinum sérfróðum mönnum að semja slíkt frv. Þess vegna höfum við sex þm. tekið okkur saman um að láta semja slíkt frv. sem er þess efnis að ef það yrði samþ. yrði lögfest í einu og öllu óbreytt sú stafsetning sem gilt hafði í næstum fimm áratugi eða þangað til breytingar voru gerðar með auglýsingum frá 1973 og 1974.

Ég tel rétt að það komi fram að hæstv. menntmrh. var að sjálfsögðu gert kunnugt um flutning þessa frv. áður en það var lagt fram og honum skýrt frá því að við teldum flutning frv. vera í algeru samræmi við þá yfirlýsingu sem hann hafði gefið á s. l. vori, væntanlega ekki aðeins frá eigin brjósti, heldur með samþykki hæstv. ríkisstj. allrar, að eðlilegt væri að Alþ. sjálft setti löggjöf um það hver vera skuli stafsetning íslenskrar nútímatungu.

Eftir að hæstv. menntmrh. gaf þá yfirlýsingu, sem ég hef nú rætt um, undirrituðu 33 alþm. áskorun á ráðh. að gera ráðstafanir til þess að stafsetning sú, sem gildi tók 1929, verði notuð við prentun þeirra skólabóka sem verið væri að undirbúa og nota næsta vetur. Með þessari áskorun hinna 33 alþm. kom fram augljós vilji meiri hl. alþm. fyrir því að halda fast við þá stafsetningu sem gilt hafði áður en fyrrnefndar auglýsingar voru gefnar út 1973 og 1974 og breyttu nær hálfrar aldar hefð varðandi opinbera stafsetningu íslenskrar tungu. En þessir 33 alþm. voru eftirtaldir, með leyfi hæstv. forseta:

Sverrir Hermannsson, Gunnlaugur Finnsson, Helgi F. Seljan, Gylfi Þ. Gíslason, Svava Jakobsdóttir, Benedikt Gröndal, Jónas Árnason, Sighvatur Björgvinsson, Eggert G. Þorsteinsson, Þórarinn Þórarinsson, Eyjólfur K. Jónsson, Ingi Tryggvason, Stefán Valgeirsson, Steingrímur Hermannsson, Jón Árm. Héðinsson, Oddur Ólafsson, Jón Helgason, Ingólfur Jónsson, Friðjón Þórðarson, Ragnhildur Helgadóttir, Jón Árnason, Sigurlaug Bjarnadóttir, Axel Jónsson, Geirþrúður H. Bernhöft, Ólafur G. Einarsson, Þorv. Garðar Kristjánsson, Guðmundur H. Garðarsson, Lárus Jónsson, Jón G. Sólnes, Garðar Sigurðsson, Guðrún Benediktsdóttir, Tómas Árnason, Jóhann Hafstein og Pétur Sigurðsson.

Okkur, sem höfðum forgöngu um undirritun þessarar áskorunar, var kunnugt um að ýmsir fleiri þm. voru reiðubúnir til þess að undirrita slíka áskorun til hæstv. menntmrh., og m. a. var okkur kunnugt um að ýmsir ráðh. voru sama sinnis, þannig að augljóst var að yfirgnæfandi meiri hl. alþm. á s. l. vori var því fylgjandi að aftur skyldi horfið að þeirri stafsetningu sem í gildi hafði verið í 4–5 áratugi áður en breyting var gerð fyrir skömmu. Þetta frv. er flutt í fullu trausti þess að skoðanir allra þessara þm. á málinu séu óbreyttar, og hafa raunar víðræður við meginhluta þeirra leitt í ljós að svo er, þannig að fastlega má gera ráð fyrir, að yfirgnæfandi meiri hl. í báðum deildum Alþ. sé fyrir meginefni þess. Ég endurtek, að með frv. þessu yrði lögfest í einu og öllu og án nokkurrar minnstu breytingar sú stafsetning sem kennd hafði verið í íslenskum skólum 4–5 áratugi áður en breytingarnar frá 1973–1974 voru gerðar.

Meginrökin fyrir því að breyta til og hverfa aftur að því skipulagi, sem hlotið hafði nær hálfrar aldar hefð, eru að sjálfsögðu þau að sérhverri menningarþjóð er mikilvægt að sem mest festa sé í stafsetningu tungu hennar. Það gefur auga leið að hagræði er að samræmdri stafsetningu í bókagerð, stjórnsýslu, safnstörfum og kennslu. Með nútíma ljósprentunartækni má spara stórfé við endurútgáfu hvers kyns rita, svo sem dýrra handbóka, orðabóka og annarra uppsláttarrita, en þá er auðvitað mikilvægt að ekki sé hringlað með stafsetningu til þess að eldri útgáfur haldi gildi sínu og komist verði hjá þeim gífurlega aukakostnaði sem hlýst af stafsetningarbreytingum. Af þessum sökum er um að ræða augljóst hagsmunamál fjölmargra aðila í landinu, bókaútgefenda, rithöfunda og annarra. Ætti raunar að vera óþarft á það að benda að á þeirri tölvutækniöld, sem við lífum, er festa í stafsetningu mikils virði við alla skýrslugerð, við gerð skráa sem raðað er í stafrófsröð, svo sem spjaldskráa í söfnum, o. s. frv.

Í þessu sambandi er alveg sérstök ástæða til þess að vekja athygli á og undirstrika að á þeirri tæpu hálfu öld sem sú stafsetning sem lagt er til að verði lögfest með þessu frv., hefur gilt, hefur séð dagsins ljós meginhluta alls prentaðs máls sem gefið hefur verið út á Íslandi frá upphafi vega. Breyting frá hinni hálfrar aldar gömlu stafsetningu mundi því þýða, ef hún fengi að haldast, að alger þáttaskil yrðu í stafsetningu á því sem út hefur komið á Íslandi og út kæmi á næstu hálfri öld, en það er að sjálfsögðu mjög óheppilegt. Það hefur nokkur skaði skeð á því tveggja ára tímabili sem liðið er síðan umræddar auglýsingar voru gefnar út, en hann er þó ekki meiri en svo að hann er auðbættur. Meginatriðið er að koma í veg fyrir að frekari skaði verði og að þau rit, sem út koma á næstu áratugum, verði með sömu stafsetningu og þeirri sem gilti í nær hálfa öld og ég endurtek: meginhluti alls prentaðs máls, sem til er á íslensku, er gefinn út samkvæmt.

Það er engin ástæða til þess að rekja einstök atriði frv., þ. e. í hverju hin fyrri stafsetning er fólgin. Hún er öllum fullorðnum mönnum ljós. Þeir hafa allir lært hana á skólabekk og kunna hana í meginatriðum. Ég endurtek aðeins að þetta frv. er í einu og öllu í samræmi við hina fyrri stafsetningu sem í gildi var áður en síðustu breytingar voru gerðar.

Þegar breytingin var gerð hefur þáv. menntmrh. eflaust gert ráð fyrir því að hún mundi heppnast í þeim skilningi að framkvæmd hennar mundi takast, að hin nýja stafsetning yrði tekin upp í raun og veru og breytingin hefði verulegt fylgi. Það hefur komið í ljós á þeim 2–3 árum, sem síðan hafa liðið, að þetta mat var ekki rétt. Síðan hinar nýju reglur voru settar hefur verið alger glundroði í íslenskum stafsetningarmálum. Ég nefni sem dæmi að ýmis rn. hafa ekki fylgt hinum nýju stafsetningarreglum, heldur haldið áfram að nota fyrri stafsetningu. Fjölmargir rithöfundar hafa ekki viljað taka upp hina nýju stafsetningu, heldur haldið áfram að skrifa bækur sínar og ritgerðir samkv. fyrri stafsetningu. Og svo að ég nefni sem síðasta dæmi, stærsta blað landsins, sem gefið er út í einum 40 þús. eintökum og má því telja að sé lesið á nær hverju einasta heimili á landinu, hefur ekki breytt stafsetningu sinni, heldur er enn ritað samkv. hinni gömlu stafsetningu. Má geta nærri hvílíkum glundroða það veldur þegar verulegur hluti almenns lestrarefnis í formi bóka og tímarita og blaða berst inn á heimili með annarri stafsetningu en þeirri sem börnum og unglingum er kennd í skólum.

Þá má þess og geta — og það skulu vera lokaorð mín — að fyrir um það bil ári beindu 100 þekktir íslendingar þeirri áskorun til hæstv. núv. menntmrh. að nema úr gildi auglýsingarnar frá 1913 og 1974 og gefa út tilskipun um að hverfa aftur að hinni fyrri stafsetningu. Áskorun þeirra er prentuð sem fskj. með frv., bæði áskorunin sjálf og nöfn þeirra 100 manna sem þessari áskorun beindu til hæstv. menntmrh. Ég vil aðeins láta þess getið að í hópi þessara 100 manna eru ýmsir af kunnustu menntamönnum og rithöfundum þjóðarinnar, ég hygg að óhætt sé að segja yfirgnæfandi meiri hluti þeirra manna sem kunnastir eru sem íslenskir rithöfundar og menntamenn. Ber það vott um að ekki er einungis að vitneskja liggur fyrir um vilja yfirgnæfandi meiri hl. alþm. í þessu máli, heldur liggur einnig fyrir vitneskja um vilja yfirgnæfandi meiri hl. hinna kunnustu mennta- og fræðimanna í þessu máli. Ætti því Alþ. með hinni bestu samvisku að geta afgreitt þetta mál og leyst þannig úr menningarvanda, sem skapast hefur á undanförnum árum, og tryggt það, sem ég tel vera meginatriði málsins, að íslenskt lesmál, sem birt verður næstu hálfa öld og um alla framtíð að ég vona, verði með þeirri sömu stafsetningu og meginhluti þess lesmáls sem nú er tiltækilegt á íslenskri tungu.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.