16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

1. mál, fjárlög 1976

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð við lok þessarar umr., 2. umr. fjárlagafrv.

Ég vil leyfa mér að færa nm. fjvn. og form. fjvn. þakkir fyrir störf þeirra í sambandi við fjárlagafrv. og þá miklu vinnu sem þeir hafa innt af hendi nú eins og endranær. Ég vil jafnframt þakka starfsmönnum fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og fjmrn. fyrir aðstoð þeirra við fjvn. og fyrir þá vinnu sem þeir hafa innt af hendi. En í þessu sambandi langar mig að víkja örlítið að því sem hér hefur komið fram um vinnubrögð í sambandi við fjárlagagerðina og vinnubrögð í fjvn.

Ég hef setið á þingi síðan 1959 og fylgst með fjárlagagerð og störfum fjvn. Mér er auðvitað ljóst að vinnubrögð á hinum ýmsu þingum eru sjálfsagt ekki eins, en ég get ekki fallist á að á vinnubrögðum hafi nú orðið neinar þær breytingar, miðað við það sem ég þekki til, sem ástæða sé sérstaklega að nefna. Það hefur ævinlega verið svo, að þegar komið er nær jólum og miðað við að ljúka fjárlagagerð fyrir jólaleyfi, þá hafa síðustu dagar þingsins verið mjög annasamir, og það er ekkert nýtt við það nú, nema ef svo væri að þingfundir hafa ekki mjög oft verið hér að kvöldi til eða jafnvel að næturlagi. Hvort bæta megi um vinnubrögð í sambandi við störf fjvn. að fjárlagafrv., það getur að sjálfsögðu verið til skoðunar, en ég held að það sé ekki nein sú breyt. nú, eins og ég sagði áðan, sem orð er á gerandi, og ég get ekki fallist á það, sem hér var sagt, að þær upplýsingar, sem fjvn. hefur óskað eftir, hafi ekki fengist. Ég get ekki fallist á að það hafi ekki verið reynt að koma þeim upplýsingum til fjvn. sem beðið hefur verið um. Það var að vísu tekið fram að það mætti ekki taka þetta svo að verið væri að víkja að form. fjvn., og orðalagið held ég þannig að það væri ekki ætlað að fjmrh. vildi ekki að upplýsingar bærust til fjvn. Mér er ekki kunnugt um að þeir embættismenn, sem nú eins og áður vinna með fjvn. að fjárlagafrv., hafi ekki verið við, tilbúnir til þess að aðstoða, tilbúnir til þess að gefa upplýsingar, og ég vil ekki láta þessa umr. ljúka, eftir að á þetta hefur verið minnst, öðruvísi en að láta það koma hér fram að ég held að hér sé ekki farið með rétt mál. Ef einhverjar upplýsingar hafa ekki fengist frá embættismönnum, þá er sjálfsagt að bæta þar um, og ég veit að það er þá eitthvað annað en viljaskortur þeirra til að koma þeim upplýsingum til fjvn. sem hún hefur beðið um.

Ég vil taka undir þau orð, sem form. fjvn. viðhafði hér í upphafi sinnar ræðu, og þakka þau sjónarmið, sem hann þar setti fram sem sjónarmið meiri hl. fjvn. varðandi afgreiðslu þessa frv. Það er auðvitað ljóst, að miðað við þær aðstæður, sem nú eru, verður að hafa þau vinnubrögð við fjárlagagerð að þar verður að sjálfsögðu ekki á mörgum stöðum hægt að gera allt það sem beðið er um. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þannig er ástand okkar í efnahagsmálum, og það er vænlegra til árangurs fyrir okkur að við gerum okkur grein fyrir þeirri staðreynd. Mér er hins vegar ljóst, að enda þótt við þessar umr. komi ekki till. um breyt. á fjárlagafrv. með háar upphæðir, þá eru óafgreidd mál, eins og hér hefur komið fram, til 3. umr., og í ræðu minni við 1. umr. fjárlaga gerði ég grein fyrir atriðum sem taka þyrfti til meðferðar við lokaafgreiðslu fjárl., og ég vonast til þess að hægt verði að gera það. Það eru atriði sem nauðsynlegt er fyrir fjárlagaafgreiðsluna að tekið verði til meðferðar og til afgreiðslu. Mér er ljóst, að til þess að það sé hægt þurfa að koma til aðrar ráðstafanir en hér liggur fyrir og sjálfsagt hafa þau atriði skýrst við 3. umr.

Varðandi málflutning stjórnarandstæðinga hér, þá er athyglisvert að bera hann saman við málflutning á s. l. ári, þegar frv. til fjárl. fyrir árið 1975 var til meðferðar, og gera sér grein fyrir því, sem þá var sagt, og því, sem hér hefur verið sagt í kvöld, og sjá hvernig þá var annað hljóð í strokknum heldur en í kvöld. Það voru vissulega há fjárl., miðað við fjárl. ársins á undan, sem voru hér til meðferðar þegar frv. til fjárl. fyrir árið 1975 var til umr. Þá var um að ræða fjárl. sem stefndu í áframhaldandi verðbólgu, að sagt var, enda þótt aðilar gerðu sér grein fyrir því að tölur þessa fjárlagafrv. voru afleiðing af mikilli verðbólgu. Þrátt fyrir það sem gerst hefur á þessu ári, en í efnahagsmálum hafa verið aðgerðir sem því miður varð að gera, þá er það frv., sem lagt var nú fyrir Alþ., aðeins með hækkun upp á 21.5% Og mönnum er ljóst að tekist hefur að hægja á verðbólguþróuninni, þannig að á seinustu 6 mánuðum er verðbólgan komin ofan í 30% á ársgrundvelli miðað við 54.6% áður. Ég skil mjög vel þegar stjórnarandstæðingar koma til að gagnrýna, vitandi þessa hluti. Þeim er þá ljóst að sú stefna, sem núv. ríkisstj. hefur haft í efnahags- og fjármálum, hefur þegar sýnt árangur. Þeim er ljóst að það frv., sem hér er til meðferðar, stefnir að því að draga úr þeirri spennu sem verið hefur. Það er engin leynd yfir því að það er dregið úr opinberum framkvæmdum. Það er ætlunin, án þess að til atvinnuleysis komi, og það er kannske þess vegna sem niðurstaða ríkissjóðs á árinu 1975 verður ekki sem skyldi, að vegna varkárni var ekki lagður til meiri samdráttur á þessu ári en raun ber vitni, og þá fyrst og fremst hugsað út frá því að hægt væri að halda fullri atvinnu í landinu.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri, vildi aðeins láta þetta koma hér fram um leið og ég endurtek þakkir til hv. fjvn.