17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum fsp. sem ég skal leitast við að svara.

Það er í fyrsta lagi hvort fyrir liggi yfirlit um hvernig þessi verkefna- og tilkostnaðartilfærsla muni koma út hjá einstökum sveitarfélögum. Það var hv. 2. þm. Vestf. sem spurði um þetta mál. Framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga mun hafa lagt í það töluverða vinnu a'ð gera slíkt yfirlit, og að því leyti sem það liggur fyrir vænti ég að félmn. geti fengið þær upplýsingar á sinn fund, enda í rauninni verið gert ráð fyrir að boða framkvæmdastjórann á fundinn.

Í öðru lagi var spurt um það, hvort notuð yrði heimild sem er í lögum til þess að draga frá framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna eftir kröfu Ríkisábyrgðasjóðs það sem sveitarfélög kynnu að vera í vanskilum með, en svo er ákveðið í 14. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga: „Nú kemst sveitarfélag í vanskil með greiðslur vegna veittra ríkisábyrgða, og er ráðuneytinu þá heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi af framlagi til sveitarfélagsins, eftir því sem til vinnst.“ Nú er sá viðauki af söluskatti, sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin fái til þeirra ákveðnu verkefna sem hér eru talin, nokkuð sérstaks eðlis, og ég vil taka það fram að ég tel rétt að ekki verði dregið frá þessum hluta framlaganna vegna vanskila út af veittum ríkisábyrgðum. Ætlast er til þess að þetta fé fari til þess að mæta þessum sérstöku verkefnum og því ekki eðlilegt að skerða það.

Þá var spurt fyrir um það, hvort fylgt yrði varðandi þessa úthlutun hinni almennu úthlutunarreglu Jöfnunarsjóðs sem er úthlutun eftir íbúatölu hvers sveitarfélags. Út af því vil ég taka fram að lög um Jöfnunarsjóð gera ráð fyrir að aukaframlag skuli greiða til þeirra sveitarfélaga sem skortir tekjur til greiðslu lögboðinna gjalda eða óhjákvæmilegra útgjalda, enda hafi þau lagt á fullt útsvar samkv. 25. gr. Þessi heimild hefur verið notuð alloft þegar sveitarfélög hafa átt í vissum erfiðleikum, og þá koma slík framlög til viðbótar þeirri úthlutun sem fer fram samkv. höfðatölureglunni. Ef einhver sveitarfélög verða illa úti vegna þessa verkefnatilflutnings er réttmætt og sjálfsagt að grípa til slíkra aukaframlaga. En í sambandi við þetta vil ég taka fram að Samband ísl. sveitarfélaga hefur óskað eftir endurskoðun á lögum í þessu efni, og er svo tekið fram í ályktun stjórnarfundar sambandsins frá 6. sept. að lögum um Jöfnunarsjóð verði breytt þannig að hlutdeild aukaframlaga verði aukin og þeim sveitarfélögum verði veitt aukaframlög sem verði fyrir tjóni vegna verkefnayfirfærslunnar. Að vísu er ekki neitt ákvæði í þessa átt í frv. sem hér liggur fyrir, en það er hvort tveggja, að núgildandi lög hafa sæmilega rúma heimild í þessu skyni og auk þess verður það tekið til athugunar nú mjög skjótlega í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga hvort rétt sé að rýmka þetta ákvæði.

Þá var spurst fyrir um það hvort notuð yrði heimild laga um tekjustofna sveitarfélaga til þess að leyfa sveitarfélögum að leggja ellefta útsvarsprósentið á. Svo er ákveðið í 25. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga: „Nú hrökkva útsvör samkv. 1. málsgr..“ — þ. e. a. s. allt að 10% — „ekki fyrir áætluðum útgjöldum, og er þá sveitarstjórn heimilt að hækka þau um 10%, að fengnu samþykki ráðh.“ Á s. l. ári, 1974, var synjað um þessa viðbótarálagningu þó að mörg sveitarfélög færu fram á hana. Enginn vafi er á því að þessi synjun olli mörgum sveitarfélögum miklum fjárhagserfiðleikum. Í ár var hins vegar ákveðið að nota þessa heimild. Varðandi næsta ár, 1976, vil ég taka það fram að ef sveitarfélag fer fram á leyfi til að leggja á 11% og þarf á því að halda tel ég ekki rétt að synja um það.

Ég vil svo að lokum taka það fram að fyrir dyrum stendur, eins og ég gat um áðan, allsherjarendurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaganna, og vil endurtaka að það verður orðið við tilmælum Sambands ísl. sveitarfélaga um að koma á fót samstarfsnefnd ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta mál og ætlunin að þeirri samstarfsnefnd verði komið á fót nú fyrir lok þessa árs. Þær breytingar, sem hér er um að ræða, eru náttúrlega að verulegu leyti bráðabirgðabreytingar, og vissulega er það rétt, að æskilegt hefði verið að skoða ýmis atriði þeirra nokkru nánar. En aðalatriðið er það, að málið í heild verður nú tekið til gagngerrar endurskoðunar og sú endurskoðun verður auðvitað að byggjast á því að meta hvaða verkefni eru betur komin hjá sveitarfélögunum en ríkinu og því eðlilegt að sveitarfélögin taki að sér. Það grundvallarsjónarmið verður að hafa að frumkvæði og framkvæmdir og fjármálaábyrgð sé sem mest á einni og sömu hendinni.