17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

119. mál, tollskrá o.fl.

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að óska eftir því við forseta að hann beiti áhrifum sínum við fjh.- og viðskn. til þess að brtt. sú, sem ég flutti við lög um tollskrá o. fl. á þskj. 86 þó nokkru áður en tollskráin var lögð fram, verði tekin til meðferðar hér í þessari hv. d., eins og til var ætlast af mér sem flm. þegar ég flutti hana, en ekki söltuð í höndum formanns fjh.- og viðskn. á þeim forsendum einum að neikvæð umsögn hafi borist frá fjmrn., sem sagt af ótta við að hv. þm. þessarar d. gætu hugsanlega samþykkt þessa till. sem gengur aðeins út á það að vörur, sem berast í einni sendingu í staðinn fyrir mörgum, verði tollflokkaðar samkvæmt þeim tollflokkum sem viðkomandi vörur eiga heima í. Ég fer þess á leit að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að sú till. mín verði hér til umr. við 3. umr. þessa frv. til l. um tollskrá og hljóti þar með þá þinglegu meðferð sem hún á að fá, en verði ekki svæfð í hv. fjh.- og viðskn.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það sem hér hefur verið sagt, en vil þó vekja athygli á því, sem ég gat ekki komist hjá að renna huganum að þegar hv. frsm. fjh.og viðskn., Halldór Ásgrímsson, hélt sína framsöguræðu og talaði þar einu sinni eða tvisvar um að á tímabilinu til 1980 mundum við verða fyrir tekjumissi sem næmi um 4000 millj. Ég get ekki ímyndað mér að við séum að gera samninga við erlend ríki sem gera það að verkum að við töpum, að það sé mismunun í samskiptum okkar við Efnahagsbandalagsríkin. Ég vona að sá misskilningur verði leiðréttur. (Gripið fram í: Tekjumissir.) Tekjumissir, það hlýtur eitthvað að koma í staðinn, þannig að þetta getur ekki verið mismunurinn á því, sem við fáum, og á því, sem við missum. Ef svo er og nauðsynlegt er að halda áfram 18% vörugjaldi til þess að vega þar upp á móti, eins og kom fram hjá hv. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni, þá er verr farið en heima setið. En þetta hlýtur að verða auðvelt að leiðrétta.

Ég er mjög óánægður með meðferð mála hér og þá sérstaklega þess máls, sem er hér til umr., og nota þar sömu rök og hv. frsm., Halldór Ásgrímsson, notaði fyrr í kvöld úr þessum ræðustól, þegar hann talaði um það mál sem var hér til umr., á þskj. 177, og hann óskaði eftir því að hafa nægan tíma til að athuga frv. vel til að sníða af því vankanta. Ég tek undir þetta. Það hefur verið ósk mín frá því að þetta frv. var lagt fram, það er mín ósk enn þá. En ég verð að segja að það, sem hefur valdið mér hvað mestum vonbrigðum, er að það hefur hreinlega ekki verið hlustað á þau mál, sem ég hef haft áhuga á, nema eitt og það er um lækkun á tollum til fiskvinnsluvéla, af því að ég vildi eins og fleiri hv. alþm. fá fiskiðnaðinn viðurkenndan sem samkeppnisiðnað. En það var ekki fyrr en það hafði skeð milli funda að lækkaðir höfðu verið tollar á ýmsum vélum til landbúnaðar. Það var tilkynnt á síðasta fundi n. að það hafi gerst á milli funda. Hverjir sem hafa samþ. það, þá eru það ekki við sem erum nm, í fjh.og viðskn. Það hlýtur að hafa gerst í ráðuneytunum. Það hlýtur að hafa verið embættismannagjörð eins og margt annað.

En hvað þennan lið, vélar til fiskvinnslu, snertir, þá vil ég ganga lengra. Þar af leiðandi hef ég haft það með í þeim brtt. sem ég flyt. Ég get ekki séð það sé réttlætanlegra að viðurkenna landbúnað sem samkeppnisiðnað frekar en fiskvinnslu.

Nú er í frv. til l. um tollskrá gert ráð fyrir að fjáröflunartollar verði ekki lækkaðir fyrr en árið 1978 og þá um aðeins 90 millj. Telja verður að hér sé um allsendis ófullnægjandi lækkun að ræða. Lækkunin hefði átt að byrja strax á árinu 1977 og vera mun meiri en þessu nemur. Háir fjáröflunartollar, sem í gildi eru á sama tíma og verið er að lækka tolla á öðrum vörum, leiða einungis til þess að almenningur og fyrirtæki haga innkaupum sínum á annan hátt en þau ella hefðu gert. Að knýja fyrirtæki og einstaklinga til að gera slíkar breytingar á innkaupum sínum leiðir einungis til óhagkvæmari innkaupa. Á það verður því að leggja ríka áherslu að æskilegt hefði verið að fjáröflunartollar væru lækkaðir mun meira en stefnt er að í þessu frv., og tek ég undir þau orð, sem hér féllu áðan frá hv. 1. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni, hvað það snertir.

Enn fremur verður að leggja á það áherslu, að það veldur miklum vonbrigðum að áfram skuli vera fyrirhugað að taka 18% vörugjald af innflutningi enda þótt þeim, sem í innflutningi standa, sé löngu orðið ljóst að sú skattheimta hefur alla ókosti og engan kost og ætti því að falla algjörlega niður. Við vitum, að ríkisstj. þarf á tekjum að halda, og álítum, að finna þurfi annan tekjustofn í staðinn fyrir vörugjaldið.

Ekki verður fram hjá því lítið að frv., eins og það er, gefur Efnahagsbandalaginu afar mikla tollvernd umfram önnur ríki. Það held ég að sé öllum ljóst. Tollar á vörum fluttum inn frá bandalagslöndunum eru svo miklu lægri og verða svo miklu lægri en tollar á sömu vörum frá öðrum löndum utan bandalagsins, að innflytjendur hljóta að flytja inn vörur frá bandalagslöndunum fremur en öðrum löndum enda þótt verð þeirra sé allmiklu hærra í bandalagslöndunum. Hér er vitanlega ekki um að ræða sérstaka íslenska hagsmuni, að viðhalda slíkri tollvernd fyrir bandalögin, heldur er um að ræða mál bandalagsins í heild, og því getur það ekki verið hagsmunamál íslendinga að hafa meiri mun á ytri tollum og bandalagstollum en önnur bandalagslönd gera. Enda þótt stefnt sé að því að hinn ytri tollur verði yfirleitt á bilinu 4 og upp í 22% og enda þótt þær tollprósentutölur séu út af fyrir sig ekki aðrar en hjá mörgum öðrum bandalagslöndum, þá er samt ástæða til að ætla að allmiklu fleiri vöruflokkar lendi hér á landi í hærri ytri tollum en í bandalagslöndunum sem þýðir að Ísland veitir bandalaginu meiri tollvernd en önnur bandalagsríki gera. Þetta mál þarf að athuga miklu betur með það fyrir augum að hinir ytri tollar séu lækkaðir meira en stefnt er að í frv.

Tollstefna hefur margvísleg áhrif á hagþróunina í landinu og virðist sem því sé ekki nægilegur gaumur gefinn í frv. Þannig kemur fram mikill mismunur á tolli skyldra vara. Mikill munur kemur fram í tolli á hinum ýmsu vinnslustigum vörunnar, og er ýmist að hráefni er með hærri tolli eða lægri tolli en hin fullunna vara. Einnig er mikill munur orðinn á tolli vöru eftir því frá hvaða löndum hún er flutt inn, hvort hún er flutt inn frá markaðsbandalagslöndunum eða löndum utan þessara bandalaga. Allur þessi tollamunur veldur því að eðlileg hagþróun í landinu verður fyrir mikilli truflun. Hin truflandi áhrif tollanna á hagþróunina verða vitaskuld því minni sem tollar verða almennt lægri, þannig að búast má við að úr þeim dragi af þeim sökum á næstu árum. En þó er það engan veginn víst, þar sem ekki hefur verið athugað nægilega vel hvort tollmunur aukist ekki hlutfallslega við það að tollurinn sé færður niður.

Ég flyt hér till. um breytingu á tolli einstakra vöruflokka sem hægt er að segja að séu einungis smávægilegar lagfæringar. Hér er því að svo stöddu ekki um að ræða brtt. sem lúta að grundvallaratriðum í meðferð tollalaga, heldur einungis nokkrar lagfæringar. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það sem stendur hér á þskj. 213 sem útbýtt hefur verið í deildinni, ég vil hlífa hv. kollegum mínum við þeim lestri, en vona að þeir eyði tíma í að kynna sér það sem þar stendur.

Ég vil þó gera stutta grein fyrir hverjum lið fyrir sig og byrja þá á 33.06.12, ilmvötn, hreinlætis- og snyrtivörur í settum, það verði fellt niður. Þessar vörur bera misjafnan toll, frá 35% upp í 100%. Vel er hugsanlegt að allar vörueiningar innan slíks setts bæru lægri toll en 100% og því er óeðlilegt að pökkunin ein leiði til hækkunar á tolli.

Hvað snertir tollskrárnr. 44.04 og 44.05 er lagt til að mismunur tolla verði minnkaður. Lægri tollur á harðviði en mjúkviði leiðir til gjaldeyrissóunar við innflutning á timbri. Ekkert er því til fyrirstöðu að kantaðir trjábolir 44.04 séu fluttir inn og unnir frekar sem hráefni til iðnaðar. Trjáviður í 44.05.11 og 19 er nú verulega mikið notaður til smíða og þá í beinni samkeppni við vörur í 44.23. Er furðulegt að iðnaðinum skuli ætlað að greiða mun hærri toll af hráefninu en innflytjandi þarf að greiða af fullunninni samkeppnisvöru. Er því lagt til að tollur þessa hráefnis verði gerður jafn E-tolli á fullunninni vöru í 44.23.01, 02 og 03.

Í 82.09.09 er lagt til að tollurinn lækki í 25%. Innflytjendur telja að allt að 95% hnífa, sem falla undir þennan líð, séu hnífar notaðir í fiskiðnaði. Afgangurinn er búrhnífar, en fólk kaupir 1–2 slíka hnífa alla sína búskapartíð. Tollheimta þessi bitnar því að mestu á fiskiðnaðinum.

Í 85.06.20 eru loftræstitæki og viftur. Lagt er til að þessar vörur verði ekki tollaðar sem búsáhöld. Viftur eru að verulegu leyti fluttar inn til iðnaðarþarfa og því óeðlilegt að tolla þær eins og búsáhöld, enda virðast þær ekki eiga heima í þeim tollflokki. Er því lagt til að þær verði tollaðar á sama hátt og vörur í 84.11.49, enda erfitt að greina þar á milli.

Í 87.14.49 er lagt til að tollurinn lækki úr 35% í 30%. Þessar vörur eru í gildandi tollskrá í 87.14.01 með 34% tolli og virðist hækkun þessa tolls því hljóta að stafa af misgáningi.

91.01, vasa- og armbandsúr, lagt er til að tollurinn lækki úr 35% í 10%. Talið er að verulegur hluti af innflutningi á úrum til landsins eigi sér stað án þess að af þeim sé greiddur tollur. Er hér átt við úr sem íslenskir ferðalangar kaupa erlendis, og tapast þar tolltekjur. Með lækkun tolls má ætla að eðlilegur innflutningur ykist og vafasamt að tolltekjur ríkisins minnkuðu þrátt fyrir lækkunina. Gjaldeyrislega séð yrði einnig hagnaður af því ef úrin yrðu flutt inn eftir eðlilegum leiðum í stað þess að vera keypt í smásölu af hverjum einstaklingi.

Ég vil þá fletta upp 3. gr. frv., sem liggur hér fyrir til umr. og afgreiðslu, og koma þar að tölulið 41. Liðurinn hljóðar svo: „Að lækka toll úr 90% í 40% af bifreiðum til bifreiðastjóra sem hafa akstur leigubifreiða til fólksflutnings, akstur sendibifreiða eða kennslu í bifreiðaakstri að aðalstarfi. Enn fremur er heimilt að lækka toll úr 90% í 65% af bifreiðum til bifreiðastjóra sem hafa slíkan akstur að aukastarfi.“ Hér er lagt til að lækkun tolls úr 90 í 40 breytist í að lækka toll úr 90 í 30. Sanngjarnt verður að teljast að þeir, sem hafa atvinnu sína af rekstri leigubifreiða til mannflutnings eða sendibifreiða, njóti sömu kjara og aðrir atvinnubifreiðastjórar, enda munu vilyrði hafa fengist fyrir því að svo yrði gert við endurskoðun þessarar tollskrár. Kemur það vilyrði fram í bréfi sem mér hefur borist frá Samtökum atvinnubifreiðastjóra eða leigubifreiðastjóra.

Þá er það liður 54 í sömu gr., en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Að endurgreiða eða lækka í 50% toll af merktum borðbúnaði í tollnr. 69.11.00, 69.12.00, 70.13.00, 73.38.11, 73.38.19, 82.09.01 og 82.14.00 sem fluttur er inn til veitingarekstrar af hótel- og veitingahúseigendum, svo og af merktum borðbúnaði fyrir spítala, hæli, elliheimili og aðrar heilsugæslustöðvar.“ Í stað orðanna „að endurgreiða eða lækka í 50%“ komi: að fella niður. Ekki virðist ástæða til að tolla merktan búnað spítala, hæla, elliheimila eða heilsugæslustöðva. Hótel- og veitingahús, sem hér kæmu til greina, eru gjaldeyrisaflandi fyrirtæki og ástæða til að styðja rekstur þeirra.

1. málsgr. 4. gr, er það löng að ég ætla mér að sleppa að lesa hana. Hv. þm, hafa hana eflaust fyrir framan sig. En brtt. mín er sú, að á eftir orðunum „þó ekki lægri verðtoll en 5% komi : Ef um er að ræða muni, sem sendir hafa verið utan til viðgerðar á göllum sem seljandi ber ábyrgð á, skal aðeins krafist tolls af sendingarkostnaði, enda séu færðar sönnur á að viðgerðin hafi verið ókeypis og ábyrgð innifalin í upphaflegu tollverði vörunnar.“ Hér eru einkum höfð í huga nákvæmnistæki, linsur í myndavélar, rafeindatæki o, fl. sem vandkvæði eru á að gera við hérlendis og seljandi hefur selt með ákveðinni ábyrgð. Að sjálfsögðu hefur verið tekið tillit til þeirrar ábyrgðar í söluverði vörunnar og tollur þar með greiddur af ábyrgðinni í upphaflegu tollverði. Eigi að borga toll á nýjan leik af ókeypis viðgerð er um tvítollun að ræða. Vandamál hafa komið upp í þessu sambandi varðandi það, hver eigi að borga tollinn, en seljandi telur sig fullnægja ábyrgðinni með því að afhenda á ný viðgerðan eða nýjan hlut í stað hins gallaða.

Þá vil ég leyfa mér að fletta hér til 20. gr. Ég legg til að 2. mgr. falli niður, og ástæðan er sú að þessi viðurlög virðast ástæðulaus. Rangt tollskrárnúmer má oftast rekja til afsakanlegra mistaka. Hlutverk tollskoðunar á að vera að leiðrétta slíkt, og það er undarlegt að álíta að allar villur um tollskrármerkingu eða tollskrárnúmer, sem kunna að koma fyrir, séu vísvitandi tilraun til tollsvika. Endurskoðunin á að hafa hér gætur á.

Í brtt. við 21. gr. er lagt til að skilyrði fyrir afhendingu neyðarsendinga séu rýmkuð. Þau tilvik, sem um ræðir, eru væntanlega fá, en fyrir getur komið að ógerlegt sé að uppfylla sett skilyrði innan þess tíma sem neyðarsending þarf að fást afhent. Þetta held ég að sé skiljanlegt.

Í niðurlagi 23. gr. falli niður orðin „stöðvun tollafgreiðslu til hlutaðeigandi aðila.“ Ástæður geta orðið þær að viðtakandi geti ekki uppfyllt þessi atriði innan ákveðins tíma. Önnur viðurlög, sem nefnd eru, ættu að veita nægilegt aðhald, en stöðvun á tollafgreiðslu getur riðið hvaða fyrirtæki sem er að fullu. Ég tek það sem gefinn hlut að ég þurfi ekki að lesa greinina sjálfa svo ég held áfram.

Brtt. við 36. gr. er um að hím falli niður. Ástæðan er að ekki verður betur séð en vöruskoðun í tolli sé eðlilegur og sjálfsagður þáttur í starfi tollgæslunnar og óeðlilegt sé að sá hluti kostnaðar við tollgæslu leggist sérstaklega á þær vörusendingar sem sérstaklega eru skoðaðar hverju sinni að ósk tollþjónustunnar.

Athygli er vakin á því að undirnúmerum í tollskrá hefur fjölgað mjög verulega án þess að sú aukna aðgreining hafi í för með sér breytingar á tolli, Á þetta sérstaklega við um kaflana yfir vefnaðarvöru og fatnað. Þessi fjölgun númera hefur í för með sér mjög verulega aukningu á vinnu við færslu tollreikninga þar sem oft þarf að sundurgreina margar vörueiningar sama vörureiknings enda þótt tollur sé hinn sami og sama tollnúmer hafi gilt til þessa. E. t. v. væri eðlilegt að Hagstofan, sem fær í hendur alla vöru- og tollreikninga, annaðist þessa skýrslugerð.

Þá er athygli vakin á því hversu oft er vísað til nánari ákvörðun fjmrn. um ýmis atriði. Æskilegt væri að lögin væru þannig úr garði gerð að ákvæðin væru skýr og greinileg og sem allra fæst vafaatriði skilin eftir öðrum til úrlausnar.

Ég vil að lokum — með leyfi forseta — vitna hér, eins og fleiri hafa gert á undan mér, í bréf sem mér hafa borist og þá fyrst frá Félagi sérleyfishafa. Það er sama bréf og hv. þm. Jón Árm. Héðinsson, 1. landsk. þm., nefndi. En hann hefur auðsjáanlega ekki lesið bréfið til enda þar sem hann tók sérstaklega fram að hann vildi vekja athygli á erindi Félags sérleyfishafa, en hann taldi það vera of seint komið til þess að það yrði tekið á þessu stigi til meðferðar. En það, sem hann las ekki eru lokaorðin, og ég ætla mér — með leyfi forseta — að gera það, en þau hljóða svo:

„Við viljum loks taka fram að mál þessi hafa oft verið rædd við fulltrúa fjmrn, og vonuðumst við fastlega eftir leiðréttingu þaðan. Í framangreindu frv. er ekki að sjá neinar vonir í þá átt, og neyðumst við því til að snúa okkur til hæstv. Alþ. í trausti þess að hljóta skilning á þessu sanngirnis- og nauðsynjamáli, Við förum góðfúslega fram á að fá að ræða við hæstv. fjh.- og viðskn. eða fulltrúa hennar áður en mál þessi verða afgreidd.“

Nú skal ég ekki segja hvort tími er til að kalla þá, sem veita Félagi sérleyfishafa forustu, á fund fjh.- og viðskn. En erindinu er komið til skila bæði með þessum upplestri okkar þingmannanna, Jóns Árm. Héðinssonar, 1. landsk. þm., og mínum og með tillöguflutningi mínum.

Þá hefur borist bréf frá Kaupmannasamtökum Íslands sem ég ætla að leyfa mér að lesa því að það hlýtur að falla í sæmilegan jarðveg, þ. e. hluti þess um landbúnaðarmál. Það er bréf sem er skrifað 14. des. til fjmrh. og afrit hefur verið sent til Guðmundar H. Garðarssonar, Ólafs G. Einarssonar, Ellerts B. Schram og Alberts Guðmundssonar. Bréfið hljóðar svo, með leyfi forseta :

„Í tilefni af því, að nú liggur fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á gildandi tollskrá, vilja Kaupmannasamtök Íslands koma á framfæri við yður eftirfarandi athugasemdum:

Á undanförnum árum hafa Kaupmannasamtök Íslands vakið athygli ráðamanna á því, að tollar hafa í mjög miklum mæli áhrif á afkomu smásöluverslana, en smásöluverslun er sá aðili sem endanlega innheimtir tollinn af flestum vörutegundum úr hendi neytenda. Tollar hafa áhrif á afkomu smásöluverslana í fyrsta lagi sem hluti af almennu vöruverði og í öðru lagi sem hluti verðs á ýmsum tækjum og áhöldum sem nauðsynleg eru til rekstrar verslana. Smásöluverslunin er í raun og veru síðasti hluti framleiðslustigs vörunnar, enda er hlutverk hennar að dreifa vörunni til neytenda. Er því eðlilegt að hún njóti sömu tollkjara og ýmsar tegundir framleiðslufyrirtækja. Tollar af kæli- og djúpfrystiafgreiðsluborðum, kæliklefum, innréttingum og hillum til verslana eru mun hærri heldur en á öðrum áhöldum sem notuð eru samhliða þeim í verslunum, t. d, eins og kjötsög og kjötvinnsluvélum. Tollar á kæli- og djúpfrystiafgreiðsluborðum, sbr. tollskrárnr. 84.15.11, eru 35%. Tollar á kæliklefa samkvæmt tollnr. 73.21.09 eru 30% utan EFTA, en 16% innan EFTA. Innréttingar og hillur í verslanir eru nú tollflokkaðar samkvæmt tollflokksnr. 94.03:01 eða með um 24% tolli. Kjötsagir, vogir og ýmsar vinnsluvélar eru aftur á móti með 7% tolli, og þar að auki eru tollar á öðrum tækjum innan við 7%. Athygli skal jafnframt vakin á því, að í kjötverslunum fer fram í flestum tilfellum bein framleiðsla á matvælum. Eins og áður sagði hafa tollar viðtæk áhrif á afkomu allra greina smásöluverslunar, og óskum við eftir því að fá viðræður við yður um frekari till. vorar í þessum efnum. Það er ósk vor að þér, herra fjmrh., takið þessar ábendingar vorar til greina þar sem mjög sterk rök liggja máli voru til stuðnings.“

Þetta er annað erindið, sem ég við þessa 2. umr. um tollafrv. kem hér með á framfæri við þessa hv. d. og fjh: og viðskn. Það er dagsett 14. des, 1976.

Ég vil þá ljúka tilvitnun í bréfi með því að lesa aðeins fyrsta lið bréfs Bandalags leigubifreiðastjóra, en þeir segja á undan þessum kafla að samtökin telji þar brýna nauðsyn á lausn vegna ört versnandi afkomu meðlima og vilji gefa eftirfarandi upplýsingar, en það er sem sagt það fyrsta: „Við núverandi endurskoðun tollskrár verði leigu- og sendibifreiðar látnar njóta sömu tollmeðferðar og allar aðrar atvinnubifreiðar, en þær eru í 30% tolli, en okkar bifreiðar í 40% tolli.“ Þetta er kafli úr bréfi til fjmrh. sem ég fékk afrit af. Ég held áfram tilvitnun: „Í viðræðum við yður um að þér beittuð yður fyrir því að okkar meðlimir greiddu sama innflutningsgjald og aðrir atvinnubifreiðastjórar eða 25%, sögðuð þér að stefna yðar væri að allir atvinnubifreiðastjórar yrðu við næstu endurskoðun tollskrár látnir sæta sömu kjörum. Er það því von okkar að þér beitið yður nú fyrir að svo megi verða.“ Ég legg áherslu á það, ef ráðh. hefur lofað að beita sér fyrir því að ná þessum jöfnuði nú við endurskoðun á tollskránni, að hann geri það þá. — Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.