17.12.1976
Efri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

136. mál, almannatryggingar

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því, að lýsa yfir stuðningi við þann þátt sem lýtur að þessu frv. og gerir ráð fyrir að ríkissjúkrahúsin verði rekin sem A-hluta fyrirtæki framvegis. Hins vegar verð ég að taka undir það, sem kom fram hjá hv. 7. landsk. þm. og hæstv. ráðh. tók raunar undir, að þetta mál hefði þurft að undirbúa mun betur en raun ber vitni.

Ég skil raunar 4. gr. svo að það eigi að athuga kostnað allra sjúkrasamlaga, engu síður hér á Reykjavíkursvæðinu en annars staðar, og jafna síðan milli þeirra. Annars væri greinin gagnslítil, sýnist mér. Þetta er vafalaust hugsað sem aðferð til þess að reyna að koma í veg fyrir að verulegt óréttlæti hljótist af framkvæmd þessara laga.

Ég vil aðeins leggja áherslu á að hv. heilbr.- og trn. taki þetta mál til mjög gaumgæfilegrar athugunar og alveg sérstaklega hvernig komið verði í veg fyrir að þessi breyting, sem hér er verið að gera ráð fyrir, hafi þau áhrif, að kostnaður hinna einstöku landshluta eða sjúkrasamlaga, ef við viljum orða það svo, við dvöl sjúklinga á sjúkrahúsum verði mismunandi. Það þarf ekki um það að fjölyrða að aðstaða hinna ýmsu landshluta til að koma sjúklingum á ríkissjúkrahús er mjög mismunandi, þó að það sé vafalaust rétt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að ýmiss konar sjúkrakostnaður sé hár hér á höfuðborgarsvæðinu. Það má ekki heldur gleyma því, að landsbyggðin nýtur lakari þjónustu að ýmsu leyti hvað þetta varðar, né heldur hinn, að þeir, sem fjarri búa sjúkrahúsum eða læknamiðstöðvum eða þeirri sérfræðilegu þjónustu sem völ er á í hinum ýmsu sjúkdómum, verða að greiða ýmsan þann kostnað og oft í mjög stórum stíl sem þeir, sem búa nærri höfuðstöðvum þessara heilbrigðismála og þar sem greiðastur aðgangur er að hvers konar heilbrigðisþjónustu, þurfa ekki að inna af hendi. Mér er kunnugt um að það hafa verið uppi fleiri hugmyndir um það, hvernig tryggja mætti jöfnuð á milli hinna ýmsu sveitarfélaga hvað þetta snertir, og ég vil endurtaka það, að ég tel nauðsynlegt að hv. heilbr.- og trn. athugi þetta frv. gaumgæfilega og reyni að finna viðunandi lausn á þessu atriði sérstaklega.