18.12.1976
Efri deild: 30. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

99. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sérstakt tímabundið vörugjald var sem kunnugt er upphaflega lagt á með brbl. nr. 65 16. júlí 1975. Var það 12% frá 17. júlí 1975 til 31. des. sama árs, 10% frá 1. jan. 1976 til 4. maí 1976, en hefur verið 18% frá þeim tíma. Samkv. 1. gr. laga nr. 20 1976 skal vörugjald innheimt til 31. des. 1976. Með frv. þessu er lagt til að gjaldið verði framlengt til 31. des. 1977, eins og gert er ráð fyrir í tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir árið 1977. Ekki er gerð till. um breytingu á vöruflokkum sem gjaldskyldir eru, en væntanlega þarf að gera breytingu á frv. með tilliti til frv. til tollskrár sem reiknað er með að verði samþykkt sem lög frá Alþ. áður en Alþ. fer í jólaleyfi. Þar er um að ræða breytingu á tollskrárnúmerum.

Áætlað er að hið sérstaka vörugjald skili ríkissjóði 4 milljörðum og 30 millj. kr. þegar á þessu ári, en um 5 milljarða og 300 millj. kr. a næsta ári.

Hv. alþm. er í fersku minni tilefni þess að horfið var frá áformum um lækkun vörugjalds á þessu ári og ákveðið að hækka það úr 10% í 18% á s. l. vori. Ástæðan var fjáröflunarþörf til landhelgisgæslu, hafrannsókna og fiskverndaraðgerða, en reyndar einnig sú þörf sem var þá og er er.n að tryggja hallalausan ríkisbúskap. Nú eru horfur á að það takist á þessu ári, að koma ríkisbúskapnum í viðunanlegt jafnvægi á sama tíma sem viðskiptahallinn við útlönd minnkar úr 11–12% 1975 í tæp 4% á þessu ári miðað við þjóðarframleiðsluna. Þetta er mikilsverður árangur, og batinn í ríkisfjármálum hefur áreiðanlega haft sitt að segja í þessu efni. En betur má, ef duga skal, og á næsta ári er mikilvægt að ná verulegum áfanga til þess að bæta stöðu þjóðarbúsins út á við. Við þurfum að stefna að því a. m. k. að helminga viðskiptahalla á næsta ári. Á sama tíma knýja á brýnar þarfir til útgjalda. Þannig má nefna landhelgisgæslu, dómsmál, löggæslu, auk almennra þjóðhagsástæðna. Er því full ástæða til þess að halda 18% vörugjaldinu allt næsta ár, ekki síst þar sem mæta þarf tekjumissi vegna tollalækkana samkvæmt viðskiptasamningum okkar við önnur ríki. Beinar samningsbundnar tollalækkanir eru metnar í fjárlagafrv. 600 millj. kr., en auk þess, þegar tollskrárfrv. hefur verið samþykkt, má bæta þar við öðrum 600 millj. kr., og eru þessar tollalækkanir til hagsbóta fyrir innlenda atvinnuvegi. Hér er um að ræða mikinn tekjumissi og því full ástæða til þess að halda vörugjaldinu óbreyttu þetta ár.

Þetta eru í stuttu máli ástæður fyrir flutningi þess frv. sem hér er til umr.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.