20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

1. mál, fjárlög 1977

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð að þessu sinni. Það er í fyrsta lagi vegna þess að ég hef kosið að flytja aftur þær brtt., tvær af þrem, sem ég flutti við 2. umr.

Fyrst er um að ræða hækkun skuldagreiðslu til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum sem er, eins og ég sagði þegar þetta var rætt við 2. umr., skuld sem ríkið á eftir að greiða til Vestmannaeyjakaupstaðar upp á 114 millj. kr. og er til komin 1974. Mér finnst það varla sæmandi ríkinu að taka lán af Vestmannaeyjakaupstað og bæta það engu, hvorki með vöxtum né verðbólgutapi. Fjárveitingavaldið veit í þessu tilfelli hvernig það á að græða á verðbólgunni, þekkir hana vel og kann að nota hana, en notar hana þarna að mínum dómi á röngum stað og á kostnað Vestmannaeyjakaupstaðar.

Í öðru lagi flutti ég till. um að hækka nokkuð framlag til vatnsveitunnar í Vestmannaeyjum. Í því máli virðist fjárveitingavaldið ekki hafa heyrt talað um verðbólgu á Íslandi, því framlagið, sem nú er ætlað í þetta, er 7.5 millj. alveg eins og fyrir 8 árum. Þarna verður enginn af fjvn.-mönnum var við verðbólgu á Íslandi. Það var ekki farið fram á meira en að hækka þetta framlag í 15 millj. og útkoman: till. felld.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu get ég varla stillt mig um að segja örfá orð varðandi málflutning hv. 9. landsk. þm. sem er ákaflega skeleggur baráttumaður síns kjördæmis í þeirri n. sem við sitjum bæði i. Það verður aldrei frá henni tekið, það er rétt, en ég hygg að það kunni að hafa neikvæð áhrif að fara yfir strikið, eins og maður segir stundum, bæði í þessum dugnaði eða atorku eins og öðru. Og ég tel það mjög óskynsamlegt, jafnvel þótt menn vilji beita öllum tiltækum ráðum til þess að fá sitt fram, að haga máli sínu þannig að um allt að því falsanir sé að ræða, þ. e. a. s. þann hluta sannleikans aðeins sem kemur baráttumanninum vel, en sleppa hinum. Ég er ekki að segja að hv. þm. hafi skrökvað, hún sagði bara passlega mikið satt. Og ég vil í þessum töluðum orðum aðeins minna á það, að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir talaði um að hún og þeir vestfirðingar í samgn. hefðu verið að berjast fyrir því allan tímann að fá 2 millj., fá bara 2 millj. í viðbót fyrir Fagranesið, það væri allt og sumt. Jæja, hvað getur verið satt í því? Jú, jú, þegar búið var að hrekja þetta fólk horn úr horni í málinu, þá var það loksins komið ofan í 2 millj., en það byrjaði á því að fara fram á 35 millj. Þeir vildu sem sagt hækka þennan ágæta flóabát, Fagranesið, úr 17.2 millj., sem hann fékk í fyrra, í 35 millj„ þ. e. a. s hækka framlagið til þessa flóabáts um 103%. Ég hef ekki verið mikið að skipta mér af því hvað menn hafa viljað gera hér við fjárl. En ætli mönnum þyki ekki nóg að fara með þau úr 60 í 90 milljarða? Ef allir hefðu haldið svona fast á sínum málum og barist jafnskelegglega fyrir hækkun á öllum sviðum, þá væru fjárl. ekki 90 milljarðar núna, heldur 130 milljarðar. Ég legg ekki slíkum baráttuaðferðum lið.

Við höfum verið ósínkir á það í þessari n., allar götur síðan ég kom í hana fyrir allmörgum árum, að veita fé til þeirra hluta sem n. fjallar um, og við höfum ævinlega verið nokkuð yfir venjulegri hækkun á milli ára á fjárl. Við höfum ævinlega lítið til þessara mála þannig að þetta séu með nauðsynlegustu málum sem unnið er að í þjóðfélaginu. Þarna er verið að bæta úr samgöngum sem er reynt að halda uppi við erfið skilyrði alls konar. En eins og málin lágu fyrir, þá urðu allir að slá nokkuð af sínu. Við, sem vorum málsvarar annarra flóabáta, hefðum líka getað komið með till. um 100% hækkun og þaðan af meira og komið með margfaldlega hærri tölur til nýrra þátta sem þarna voru teknir inn. En til samkomulags og samræmis við aðra og með tilliti til heilbrigðrar skynsemi létum við okkur hafa það að slá nokkuð af.

Ég vil nú aðeins í örfáum orðum segja það af sannleikanum sem máli skiptir, því að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sá um hinn partinn. Það var sem sagt farið fram á 35 millj. Flóabáturinn Fagranes fékk 25 millj. Sú hækkun var 47%. Enginn flóabátur utan einn fékk meiri hækkun hlutfallslega. Sá flóabátur var Akraborgin. Hún fékk 67% hækkun tæplega. Það er vegna sérstakra erfiðleika. Það er verið að greiða skipið niður á stuttum tíma. Það er afar dýrt í rekstri, og ég veit ekki hvort er búið að hagræða rekstri þess fyrirtækis nægilega, enda var bent á það í samgn. að það væri rétt að kanna hvort tekjuhliðin gæti ekki eitthvað lagast í þá veru að gera hallann minni. En hækkun til Fagranessins var 47% eða hærri en til allra annarra flóabáta að undantekinni Akraborg. En ég vil upplýsa það að samkv. reikningum fyrirtækisins fyrir árið 1976, sem auðvitað liggja ekki fyrir til fulls vegna þess að árið er ekki enn búið, þá er rekstrarkostnaður, samanlagður rekstrarkostnaður fyrirtækisins fyrstu 10 mánuðina, 28:5 millj. og það sem meira er, í þeim rekstrarkostnaði samanlögðum er innifalið eitt strand m. a. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessari skekkju, eins og menn gjarnan gera sem kæra sig um að fá rétta útkomu, og öðrum tveimur, ekki eins alvarlegum að vísu, þá blasir við sú staðreynd að samanlagður rekstrarkostnaður m/b Fagraness er 25 millj., þ. e. a. s. jafnmikill rekstrarkostnaður fyrstu 10 mánuði ársins og hv. samgn. veitir til flóabátsins, og þá er ekkert farið að hugsa til tekna. Áður en menn fara að taka upp vasaklútinn hér og skæla yfir illri meðferð, þá verða þeir að gera svo vel og a. m. k. skoða þær tölur sem sýna raunveruleikann í dæminu.

Herra forseti. Það tekur því varla að víkja að svokallaðri hækkunarbeiðni til mjólkurflutninga eða hvað hún heitir nú þarna á blaðinu, þar er um afar lágar tölur að ræða. Þar var þó farið fram á 80% hækkun, það er kannske ekkert. Ég segi það, að auðvitað hefði verið hugsanlegt að greiða eitthvað fyrir því. En ég hef fengið upplýst að það muni verða gert annars staðar. En vegna þessa málflutnings hv. þm. sá ég mig knúinn til þess að koma hingað og upplýsa hv. þm. nokkru betur í þessu máli. Mér hefði satt að segja fundist að við hefðum mátt rífast um þetta í n. eins og alla aðra liði og gera þá upp okkar á milli, en ekki vera að koma með heimiliserjurnar í sali hv. Alþingis.