21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

5. mál, Vestfjarðaskip

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki einungis á Vestfjörðum sem menn eru sammála um að það sé brýnt verkefni að bæta úr ástandi samgöngumála þar á sjó. Menn eru líka sammála hér í þessu efni, og hæstv. samgrh. lagði einmitt áherslu á að það væri þörf á að bæta hér úr.

Hv. flm. þessarar þáltill. ræddi mikið um ástand þessara mála á Vestfjörðum, og ég er sammála því, sem hann sagði um ástandið, og yfirleitt skilgreiningu hans á því vandamáli sem hér er við að glíma. En það er eins í þessu vandamáli og öðrum, að þó að við séum sammála um að það þurfi að leysa það, þá er alltaf nokkur spurning hvernig á að leysa það, a.m.k. hvernig það verður best gert.

Mér sýnist kjarni þeirrar till., sem hér liggur fyrir, vera sá, að það sé verkefni sérstaks Vestfjarðaskips, eins og það er orðað, að annast flutninga á sjó til Vestfjarða. Ég vil aðeins víkja að þessu orðalagi. Menn geta e.t.v. meint mismunandi með þessu, hvað er sérstakt Vestfjarðaskip. Samkv. till. þessari er átt við, skilst mér, að eitt af skipum Skipaútgerðar ríkisins verði eingöngu til þjónustu fyrir Vestfirði, en skipið sé í eigu og rekið af Skipaútgerð ríkisins.

Ég hygg að þetta væri í sjálfu sér gott, ef þetta gæti verið svona, og þar með væri séð fyrir þörfum vestfirðinga og fundin lausn á þessu máli. En ég er ekki alveg viss um nema það geti verið vissir meinbugir á þessu. Ég læt mér detta í hug að það gæti alltaf verið hætta á því að eignaraðilinn, í þessu sambandi Skipaútgerð ríkisins, léti sér detta í hug að grípa til þessa skips e.t.v. fyrst í smáum stíl, en svo síðar e.t.v. meira, til annarra þarfa heldur en á Vestfjörðum vegna þess að þær væru svo aðkallandi í svipinn. M.ö.o. er spurningin hvort þetta er nægilega trygg og hentug aðferð fyrir vestfirðinga. Nú vil ég ekki fullyrða að svo sé ekki. Ég er ekki að útiloka þessa aðferð, en ég aðeins bendi á þetta. En þetta dregur athyglina að því, hvort það geti ekki verið leið að vestfirðingar taki þessi mál í eigin hendur, þ.e.a.s. að þeir eigi sjálfir og stjórni sjálfir því skipi sem þarf að koma til þess að leysa þarfir þeirra.

Það má segja að sjálfs er höndin hollust, og ef þetta er framkvæmanlegt, þá hygg ég að það sé fengin viðunandi lausn á þessu. Ég segi: ef þetta er framkvæmanlegt. Það þarf ýmislegt að ske áður en skip sem þetta kæmist í framkvæmd. Það kann líka að vera að það sé auðveldara og hagkvæmara fyrir vestfirðinga — ég vil ekki útiloka það — að fara hina leiðina, að láta Ríkisskip annast þetta. En ég tel að það sé hins vegar ekkert útilokað í þessu efni að vestfirðingar taki þessi mál í eigin hendur, og þeir eru ekki að fara nýjar brautir í þeim efnum ef að því ráði verður horfið. Þeir eru einmitt að fara þá leið sem farin hefur verið annars staðar, þar sem hefur þótt ástæða og þörf fyrir sérstakt skip. Í þessu efni nægir að benda á Vestmannaeyjaskipið. Vestmanneyingar eiga það skip og reka það sjálfir. Í þessu sambandi má benda á flóabátana, þó að það sé ekki algjörlega hliðstætt. Og það fer ekkert illa á því í þessu sambandi að minna á það, að um nokkurt árabil var haldið uppi þjónustu á þessu sviði fyrir vestfirðinga með útgerð á einu skipi frá Vestfjörðum í eigu Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík, og það þótti mikil afturför þegar sú útgerð hætti. En aðalatriðið í þessu efni og ég undirstrika það — er að það fáist lausn á þessu máli. Það er höfuðatriðið, en ekki hvaða leið verður farin.

Ég tel gott að þessi till. er hér fram komin, ef hún getur orðið til þess að flýta athugun á þessum málum. Ég tel nauðsynlegt að hún fái sem skjótasta þinglega afgreiðslu. Og ég vænti þess að málin geti skýrst í meðferð þingsins nokkru betur en þau liggja nú fyrir.

Ég held að það, sem ég hef hér sagt og viljað vekja athygli á, þau sjónarmið sem ég hef hér komið með, séu mjög í samræmi við sjónarmið vestfirðinga almennt í þessum málum. Í því sambandi vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp samþykkt sem gerð var á fjórðungsþingi vestfirðinga 11. og 12. sept. s.l. einmitt um þetta mál. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið telur, að nauðsynlegt sé að komið verði á vikulegum vöruflutningum milli Reykjavíkur og Vestfjarðahafna þar sem lagt sé kapp á ítrustu hagkvæmni í vinnubrögðum og rekstri. Verði tregða á, að Skipaútgerð ríkisins láti í té þessa þjónustu, telur þingið rétt að stjórn Fjórðungssambandsins leiti samstarfs við þá aðila, sem hagsmuna hafa að gæta, um að kanna alla möguleika á því að vestfirðingar taki þessa þjónustu í eigin hendur:“

Ég sé ekki ástæðu til þess að gerast á þessu stigi málsins langorður um þessa till. Ég fagna því að hún er fram komin, og ég vænti þess að hún hreyfi þannig við þessum málum að það finnist skjótar lausn sem vestfirðingar geta við unað.