21.12.1976
Neðri deild: 37. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

136. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um almannatryggingar er flutt í framhaldi af því að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjúkrahúsin fari yfir í A-hluta fjárlaga, og gerð sú breyting frá því, sem áður var, að í stað þess að greiða úr ríkissjóði til sjúkratrygginga almannatrygginganna verði nú greitt beint til ríkisspítalanna. Hins vegar er gert ráð fyrir að daggjaldakerfi annarra sjúkrahúsa en ríkisspítalanna verði óbreytt.

Í ákvæðum til bráðabirgða er lagt til að á árinu 1977 skuli álagningaraðili útsvara leggja á, en innheimtumenn ríkissjóðs innheimta 1% álag á gjaldstofn útsvara og skuli ríkissjóði staðin skil á fyrirframgreiðslu eða hlutfallslegri innheimtu mánaðarlega, og jafnframt það, að ekki á að leggja þetta gjald á þá sem er ekki gert að greiða útsvar.

Í sambandi við þetta ákvæði til bráðabirgða, þá er það breyting frá því sem verið hefur á þessu ári, að þetta gjald er lagt á gjaldstofn útsvara og innheimt með útsvörum. En með þessari breytingu er lagt til að innheimtumenn ríkissjóðs innheimti þetta gjald, og jafnframt er það gert mun gleggra og einfaldara en það er í lögum á þessu ári, þannig að hér eru tekin af öll tvímæli um að gjaldið er ekki lagt á þá sem ekki er gert að greiða útsvar.

Í Ed. var gerð sú breyting á þessu ákvæði til bráðabirgða að bætt var við 3. liðnum: „Lög þessi skal endurskoða fyrir árslok 1978.“

4. gr. frv. var líka breytt nokkuð, en samkv. þeirri breytingu, sem gerð var í Ed , hljóðar 4. gr. eftir breytinguna þannig:

„Þegar uppgjör sjúkrasamlaga fyrir árið 1977 liggur fyrir skal Tryggingastofnun ríkisins kanna, hver breyting hefur orðið á útgjöldum hvers sjúkrasamlags vegna þessara laga, og gera tillögur um hvernig jafna megi þá kostnaðarbreytingu. Frá gildistöku laganna áætlar Tryggingastofnun ríkisins útgjöld sjúkrasamlaga þeirra vegna og greiðir ársfjórðungslega inn á reikning þeirra samlaga, er fyrir útgjöldum verða, jafnháa upphæð og hinni áætluðu útgjaldaaukningu nemur. Með reglugerð skal kveða nánar á um tilfærslu fjármuna.“

Eins og þessi breyting og þessi grein segir til um, þá er það ætlunin að þeir, sem hagnast á þessari breytingu á lögunum, greiði til þeirra sjúkrasamlaga sem verða fyrir auknum útgjöldum, til þess að þessi lög raski í engu þeim hlutföllum sem nú eru í gildi. Ég held að með þessu orðalagi hafi það verið lagfært sem menn óttuðust helst, bæði Ed.- menn og ýmsir hv. þm. þessarar d., þannig að hér á að nást jöfnuður á milli. Ég tel að þar hafi náðst það sem allir ætluðu hvað þetta snerti. Hins vegar er ætlunin með þessari breytingu að skapa mun meira aðhald í rekstri ríkisspítalanna en verið hefur, en gera, eins og ég sagði áðan, engar frekari breytingar á daggjaldakerfi annarra sjúkrahúsa en ríkissjúkrahúsanna.

Forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.