21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

8. mál, sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég stend nú hér upp fyrst og fremst til þess að lýsa eindregnu fylgi við þessa till., enda er það nú kannske ekki nema eðlilegt að ég fylgi þeirri till. sem ég er meðflm, að. Þess vegna mætti segja að það væri óþarfi fyrir mig eftir þá ágætu framsöguræðu, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur nú þegar flutt fyrir þessu máli. En ég ætla að leyfa mér að segja það, að ég fagna alveg sérstaklega þessari till. og því frumkvæði sem hv. 3. þm. Reykv. sýnir með því að gangast fyrir flutningi hennar, og mín uppáskrift á fyrst og fremst að vera vitnisburður um það, að þessi deild, sem hér um teflir, er mjög vel rekin og hagkvæm og nauðsynleg stofnun í okkar þjóðfélagi.

Við, sem flytjum þessa till. höfum allir dvalist þarna, mislengi og af misjöfnum ástæðum, misjafnlega mikið veikir og allt eftir því. En allir þekkjum við þær aðstæður sem þarna eru, allir þekkjum við þann anda sem þarna ríkir og allir vitum við hversu mikla andlega upplyftingu getur verið að finna á þessum stað, þótt ótrúlegt megi kannske virðast við fyrstu sýn og fyrir þá sem ekki þekkja til. En þjónustan þarna er góð og hjálpin mikil, og þess vegna er hér um gott mál að ræða að mínu mati sem ég vona að hv. alþm. taki til greina og ljái atkvæði sitt. Það er vissulega alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi í sínu máli, að það hefur verið reynt að bæta úr þessum skorti á sundlaug með því að flytja sjúklinga niður á Háaleitisbraut 17. Það er betra en ekkert, má segja, að sú laug skuli vera til. En þessir flutningar eru erfiðir í mörgum tilvikum bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, þeir eru dýrir og óhagkvæmir, og auk þess það sem verst er, að það eru ekki nándar nærri allir sem geta farið, þó ekki sé nema þessa leið, í áætlunarbil eða hvaða bifreið sem vera skal vegna þess einfaldlega að þeir þola ekki flutninginn.

Það er líka alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að sundlaugin að Háaleitisbraut 17, sem ég þekki líka af eigin raun, hentar ekki alls kostar til þess að leysa það verkefni sem þér er um fjallað. Og ég trúi því ekki að okkar þjóðfélag sé svo fátækt, þó að illa megi kannske bera því vitnisburðinn að ýmsu leyti, að við höfum ekki efni á því að búa betur að þessari deild sem svo mjög margt gott lætur af sér leiða.

Ég vildi aðeins, herra forseti, með þessum fáu orðum leyfa mér að lýsa stuðningi mínum við þá till., sem hér er til umr.