24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (Ásgeir Bjarnason) :

Mér hefur borist eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 21. jan. 1977.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, ritari þingflokks sjálfstæðismanna, hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Samkvæmt beiðni Jóhanns Hafsteins, 6. þm. Reykv., sem nú er á förum til útlanda í opinberum erindum, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður hans, Geirþrúður Hildur Bernhöft félagsmálafulltrúi, taki á meðan sæti hans á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ragnhildur Helgadóttir, forseti Nd.

Geirþrúður Hildur Bernhöft hefur áður setið á þingi og þarf því ekki að athuga kjörbréf hennar, og býð ég hana velkomna til starfa.

Þá er annað bréf :

„Reykjavík, 21. jan. 1977.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, 3. þm. Vestf., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er nú á förum til útlanda í opinberum erindum leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður minn, Jóhannes Árnason sýslumaður, taki á meðan sæti mitt á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Eggert G. Þorsteinsson,

forseti Ed.

Jóhannes Árnason hefur áður setið á þingi á þessu kjörtímabili og er væntanlegur í dag til þings, mun eitthvað hafa teppst vegna veðurs. Þá er þriðja bréfið:

„Reykjavík, 24. jan. 1977.

Lúðvík Jósepsson, formaður þingflokks Alþb., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Samkv. beiðni Magnúsar Kjartanssonar, 3. þm. Reykv., sem nú dvelur í sjúkrahúsi, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að vegna forfalla 1. varamanns taki 2. varamaður Alþb. í Reykjavík, Sigurður Magnússon rafvélavirki, sæti á Alþ. í forföllum hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti Nd.

Símskeyti hefur borist frá Akureyri:

„Sökum annríkis sé ég mér ekki fært að mæta á þingi sem varamaður Magnúsar Kjartanssonar að þessu sinni.

Vilborg Harðardóttir.“

Kjörbréf Sigurðar Magnússonar liggur hér fyrir og þarf rannsóknar við. Bið ég kjörbréfanefnd að rannsaka kjörbréfið og gef á meðan 5 mínútna þingfundahlé. — [Fundarhlé.]