25.01.1977
Sameinað þing: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

252. mál, samanburður á vöruverði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt um hver hafi verið tilgangurinn með þeim samanburði sem um er rætt.

Tilgangur könnunar verðlagsstjóra var aðallega tvíþættur. Fram til þessa hefur eftirlit með verðlagi innfluttra vara fyrst og fremst byggst á upplýsingum frá innflytjendum sjálfum. Verðlagsstjóri taldi eðlilegt, að fá fyllri upplýsingar um innkaupsverð í viðskiptalöndum okkar, og m. a. þess vegna var þessi könnun gerð. Jafnframt höfðu skrifstofu hans borist margar fyrirspurnir frá ýmsum aðilum vegna mismunar á vöruverði út úr verslunum hér og erlendis. Verðlagsstjóri taldi rétt að kanna einnig þá hlið málsins.

Í öðru lagi spyr þm. hvort ráðh. telji nauðsynlegt að kanna nánar hvers vegna innkaupsverð á vörum til Íslands virðist vera miklu hærra en til annarra aðila.

Ég vil fyrst taka það fram vegna orðalags fyrirspurnarinnar, að þær upplýsingar, sem verðlagsstjóri hefur gefið út til þessa, ná einungis til enskra og íslenskra aðila. Hann mun væntanlega síðar fá sambærilegar upplýsingar frá öðrum þjóðum. Samkv. upplýsingum verðlagsstjóra geta verið ýmsar ástæður fyrir umræddum mismun. Er verið að athuga það mál nánar og ég ætla ekki að gera það frekar að umtalsefni hér. Hv. fyrirspyrjandi gerði líka grein fyrir því, að honum væri ljóst að ýmsar ástæður gætu legið til þessa mismunar.

Loks spyr þm. hvort fyrirhugaður sé frekari samanburður á vöruverði í viðskiptalöndum íslendinga.

Ég get skýrt frá því, að Verðlagsskrifstofan hefur tekið upp samstarf við norræn verðlagsyfirvöld og nær það samstarf m. a. til samanburðarathugana á vöruverði. Mér er kunnugt um að nokkrar Norðurlandaþjóðanna vinna nú að slíkum athugunum, en vegna umfangs þeirra get ég ekki fullyrt hvenær niðurstöður liggja fyrir. En ég get fullvissað fyrirspyrjanda um að þeirri nýjung í starfi Verðlagsskrifstofunnar að fylgjast með verðmyndun erlendis mun verða haldið áfram. Ég hefði e. t. v., ef ég hefði látið dragast að svara þessari fyrirspurn nú, getað gefið aðeins fyllri upplýsingar um það eftir viku eða svo, af því að þessi mál eru einmitt í deiglunni, en ég vil ekki fara frekar út í það nú.