25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það var eins með mig eins og hv. síðasta ræðumann, að ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., og mér kemur raunar á óvart hversu margir taka þátt í þeim, því till. kemur mér þannig fyrir sjónir að hún sé fyrst og fremst flutt af sýndarmennsku. Raunar stangast hvað á annars horn í till. T. d. um það efni vek ég athygli á því, að í 1. málsgr. er óskað eftir að ráðh. feli ákveðnum aðilum að gera sérstaklega till. um ný og afdráttarlaus fyrirmæli sem banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum o. s. frv. en í næstu setningu á eftir segir: „Auk þess skal í till. kveðið á um skyldu opinbers starfsmanns til þess að upplýsa til réttra aðila um þau fríðindi, gjafir, endurgjaldslausa þjónustu o. s. frv., er hann kynni að hafa þegið.“ Ég á bágt með að skilja hvernig hægt er að banna eitt í fyrstu setningunni, en gera síðan ráð fyrir því, að menn taki við því engu að síður, í þeirri næstu, án þess að annað sé gert heldur en að óska eftir því að skýrsla sé gefin um það.

Eins og á hefur verið bent, þá fannst mér að framsöguræða með till. væri byggð á miklum dylgjum, ummælum sem ekki voru staðfest eða færð frekari rök fyrir. Það eru að mínu mati ekki heppileg vinnubrögð að flytja mál hér inn á Alþ. með dylgjur einar að forsendum.

Hér hafa fjölmargir ræðumenn velt því fyrir sér, hvort rétt sé að setja lög sem banni opinberum starfsmönnum að þiggja mútur eða ekki, og ég vil taka undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Jónasi Árnasyni, að það er í sjálfu sér frekar hvimleitt að þurfa að setja lög um alla skapaða hluti. Ég verð hins vegar að hryggja þennan sama þm. og reyndar allan þingheim með því, að nú þegar er í lögum mjög skýr og augljós ákvæði að þessu lútandi og ég tel rétt, áður en lengra er haldið með þessar umr., að ég veki athygli á þessum lagaákvæðum, en þau er að finna í almennum hegningarl. frá 1940. Þar segir í 109. gr., með leyfi forseta.

„Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni gjafir eða annan ávinning til þess að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, er hann með því bryti gegn starfsskyldu sinni, skal sæta fangelsi allt að þremur árum eða, séu málsbætur fyrir hendi, varðhaldi eða sektum.“

Og svo segir í 128. gr.:

„Ef opinber starfsmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Auðvitað fer það ekki milli mála að það stríðir gegn réttarvitund og almennu velsæmi og lögum að þiggja mútur, og ég sé ekki betur en að um það séu skýr ákvæði í almennum hegningarlögum hér á Íslandi. Því get ég ekki séð hvaða þörf er á flutningi þessarar þáltill.