27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

48. mál, litasjónvarp

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég hef í fyrri umr. um þessa till. lýst mig fylgjandi henni, og þá gerði ég það mjög ljóst að ég gerði það á þeirri forsendu að ég teldi hana miða í þá átt að endurbæta það mikið dreifikerfi sjónvarpsins að að því gæti komið, sem hlýtur að vera meginmarkmið, að allir landsmenn og sjómenn á miðunum nytu sjónvarps. Mér finnst reynslan á undanförnu ári, meðan bannaður var innflutningur á litasjónvarpstækjum, gefa ótvírætt í skyn að það er óviturlegt að halda sér við það bann. Það hefur leitt til smygls og alls konar undanbragða sem hafa rýrt tekjur ríkissjóðs eða rýrt tekjur Ríkisútvarpsins af innflutningi sjónvarpstækja, þannig að með því að hafna þessari till. værum við í rauninni að vinna á móti því markmiði sem við viljum vinna að.

Hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, tók raunar að mestu af mér ómakið að koma hér upp, því að hann sem einn af nm., sem gerðu úttekt á málum sjónvarpsins s. l. sumar, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar og svaraði að nokkru leyti ræðu hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar.

Ég og við öll hljótum að taka undir það, að auðvitað er ákaflega brýnt sanngirnismál að sjómenn á miðunum njóti sjónvarps. En mér hefur hins vegar virst gæta nokkurrar einsýni í málflutningi hv. þm. Karvels Pálmasonar að því er varðar mastur á Barðann. Ég hef ítrekað átt samtöl um þetta við þá tæknimenn sjónvarpsins og Landssímans öllu fremur sem með þessi mál hafa að gera. Þeir könnuðust alls ekki, er ég talaði við þá stuttu fyrir jólin, við hvernig þessar 20 millj. væru til komnar sem hv. þm. vitnaði í sem áætlaða tölu um kostnað við sjónvarpsútsendingu frá Barðanum. Þeir tjáðu mér jafnframt, og það kemur heim við það sem Steingrímur Hermannsson sagði, að þessi mál um útsendingu til sjómanna væru alls ekki fyllilega könnuð enn. Þeir töldu jafnframt, að Barðinn væri alls ekki endilega heppilegasti staður fyrir sendistöð. Þeir nefndu stöð í brún Breiðadalsheiðar, sem þeir hefðu meiri augastað á til útsendingar á Vestfjarðamið, og svo aðra útsendingarstöð suður við Patreksfjörð, sem næðu þá lengra bæði vestur og suður á við en frá Barðanum. Það er náttúrlega erfitt að vefengja og setja sig upp á móti því sem þessir þaulreyndu menn tjá manni. En þeir sögðu mér jafnframt aðspurðir hvort ekki væri hugsanlegt að taka þetta í dálitlum áföngum, og að því er varðar Vestfjarðamiðin, — nú eru að vísu fleiri mið til en Vestfjarðamið, — en með Vestfjarðamiðin í huga töldu þeir ekki fráleitt að fara í þetta í áföngum með þeim hætti að stækka útsendingarstöð í Óshólum við Bolungarvík. Þar er nú þegar til húsa í vitanum, Óshólavitanum við Bolungarvík, sendir sem nær ákaflega skammt og alls ekki ætlað að ná út á miðin. En það vakti fyrir mér, og það er í samræmi við það sem ýmsir sjómenn fyrir vestan hafa sagt mér, að sem byrjunarframkvæmd væri mjög gott að fá þarna sendi sem varpaði út undir Grænuhlíðina. En undir Grænuhlíðina sækja skip, ekki bara Vestfjarðaskip, heldur aðrir bátar og skip á veiðum úti fyrir Vestfjörðum, mjög gjarnan í vondum veðrum, í var undir Grænuhlíð, og einmitt undir þeim kringumstæðum þegar sjómenn liggja aðgerðalausir í vari, væri mikilvægt að geta séð mynd á skerminum. Þetta var hugmynd sem þeir vildu ekki fráskrifa og ég persónulega hef ágirnd á að kanna nánar. Það er, að mér skilst, í áætlun þeirra að stækka allverulega þessa stöð í Óshólum, en það mætti taka þá stækkun í áföngum og kostnaðarminni en hún verður í heild, en mig minnir að þeir nefndu 39 millj. sem fullnaðarframkvæmd þarna í Óshólum mundi kosta. Ég heyrði ekki hvort það kom fram hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, ég var trufluð undir ræðu hans, heildarkostnaður sem áætlaður er við að koma sjónvarpi út á öll fiskimiðin í kringum landið. (Gripið fram í.) 1430 millj., þetta er ekkert smáfé, það hljótum við öll að viðurkenna. En ég vil taka undir það með Karvel Pálmasyni, að auðvitað er afskaplega mikilvægt fyrir sjómenn að fá sjónvarp út á miðin og það sem fyrst. En ég get tekið gilda a. m. k. að vissu marki þá staðhæfingu, að það sé alls ekki til reiðu nógu vel könnuð og nógu vel undirbúin áætlun um heildarframkvæmdir að þessu leyti til þess að hægt sé að hefjast handa nú þegar.

Ég hlýt nú að lýsa yfir vissri tortryggni minni eftir þær fréttir sem hafa heyrst af þessu aukna átaki í sjónvarpsmálum. Mér hefur virst að a. m. k. fyrst í stað fari meginhlutinn af þessum auknu tekjum í það að undirbúa móttöku á litsjónvarpi, og það er að vissu leyti skiljanlegt, en það ætti ekki að taka mörg ár, og þó að við biðum 1–2 ár í viðbót til þess að fá þetta áhugamál okkar í framkvæmd, já verðum við sennilega að hlíta því. En ég vil leggja áherslu á að stuðningur minn við upptöku litsjónvarps byggist m. a. á því að tollur á litsjónvarpstækjum verði allmiklu hærri en nú á svarthvítum tækjum til þess að tekjurnar af innflutningi þeirra komi að umtalsverðu gagni.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ítreka það sjónarmið mitt, að forgang í sjónvarpsframkvæmdum hljótum við að krefjast að hafi þeir landsmenn á landi eða á sjó sem engin skilyrði hafa til að njóta sjónvarps nú. Þetta liggur í augum uppi.