27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

48. mál, litasjónvarp

Flm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Þar sem ég er flm. að þeirri till., sem hér er á dagskrá, þá þykir mér hlýða að segja aðeins örfá orð nú þegar liður að lokum umr. Mér finnst að þær hafi snúist á þessum fundi of mikið um einn afmarkaðan þátt þessa máls, þ. e. a. s. hvort ráðist skuli í það strax að gera sjómönnum á fiskiskipum úti fyrir Vestfjörðum kleift að sjá sjónvarp. Auðvitað viljum við allir þm. að það verði unnt sem allra fyrst, alveg eins og við viljum áreiðanlega öll að landsmenn allir, hvar sem þeir búa, hafi tök á því að horfa á sjónvarp. Ég hef jafnmikla samúð með sjómönnum á skipum úti fyrir Vestfjörðum eins og fólkinu sem býr á þeim 100 sveitabæjum sem hafa enn ekki haft skilyrði til þess að njóta sjónvarpsins. Vandinn er bara sá að það skortir fé til þess að gera ýmsa hluti, og þá er spurningin: Hvernig á að ná í féð og hvaða röð á að hafa á þeim verkefnum sem liggja fyrir?

Ég hef látið þá skoðun í ljós að ég tel að það væri eðlilegast og réttast að fullnægja fyrst þörfum þeirra sem í landinu eru, áður en ráðist er í fjárfrekar framkvæmdir til handa þeim sem hafa störf á hafi úti. En um þetta má að sjálfsögðu endalaust deila. Alla vega verður fyrst að afla fjárins, og þessi till. er flutt með það fyrir augum. Ég er margbúinn að taka það fram í þessum umr. að forsenda hennar sé aðallega sú að afla fjár til að standa undir dreifikerfi, fullkomna það og halda því við, hvort heldur það á við um landið sjálft eða miðin úti fyrir landinu.

Ég hef bent á það með mjög sterkum rökum að mínu mati, að með því að hefja litaútsendingar, með því að gefa innflutning frjálsan á litasjónvarpstækjum skapist það miklar tekjur fyrir ríkissjóð að hægt sé að mæta þessum útgjöldum, a. m. k. að verulegu leyti. Ég held að það fari ekki á milli mála að hér sé á ferðinni langsamlega skynsamlegasta till. sem flutt hefur verið í þessu efni, og mér finnst það vera undarleg viðbrögð hjá einstökum þm. ef þeir ætla að leggjast gegn þessu meginatriði, þessum tilgangi till. Um leið og þessi till. mætir þessum fjárhagsþörfum, þá mætir hún líka brýnum og nauðsynlegum þörfum Ríkisútvarpsins hvað snertir bæði tækniþarfir og dagskrárgerð, og fer ég ekki fleiri orðum um það en ég hef gert í þessari umr. áður.

Ég vil leyfa mér að þakka þeim þm. sem undir till. hafa tekið og mælt með samþykkt hennar. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem hér hefur tekið þátt í umr., lýsti sig fylgjandi því að innflutningur á sjónvarpstækjum væri gefinn frjáls og að litaútsendingar hæfust á Íslandi. En hann telur að þessi till. sé of takmörkuð vegna þess að hún taki ekki tillit til allra þarfa Ríkisútvarpsins. Það er vissulega rétt, að þarna er ekki gripið á öllum þeim þörfum sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir í augnablikinu, og til þess var ekki af stað farið. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það er margt sem knýr á hjá Ríkisútvarpinu, og það er eðlilegt að við reynum að leysa þau vandamál. En það má vissulega breyta þessari till., ef mönnum sýnist svo, vilja afgreiða hana á breiðari grundveili. Það er t. d. nú þegar brostin forsenda fyrir 2. tölul. þessarar till., þar sem segir að heimila skuli frjálsan innflutning á litasjónvarpstækjum. Nú er sú ákvörðun þegar tekin. Og það má að sjálfsögðu mín vegna laga till. í meðförum Alþ. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að Alþ. taki þá stóru ákvörðun, að litaútsendingar í sjónvarpi hefjist. Sá háttur hefur verið hafður á erlendis, að það er þingið sem tekur slíka ákvörðun, og meira að segja viðeigandi, að það sé gert hér á landi sömuleiðis. Enda þótt við séum að taka slíka meginákvörðun, þá auðvitað útilokar það engan veginn að við getum tekið aðrar stórar ákvarðanir varðandi Ríkisútvarpið, annaðhvort um leið eða þá síðar.