31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

143. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er ekki fyrirferðarmikið og það er einfalt í sniðum. Það fjallar um breytingu á 32. gr. einkamálalaganna, um skipun í dómaraembætti eða réttara sagt um einn þátt í undirbúningi að skipun í héraðsdómaraembætti.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að áður en skipað er í héraðsdómaraembætti skuli leita umsagnar sérstakrar nefndar sem sett er á fót með þessu frv. ef að lögum verður. En í 1. gr. felst efni frv., þar sem segir að á eftir 1. mgr. 32. gr. komi ný mgr., sem verði 2. mgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en embætti héraðsdómara er veitt skal leita skriflegrar umsagnar nefndar þriggja manna, sem dómsmrh. skipar til þriggja ára í senn. Einn nm. skal tilnefndur af Hæstarétti, og er hann formaður, einn tilnefndur af samtökum dómara úr hópi héraðsdómara landsins og einn skipaður án tilnefningar. Dómsmrh. setur reglur um kjör dómarasamtakanna. Hann getur einnig sett reglur um tilnefningu varamanna, um fresti til að skila tilnefningum og um afleiðingar þess að nm. eru ekki tilnefndir, um fresti til að skila álitsgerðum svo og um önnur framkvæmdaatriði.“

Það þarf ekki að fjölyrða um það, að það er mikilvægt í réttarríki að dómstólar séu sem sjálfstæðastir. Um það efni hefur orðið allmikil umr. í ýmsum löndum, sérstaklega eftir styrjaldarárin síðari. Þá veittu menn því athygli hversu mikilvægt það er að til séu óháðir dómarar. Enn fremur má segja að raddir í þessa átt hafi orðið háværari vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í ýmsum þeim ríkjum sem kölluð eru velferðarríki, þar sem hið opinbera hefur æ meiri afskipti af ýmsum málefnum og hlutverk dómstóla verður þess vegna oft að dæma í ágreiningsmálum sem rísa af stjórnarframkvæmd eða eru í sambandi við stjórnarframkvæmd og er þess vegna ágreiningur á milli framkvæmdavalds annars vegar og borgarans hins vegar. Þegar þannig stendur á, þá er auðvitað þýðingarmikið að borgarinn treysti á það að dómstólarnir séu algerlega óháðir og séu ekki bundnir framkvæmdavaldinu eða framkvæmdavaldshafanum að neinn leyti.

Raddir um þetta efni hafa heyrst hér á landi eins og annars staðar, og hér hefur löngum gætt nokkurrar tortryggni í garð veitingarvalds dómaraembætta, sýslumanna- eða bæjarfógetaembætta, og þar þótt stundum kenna pólitískra sjónarmiða. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt þó að slíkar raddir hafi heyrst, sérstaklega vegna þess að skipan þessara mála hefur verið nokkuð á annan veg hér en víðast hvar annars staðar þar sem dómarar taka almennt ekki þátt í pólitískum störfum. Hins vegar var það lengi vel tíðkað hér á landi og var alsiða að sýslumenn og bæjarfógetar væru í framboði til Alþingis og væru þm. og skipuðu reyndar sæti á Alþingi með sóma. Þetta hygg ég að sé nú mjög að breytast, þannig að það er nú, að ég held, ekki jafnlíkleg framavon til þess að fá þingsæti að verða sýslumaður eins og áður var. Og ég bygg að almenningsálit færist í það horf að þau störf geti illa saman farið að sitja á þingi og gegna dómaraembætti.

Það er svo, að það hafa verið í mjög mörgum löndum settar reglur eða myndast venjur um aðferðir við skipun í dómaraembætti. Er rakið allítarlega í grg. með þessu frv. hverjar þessar reglur eru í hinum ýmsu löndum, og hirði ég ekki um að fara að endurtaka það hér. Hefur þótt rétt að gera tilraun til þess að taka í lög ákvæði sem væru að nokkru leyti í líkingu við það sem sums staðar annars staðar tíðkast, sumpart fyrir venju og sumpart samkv. beinum lagafyrirmælum. Dómstólunum sjálfum eru sums staðar, eins og kemur fram í þessari grg., veitt sérstaklega mikil áhrif á skipan í dómaraembætti. Það hefur ekki þótt fært eða ráðlegt hér að taka þann hátt beint upp. Hins vegar er þess freistað að fara vissa millileið, skipa n. þar sem fulltrúi frá Hæstarétti á sæti og hann sé jafnframt formaður í þessari umsagnarnefnd, dómarasamtökin tilnefni annan nm. og dómsmrh. hinn þriðja. Þetta er umsagnarnefnd og hún á að láta uppi skriflega umsögn um dómaraefni eða þá sem sækja um embætti. Veitingarvaldið er hins vegar ekki skuldbundið til að fara eftir þeim ábendingum sem koma frá þessari n., en auðvitað má segja að ef álit hennar er eindregið, þá muni þurfa nokkuð ríkar ástæður hjá veitingarvaldi til þess að víkja frá því sem n. leggur einróma til. Þannig má gera ráð fyrir að eftir hennar umsögn verði farið nema eitthvað sérstakt komi til. Með þessum hætti er reynt að skapa tryggingu fyrir því, að ekki gæti annarlegra sjónarmiða við skipun í þessi embætti, og jafnframt reynt að gera þetta fyrirkomulag það einfalt að það valdi ekki erfiðleikum. Ég held að ef slík skipan kemst á muni hún auðvelda veitingarvaldshafanum starf hans og eyða tortryggni sem oft gætir í sambandi við embættisveitingar.

Þetta frv. var lagt fram á Alþ. í fyrra og hlaut þá afgreiðslu í þessari hv. d. og hana jákvæða, svo að ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það á þessu stigi. Ég vænti þess, að það mæti sömu velvild hér nú og á síðasta Alþ., þó að það yrði þá ekki að lögum vegna þess að það var nokkuð seint á ferð.

Ég ætla ekki að fara út í þann samanburð, sem ég var með í fyrra á mínum embættisveitingum og þeim embættisveitingum sem fram fóru á árunum 1934–1971, en hann er fyrir hendi og þá geta menn séð hvort þar hefur verið fylgt betri reglum fyrr eða síðar.

Það var missögn, sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni við umr. nýlega í Sþ., að þetta frv. væri samið af réttarfarsnefnd. Þetta frv. er ekki eitt þeirra frv. sem samið eru af réttarfarsnefnd. Þetta frv. er samið í dómsmrn. að frumkvæði dómsmrh. Það er ekki heldur rétt, sem þá kom fram, að það hafi aldrei áður komið fram tillaga neitt í líkingu við þessa tillögu. Það var einmitt á árunum í sambandi við setningu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að þá fluttu fulltrúar þjóðvarnarmanna, ef ég man rétt, almenna till. um umsagnarnefnd. Þar var að vísu ekki átt við dómaraembætti sérstaklega, heldur störf almennt. En ég held að það sé ástæða til þess að það ríki sérreglur um dómara að þessu leyti, vegna þess að það er gert ráð fyrir því að þeir séu sérstaklega sjálfstæðir í starfi og óháðir framkvæmdavaldinu, eins og ég hef undirstrikað. Og það er í samræmi við það að þessi regla gildi einnig um héraðsdómara, að hún gildir um hæstaréttardómara, og hún á líka að gilda um lögréttudómarana ef það frv. verður samþ.

Ég leyfi mér að óska eftir því að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.