31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð til þess að þakka hv. formanni landbn. fyrir þessar ítarlegu upplýsingar. Það er svo sem ástæðulaust að ræða frekar þær upplýsingar sem þar komu fram. Tölur af þessu tagi um fjölda búða eða fjölda starfsstúlkna segja náttúrlega ákaflega lítið um afleiðingar þessara breytinga. Þær eiga sjálfsagt eftir að koma betur í ljós og öðruvísi en í eintómum tölum.

Ég vil þó gera athugasemd við málflutning formannsins að einu leyti. Mér virtist, jafnvel þó að hann hafi unnið vel í málinu sem nefndarformaður, hann eiginlega taka afstöðu gegn frv. Hann taldi hæpið að samþ. frv. og taldi, ef svo yrði gert, að þá hlyti það að vera einsdæmi í löggjöf. Það má vera að það sé einsdæmi í löggjöf. Ég er ekki það fróð í þingsögunni að ég ætli mér að bera neitt á móti því. En ég ætla að minna á að þetta er afleiðing af óeðlilegu ástandi. Þetta er afleiðing af því að það skuli vera hægt að haga málunum svo að heil starfsstétt sé lögð niður. Og það er ekki óeðlilegt þó að svona frv. komi fram þegar réttur verkafólks er ekki meiri en við höfum nú orðið vitni að, og það er alvarlegt íhugunarefni.