01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

82. mál, viðgerðir fiskiskipa

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Á s. l. hausti sat Pétur Pétursson varaþm. af hálfu Alþfl. á þingi og þar fram þá fsp. sem hér er til umr. Fyrirspurnin er til iðnrh. um viðgerðir fiskiskipa. Fyrri spurningin er í þrem líðum: „Hve miklum fjárhæðum hefur verið varið árið 1975 til viðhalds, viðgerða og breytinga erlendis á: a) íslenskum fiskiskipum, b) íslenskum farskipum, c) íslenskum varðskipum?“ Í öðru lagi: „Hvaða aðgerðir telur ráðh. nauðsynlegar til að flytja þennan iðnað inn í landið?“ Ég vænti svars hæstv. ráðh. við þessu.