01.02.1977
Sameinað þing: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

69. mál, áhrif Framkvæmdastofnunar ríkisins og Byggðasjóðs á athugun á atvinnu- og byggðaþróun í landinu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. vildi ekki fallast á að menn hefðu haft ástæðu til að ætla að hlutverk Framkvæmdastofnunar væri mikilvægt fyrir þróun og uppbyggingu atvinnuveganna í landinu. En það vill nú þannig til að ég er með grein úr lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins eins og þau voru fram að árinu 1976, þ. e. a. s. þar til þeim var breytt nú í vor, og þessi grein hljóðar þannig með leyfi forseta:

„Áætlanadeild gerir áætlanir um uppbyggingu og þróun mikilvægustu atvinnugreina og um heildarþróun atvinnulífsins.“

Og 8. gr. hljóðar svo:

„Deildin gerir áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs víðs vegar um land, með það fyrir augum að skapa landsmönnum öllum fulla atvinnu og eðlileg lífsskilyrði og stuðla að heilbrigðri byggðaþróun.“

Þetta er ekki lítið hlutverk. Og það er engin furða þó að við óbreyttir þm. höfum ætlast til mikils af slíkri stofnun sem var þó búin að starfa fjögur ár undir þessum lögum. Það er þess vegna sem ég hef verið svolítið óánægður með það, hvað mér fannst að stjórn stofnunarinnar hefði misskilið hlutverk sitt þar sem hún skipti landinu í landshluta, en ekki í byggðir eða sveitarfélög eins og lögin beinlínis gefa í skyn að skuli gert. Ég þakka aftur á móti 4. þm. Austurl. fyrir að svo er komið að nú á að fara að veita lán til þessa hrjáða atvinnuvegar á Reykjanesi. En ég vil líka taka skýrt fram að við ætlumst til, þar sem hlutur þessa svæðis hefur verið mikill í fiskveiðum, að það verði ekki neinir smámunir sem fari í þetta, því að hann er nýbúinn að upplýsa okkur um það hér að á undanförnum fjórum árum hafi verið notaðir um 14–15 milljarðar til hraðfrystihúsaáætlunar. Þessi áætlun á eftir að njóta sín þarna suður frá, þannig að ég vona að við megum eiga von á miklum endurbótum varðandi þennan iðnað og þessa uppbyggingu. (TÁ: Miðað við verðlag 1976.) Já, rétt.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. taldi nú sjávarútveginn vera orðinn hornreku á Suðurnesjum. Slíkt er ekki rétt, og ég hef aldrei getað skilið hvað menn eru hræddir við það að vinnuaflið eigi kost á einhverri sæmilega launaðri vinnu. Þetta kemur hvað eftir annað í ljós, þessi ótti, að vegna þess að völlurinn eða álverið sé einhvers staðar í nágrenninu eigi aðrir atvinnuvegir í örðugleikum. Þetta held ég að sé alls ekki rétt. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að það sé ekki neinn vinnuaflsskortur, það sé alveg þveröfugt á Suðurnesjum núna. Einkum er það kvenfólkið sem hefur átt við atvinnuleysi að stríða. Það er ekkert að marka atvinnuleysisskýrslur þarna að sunnan af því að fólkið er ekki vant við að láta skrá sig á atvinnuleysisskýrslur. En það er enginn vafi á því að atvinnutækifæri eru færri núna á Suðurnesjum heldur en víðast hvar annars staðar á landinu. Og það sem veldur þessu öllu saman, er einfaldlega það sem ég gat um áðan, að minna fiskast, og það er einföld skýring og eðlileg. Ef fiskast minna og aðstaðan er sú sama og kannske heldur betri til að taka á móti fiski en áður var, þá er skiljanlegt að þá vantar verkefni í landinu. Og þetta er ekki einfalt að laga vegna þess að þorskinn vantar í afla suðurnesjamanna. En eitt er víst, að þeir — eins og hv. þm. tók fram — búa við erfiða fiskvinnslu, líka vegna þess að þeir eru með gömul frystihús og þeir urðu að nota arðinn af góðu árunum 1972, 1973 og 1974 til þess að endurbæta þau á ýmsan hátt. Það nægði þó ekki til. En þeir standa líka uppi með rekstrarfjárskort og okurvexti og ófullkomna aðstöðu.