09.02.1977
Efri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

153. mál, áfengislög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vék að því í ræðu minni áðan og reyndi, eftir því sem ég taldi nauðsynlegt, að leggja áherslu á aukna fræðslu um þessi mál, sem byggðist upp með tvennum hætti, þ. e. a. s. fyrirbyggjandi fræðslu og fræðslu til þeirra sem þegar hefðu með einum eða öðrum hætti ánetjast þessum vanda og ættu erfitt með að losna við hann, jafnvel þó að þeir sæju fram á hann.

Ég vil undirstrika það sem ég sagði þá einnig, að eftir að menn hafa með einhverjum hætti átt í erfiðleikum með þessi mál, þá verða bæturnar eða breytt líferni í þessum efnum að koma frá viðkomandi persónum sjálfum, svo mjög sem þær eru persónubundnar í einu og öllu. Það er þýðingarlaust að ætla sér að lækna þann mann, sem sjúkur er af áfengisneyslu, án eigin vilja hans. Það er skoðun allra þeirra sem lengst hafa barist til úrbóta í þessum efnum, að það sé nánast þýðingarlaust.

Það var á það minnst hér af frsm. þessa frv., að bið fjölritaða blað, Snepill, sem gefið er út — að mér skilst fjárhagslega stuðningslaust einkaframtak — af Steinari Guðmundssyni, það væri æðioft hvassyrt í garð okkar þm. Ég hef með athygli lesið þetta blað þegar mér hefur borist það, og ég met mikils þann skerf sem þessi maður leggur til þess að vekja áhuga manna og opna augu manna fyrir þessum vanda sem við er að etja, enda mun hann sjálfur hafa eins og margir fleiri dýrmæta, kannske þungbæra reynslu í þessum efnum. Fyrir þá sem hafa hrasað, og það eiga allir á hættu eftir að hafa tekið sitt fyrsta glas, á ég þá ósk besta til þjóðarinnar allrar, og þar ættum við hafa forustu sem sitjum á hv. Alþ., að okkur sé gefið æðruleysi til að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt, en jafnframt kjarkur til að breyta því, sem við getum breytt, og vit til þess að greina á milli. Ég held að þetta sé meginkjarninn, hið raunverulega inntak allra umr. hér. En því miður verður það að segjast eins og er, að við eigum margt af þeim ádeilum skilið sem fram koma í hinu umrædda, fjölritaða blaði Steinars Guðmundssonar. Það fer ekki saman í hugum fólks að áætla á hverju einasta ári ákveðnar tekjur af áfengiskaupum, til almenningsþarfa að sjálfsögðu á sama tíma og við ætlum að reyna að útiloka það, þegar ekki liggja fyrir neinar tölur, sem kannske er skiljanlegt, um það hve mikið tjón og hve mikil útgjöld vegna þessarar tekjulindar ríkisins eiga sér stað, hvað fer í töpuðum vinnustundum og sjúkralegu sem beint eða óbeint leiðir af þessu, eins og hv. 2. þm. Reykn. kom hér inn á áðan. Þetta eru hlutir sem eru ómældir, og þess vegna má einskis láta ófreistað til þess að efla þær stofnanir, sem til eru skv. gildandi lögum, og gera þeim kleift að vinna að sínu umbótastarfi svo sem frekast er unnt.