15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt að ráði. Það má vel vera að Alþ. geti skorað á ríkisstj. að láta umsækjendanöfn um framkvæmdastjórastöðu Sölu varnarliðseigna koma fram, og það gerir þá það ef það telur ástæðu til. Ég hef ekkert meira um það að segja sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um það mál. En ég veit ekki hvort það fær staðist heldur, að þm. geti krafist þess að nöfn mannanna séu birt. Ég veit það ekki, það þarf að kanna það og það má vel gera það og verður gert.

Ég efa ekki að skilaboð hv. 5. þm. Norðurl. v. hafi verið ítarlegri en þau bárust mér. Ég vil ekkert um það segja. Hann fullyrðir það og ég hef ekki neina ástæðu til að draga það í efa. Ég mun hafa sagt að starfsemin væri með hefðbundnum hætti, og það stend ég við að því er varðar alla framkvæmd, daglega framkvæmd. Hins vegar er hitt alveg rétt, sem hv. þm. einnig nefndi, að í tíð vinstri stjórnarinnar var sölunefndin lögð niður og framkvæmdastjórinn hefur heyrt beint undir rn. og haft sér til ráðuneytis mjög góðan og gegnan mann, Gunnlaug Briem fyrrv. ráðuneytisstjóra. Það má vera að þetta þyki ófullnægjandi, en svona hefur þetta verið framkvæmt. Það er vel til athugunar að breyta því, ef mönnum finnst nefndir t. d. of fáar, að fjölga þá um eina í þessu efni. Það væri kannske ástæða fyrir Alþ. til þess að álykta það, að á stofn skyldi sett sölunefnd varnarliðseigna að nýju. Ef mönnum þykir mikið við liggja, þá gera þeir það að sjálfsögðu.

Menn tala mikið um kröfur almennings hér, og bæði hv. 5. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vestf. tala um það sem skýlausa kröfu almennings að þessi nöfn séu birt. Þetta hefur nokkrum sinnum komið fram í einstaka blöðum, að menn væru áhugasamir um að vita hverjir hefðu sótt um þessa stöðu. Það er kannske skiljanlegt. Það er forvitnilegt að vita hverjir hafa gefið kost á sér í þessa stöðu. En ástæðan fyrir því, að ég hef ekki birt þessi nöfn, er sú sem ég áður greindi, að ýmsir hafa beðið mig um að láta sín ekki getið. Ef aðeins eru nefndir þeir af þessum 34 sem hafa fallist á það eða ekki sett nein slík skilyrði, koma þá ekki getgátur, eins og hv. 5. þm. Vestf. komst að orði, um það, hverjir hinir eru sem ekki vildu láta nafns síns getið. Ég held að það sé ákaflega erfitt, og ég þykist hafa reynt það nokkuð og vísa að sumu leyti til þess, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, að það er erfitt að kveða niður getgátur og getsakir, og með því að birta hluta af nöfnunum og ekki þau öll er boðið heim annars konar tegund af sögusögnum og getgátum. Ég mun kanna hvort ekki sé unnt að fá samþykki allra til þess að nöfn þeirra séu birt. En að birta hluta, það líst mér ekki á, og ég hygg að hv. alþm. hljóti að vera sammála um að það er ekki til þess fallið að kveða niður getgátur.

Það er eflaust ósiður að gefa svona loforð, og ég gerði það í þeirri trú að utanrrn. þyrfti ekki að birta nöfn. Það má vel vera að þessi lögskýring fái ekki staðist. Ég mun einnig láta kanna, hvort hún fær staðist eða ekki, og taka þá ákvörðun á grundvelli þeirrar niðurstöðu.

Ég hef ekkert á móti því að hv. þm. ræði þetta mál og er alveg tilbúinn til að taka þátt í frekari umr. um Sölu varnarliðseigna og starfsemi hennar ef það mál ber að með eðlilegum, þinglegum hætti. En þessum sífelldu hlaupum í ræðustól utan dagskrár af litlum eða engum tilefnum — þeim vil ég helst ekki taka þátt í nema sem allra minnst.

Það hefur verið talað um að setja lög um Sölu varnarliðseigna. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En í mínum vonum a. m. k. er hér um bráðabirgðaástand að ræða. Ég vona að málum geti orðið þannig skipað að hægt verði að leggja þetta fyrirtæki niður eins og aðra starfsemi sem að hernaðarbrölti lýtur.

Ég gleymdi að svara hv. 2. landsk. þm. áðan um byggingarframkvæmdir á Grensásvegi og skal fúslega gera það nú, þó að þess ætti ekki að vera þörf þar eð þessi bygging er á fjárl. Þar segir að þessi ofanábygging sé gerð af ríkissjóði fyrir Orkustofnun. Orkustofnun er í húsnæðishraki, og það hefur orðið að ráði að byggja ofan á þá hæð, sem sala varnarliðseigna fer fram í, fyrir þessa ríkisstofnun á kostnað ríkissjóðs. Þessu hélt ég satt að segja að menn hefðu almennt gert sér grein fyrir, en ekki nema sjálfsagt auðvitað að upplýsa það ef svo er ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. Ég veit að frummælandi hefur þurft að víkja af þingfundi og ég skil það vel, og ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð nema enn frekari tilefni gefist til.