15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það var sagt, að þegar hinn þekkti og alræmdi Al Capone lá banaleguna, þá hafi hann kveðið upp úr um það að hann ætti sér ósk til handa sonum sínum tveimur, sem stóð til að erfðu hann, og það var að þeir kæmust í sölunefnd setuliðseigna á Íslandi. Hafði sá góði maður þó oft komist í feitt um ævina. En nú er búið að leggja þá sölunefnd niður. En ég vil að það komi hér fram, og hv. 12. þm. Reykv. má skoða það sem persónulega árás ef dómgreind hans er þann veg vaxin, og ég vil að hæstv. utanrrh. viti það af mínum eigin vörum, að ég er undrandi á vinnubrögðunum í sambandi við embættisveitingu þessa, og ræður þar ekki úrslitum þótt svo kunni að vera að lög hafi ekki verið brotin í leiðinni.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál efnislega, en auðvitað á ekki að taka við umsókn um opinber embætti frá huldumönnum. Ég vil sem sé að það sé alveg ljóst, að öll aðferðin er mér í hæsta máta óskapfellileg.