15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

255. mál, veitinga- og gistihúsarektstur

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Hinn 29. apríl 1974 var samþykkt hér á Alþ. ályktun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa n. til þess að athuga og gera till. um úrbætur á vanda þeirra aðila sem stunda veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan mestu þéttbýlissvæða landsins. Skal nefndin m. a. taka til athugunar rekstrarafkomu og rekstrarfjárþörf þessara þjónustuaðila yfir vetrarmánuðina, ásamt leit að leiðum til bættrar afkomu, enn fremur tillögur um aðstoð hins opinbera, ef þess er þörf, og samræmingu slíkrar aðstoðar.

N. skal skila áliti eigi síðar en svo, að leggja megi tillögur hennar fyrir Alþ. á næsta hausti.“ Frá því að þessi ályktun var gerð hér á hv. Alþ. eru senn liðin þrjú ár, og enn hefur ekkert komið fram opinberlega um það, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessa máls. Þó er mér kunnugt um að skipuð var n. til þess að fjalla um þetta efni og hefur hún væntanlega skilað áliti til rn. Till. n. hafa þó ekki verið birtar og raunar ekkert af þeim heyrst, a. m. k. opinberlega. Tæplega getur það verið vegna þess að sá vandi, sem um er rætt í ályktun Alþ., sé úr sögunni, því að eftir því sem mér hefur virst og ég hef getað kynnt mér þessi mál, þá hefur hann fremur aukist en hið gagnstæða. Þar kemur vitaskuld margt til, en þó e. t. v. ekki síst hin erfiðu kjör á lánum Ferðamálasjóðs sem þessir aðilar hafa orðið að sæta.

Á allmörgum undanförnum árum hefur Alþ. veitt á fjárl. lítils háttar fjárhæð fyrst og fremst til styrktar þeim aðilum sem annast þjónustu við ferðamenn að vetrarlagi á erfiðum samgönguleiðum. Þessu fé hefur fjvn. skipt og er þar auðvitað smátt skammtað, auk þess sem skipting fjárins getur auðvitað verið umdeilanleg. Á fjárl. þessa árs er áætlað að verja til þessa viðfangsefnis 4 millj. kr. og er það auðvitað lítið fé og til að mynda lítið eitt hærra en varið er til styrktar einum snjóbil í tilteknum landshluta, og eru það þó vissulega þörf tæki. En þetta er lítil fjárhæð miðað við þær fjárhæðir sem veittar eru á fjárl. til þess að greiða fyrir samgöngum bæði á sjó og á landi um vetrarmánuðina í einstökum landshlutum. Á næstu dögum liggur fyrir að fjvn. taki til við það verk að skipta þessu fé, en það hefur ekki enn verið gert.

Það var von mín að í framhaldi af ályktun Alþ. frá 29. apríl 1974 væri unnt að móta nokkuð heildstæða stefnu í úthlutun þeirra styrkja sem hér eru um að ræða, ef þeirra væri á annað borð þörf, því að að því er vikið í ályktun Alþ. Vel má líka vera að svo sé í till. þeirrar n., sem um þessi mál hefur fjallað. En ég tel að orðið hafi nokkur bið á því að frá till. hennar hafi verið greint og hvort hæstv. samgrh. teldi ástæðu til þess að nokkuð frekar væri aðhafst í þessu máli. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram fsp. á þskj. 138 til hæstv. samgrh. sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað liður framkvæmd þál., sem samþ. var á Alþ. 29. apríl 1974, um athugun og till. til úrbóta á vanda þeirra aðila sem stunda veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan mestu þéttbýlissvæða landsins?“