15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

156. mál, jöfnun símgjalda

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 303 að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv, samgrh.:

„Hvers vegna var ekki við síðustu gjaldskrárhækkun Pósts og síma framkvæmd jöfnun símgjalda í samræmi við samþykkt Alþ. frá 25. mars 1974.“ — Ég biðst afsökunar á þeirri villu, sem þarna er, því að þessi samþykkt Alþ. mun hafa verið gerð 28. mars 1974, hvernig sem á því stendur að þessi dagsetning er þarna komin inn.

Það er rétt til að taka af öll tvímæli um það, að mjög ákveðið var að orði kveðið í þál., að unnið skyldi að því að jafna símkostnað þannig að hann væri hinn sami hvar sem væri á landinu, og hún var því mjög ótvíræð. Þetta kom einnig fram í yfirlýsingu hæstv. ráðh. á sínum tíma við fsp. um þessi mál, þar sem hæstv. ráðh. vék einmitt að því, að við gjaldskrárbreytingar yrði reynt að koma auknum jöfnuði á, og greindi þá frá hvað hefði verið gert einmitt við gjaldskrárhækkunina þá næst á undan í þessu efni, sem var til töluverðrar lagfæringar.

Þegar svo mikil hækkun verður sem nú varð, þá orsakar það auðvitað að fólk spyr um það almennt úti á landi, hvers vegna þetta skref hafi ekki verið notað til þess að þoka í átt til aukins jafnaðar, þó við gerum okkur ljóst að þetta tekur lengri tíma. Einmitt með sérstöku tilliti til þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðh. á sínum tíma held ég að menn hafi almennt vænst aðgerða í þessa átt nú. Ég hef verið mjög spurður að því eystra, þar sem þessi símgjöld eru hvað þungbærust, hvað gert hefði verið í þessu efni, og eftir því sem ég fæ best séð, þá mun það eitt hafa gerst að næturtaxtinn eða afslátturinn, sem er á símgjöldunum að næturlagi, hafi verið lengdur um eina klukkustund. Það kemur raunar öllum til góða jafnt varðandi persónuleg samskipti. En allt sem snertir samband okkar landsbyggðarmanna við þær fjölmörgu stofnanir, sem eru staðsettar á Reykjavíkursvæðinu, er óbreytt með öllu fyrir þessu. Þeim er lokað löngu fyrr en þessir næturtaxtar hefjast.

Það fer auðvitað ekki á milli mála hversu gífurlega mikill mismunur ríkir enn á þessu sviði. Þar um eru auðvitað mörg persónuleg dæmi sem skipta tugþúsundum, þrátt fyrir þá lagfæringu sem gerð var á sínum tíma og ber að meta og þakka hæstv. ráðh. fyrir að hann gerði. En þegar um er að ræða 25% hækkun á gjaldskrá að meðaltali, þá spyr landsbyggðarfólk eðlilega almennt um það, hvers vegna ekki hafi verið framkvæmd sú jöfnun símgjalda að hluta til, nokkur áfangi í átt til fulls jafnaðar, sem þál. segir til um og ég veit að var á sínum tíma meining allra flm., sem voru úr byggðanefnd Alþ., og hæstv. ráðh. hefur tekið myndarlega undir áður. Við fengum það æ ofan í æ frá yfirvöldum Pósts og síma á þessum tíma, að það væru margar tæknilegar ástæður sem hér væru í vegi: álagið yrði t. d. gífurlegt, allar línur mundu eyðileggjast og alls konar slíkar mótbárur. Ég veit að hæstv. ráðh. er ekki frekar en við trúaðir á algildi þess arna, svo að það getur ekki verið ástæðan, þó að ég viti að póst- og símamálastjóri hafi komið inn á þetta æ ofan í æ. En ég sem sagt óska eftir svörum við því, hvers vegna þetta hafi ekki verið gert við síðustu gjaldskrárhækkun, og þá í framhaldi af því í raun og veru, hvort ekki megi vænta einhverra aðgerða til þess að reyna að koma þessari þál. meira í framkvæmd en þegar er.