21.02.1977
Neðri deild: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

163. mál, atvinnulýðræði

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þm. úr báðum stjórnarflokkunum hafa nú látið í ljós skoðanir sínar á þessu frv. um atvinnulýðræði. Þeir hafa að vísu laumað út úr sér ýmsum viðurkenningarorðum um málið, en engu að síður eru ræður þeirra hreinar úrtöluræður. Það leynir sér ekki að þm. eru báðir a. m. k. hræddir við þetta mál, ég vil ekki segja á móti því, en taka því af furðulegri tregðu og jafnvel með útúrsnúningum.

Hv. 5. þm. Reykv. tók að sér að vera hinn lögfræðilegi siðapostuli deildarinnar, sem er okkur dm. að sjálfsögðu til mikillar ánægju, og er það virðingarvert að hún skuli vera á móti bandormum. Hins vegar vil ég benda á að þetta er að því leyti sérstakur bandormur, að hann er ekki um allt milli himins og jarðar sem kallað er „sparnaður“, eins og algengt er, heldur er hann allur um eitt ákveðið efni, sem sagt þátttöku starfsmanna í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Það var hægt að semja eitt frv. og segja í því frv.: Í hlutafélögum skal gera þetta, í samvinnufélögum skal gera þetta, í opinberum stofnunum skal gera þetta og að breyta ekki þeim lögum sem fyrir eru. Þá hefði þetta ekki verið bandormur, heldur samfellt frv. um þátttöku starfsmanna í stjórn fyrirtækja og stofnana. En það hefði orðið enn þá meiri vinna fyrir vesalings lögfræðingana ef þetta hefði verið gert. Bandormurinn verður væntanlega skorinn í sundur og breytingarnar á hinum ýmsu lögum færðar í lögbókum hver á sinn stað, þannig að það verði auðveldara að átta sig á því og láta sér ekki sjást yfir þessi atriði heldur en vera mundi ef þetta væru sérstök lög.

Það er athyglisvert, að báðir þessir hv. þm. tala um forsögu málsins, og komst sjálfstæðismaðurinn að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu að þetta sé ævagömul hugmynd sjálfstæðismanna, og framsóknarmaðurinn sagði okkur að málið hefði mjög verið rætt innan Framsfl. Ég gleðst yfir þessu, því það er góðs viti fyrir málið að nú þegar megi segja að allir vilji Eddu kveðið hafa. Við leggjum ekki áherslu á að eigna okkur þetta mál, enda kom í ljós af þeim upplýsingum sem 1. flm., sem er ungur þm., hafði, að hann taldi alþb.-mann hafa flutt fyrstu beinu till. um þetta.

Það er rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að fyrir 40 árum eða svo komu fram hugmyndir um arðskiptifyrirkomulag í fyrirtækjum. Það átti sem sagt að veita starfsfólkinu hlutdeild í arðinum og var í því sambandi minnst á hugsanlegar samstarfsnefndir og sitthvað fleira. Það var að vísu lærdómsríkt, að hún sagði að sjálfstæðismenn hefðu oft flutt svona mál, sérstaklega hinir yngri. Það virðist sem sagt eldast af þeim fljótt í þeim flokki áhuginn á slíkum málum. En ég vil engu að síður benda á með virðingu fyrir þeim þm., sem hún nefndi og fluttu þessi mál fyrir síðasta stríð af góðri meiningu, að það er hæpið að telja þetta sömu hreyfingu. Á þeim árum var það algengt að veita vinnandi fólki hluta úr arði. En þetta var eins konar bólusetning kapítalismans. Þetta voru náðargjafir sem stjórnir fyrirtækjanna veittu til fólksins í þeirri von að geta dregið úr þeim hreyfingum, sem á þeim tíma fóru ört vaxandi, um að það efnahagskerfi, sem við búum við, sé engan veginn réttlátt og engan veginn viðunandi.

Hreyfingin um raunverulegt lýðræði í atvinnufyrirtækjum komst ekki af stað að marki í núverandi mynd sinni fyrr en síðar, en hún hefur náð mikilli útbreiðslu. Það er þegar staðreynd í flestum nágrannalöndum okkar og víðar um heim, að atvinnulýðræði er framkvæmt á þessu sviði, starfsfólk hefur fengið rétt til að eiga fulltrúa í stjórnum stofnana og fyrirtækja með fullum rétti. Við munum að öllum líkindum staðfesta það með lögum áður en langt um líður, að Spigerverket í Noregi, sem hér er kallað voldugur, alþjóðlegur auðhringur, fái aðstöðu hér á landi með íslenska ríkinu, en í stjórn þessa fyrirtækis sitja tveir kjörnir fulltrúar verkamanna í málmbræðslunum í Noregi. Lengra frá okkur er þetta ekki. Ef ég má nefna annað dæmi, þá er þegar búið að lögbinda það og byrjað að framkvæma í Þýskalandi, að stjórnir stórfyrirtækjanna skiptast næstum því til helminga, því að það er aðeins oddamaðurinn sem fjármagnið hefur enn þá umfram fulltrúa vinnuaflsins.

Fleiri dæmi gæti ég nefnt sem sýna að hér er um að ræða þjóðfélagslegar breytingar sem hafa orðið miklar og örar í nágrannalöndum okkar, en við sitjum eftir. Við sitjum algerlega eftir.

Það er talað um að hugtakið atvinnulýðræði sé óskilgreint, og má það til sanns vegar færa. En í þessu frv. þarf enginn að hafa áhyggjur af því að orðið stendur í fyrirsögninni. Það nær ekki lengra en efni frv., ef að lögum yrði. Hins vegar tel ég að atvinnulýðræðið sé viðtækara og ræddi það m. a. nýlega í Sþ. þegar til umræðu kom till. um vinnuvernd og áhrif vinnandi fólks á nánasta starfsumhverfi sitt, sem er oft í ærið langri fjarlægð frá stjórnum fyrirtækjanna. Það er líka atvinnulýðræði.

Mikið var gert úr því að við alþfl.-menn leggjum til löggjöf um þessi mál, eins og gert hefur verið í nágrannalöndum okkar, en að við skulum ekki leggja til að hér verði farin samningaleiðin. Á þessu er einföld og augljós skýring. Hún er sú, að við teljum atvinnulýðræði, þ. e. a. s. rétt vinnuaflsins til að hafa sömu áhrif á stjórn framleiðslunnar eins og fjármagnið, vera mannréttindi sem Alþingi íslendinga á að samþykkja fyrir þjóðina, en það á ekki að vera mál sem verkafólkið þarf að kaupa í samningum og e. t. v. láta af svo miklum kauphækkunum í hvert skipti sem skref er stigið. Þetta er reginmunurinn. Fólkið á heimtingu á því að Alþingi íslendinga öðlist þann félagslega skilning og þroska, sem blómstrar allt í kringum okkur, að lögfesta þetta án þess að láta verkalýðsfélögin berjast fyrir því í verkföllum og færa fyrir það fórnir. Við í Alþfl. höfum ekki verið hrifnir af afskiptum ríkisvaldsins af samningamálum, þó að til þeirra hafi því miður stundum komið. En þetta er alls ekki mál í þeim flokki. Hér er um að ræða grundvallarmannréttindi, og um þau ber Alþ. að fjalla sjálfu og lögfesta, þannig að allir þegnar lýðveldisins geti notið þeirra laga til jafns eftir því hvar þeir starfa.

Það er næsta furðulegt hversu hægt hefur verið um þessi mál. Eins og rakið var af frsm. hafa till., sem lúta beinlínis að atvinnulýðræði í þeirri mynd sem við nú tölum um það, verið fluttar hér hver á fætur annarri og einnig lagafrv. í meira en áratug. Yfirleitt hefur þessum málum ekki verið sinnt, þau hafa verið hægt og hljóðlega svæfð. Þó var ein till, frá Alþfl. samþykkt í tíð vinstri stjórnarinnar og skipuð allmyndarleg n. til að gera drög að lögum um þátttöku starfsmanna í stjórnum fyrirtækja. Þessi n. virðist hafa gefist upp við verkefni sitt. Þess vegna hefur þingflokkur okkar, þó að fámennur sé, lagt í það að afla sér gagna og skrifa jafnflókið frv. og þetta þó er. Við gerum það til þess að sýna viljann og alvöruna, en engan veginn til þess að leggja fram bókstaf sem í engu megi breyta svo að við getum við unað. Við munum svo sannarlega fagna því ef Alþ. vildi af alvöru fjalla um þetta mál og gæti þá gert sínar breytingar varðandi framkvæmdaatriði og allt annað en sjálfa grundvallarhugsjónina.

Því miður eru Íslendingar að verða félagslega vanþróuð þjóð á mörgum sviðum, ef miðað er við þær þjóðir sem við að flestu leyti viljum bera okkur saman við. Það ríkir hér á landi ótrúleg íhaldssemi í þessum efnum. Það er hún og ekkert annað sem hefur valdið því, að við höfum ekkert komist áfram á þessu sviði og við erum komnir langt aftur úr nágrannaþjóðum okkar. Ég vil því hvetja eindregið til þess að Alþ. reyni að rífa sig upp úr því að geta ekki talað um annað en beinharða peninga, fjárlög, skattalög og efnahagsmál, og geri sér grein fyrir því að þjóðfélag okkar verður að taka félagslegum þroska, sem getur til lengdar verið enn meira virði heldur en deilur okkar um skiptingu á kökunni hverju sinni. Því miður hefur pólitíkin þróast svo, og ríkisstj. ber á því mikla ábyrgð, að félagsmálin eru skilin eftir og hafa ekki fengið að þróast hér á Alþ. eða í íslenskum stjórnmálum neitt svipað því sem gerst hefur í nágrannalöndum okkar. Ég bið menn að íhuga og að gefa sér tíma til að hugsa um mál eins og atvinnulýðræði á raunhæfan hátt, gera sér grein fyrir því, að ef við ætlum ekki að dragast enn þá lengra aftur úr verðum við að taka til höndum og reyna að koma á umhótum á þessu sviði.