22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv, ríkisstj., sem styðst við yfirgnæfandi meiri hl. á Alþ., leggur nú fram þriðju áætlun sína um framkvæmdir í vegamálum, svo að stefna hennar varðandi þennan mikilsverða málaflokk er nú orðin fullljós.

Þm. þess flokks, sem fer með stjórnarforustu, deildu mjög harkalega á þá vegáætlun, sem vinstri stjórnin lagði fram á Alþ. vorið 1974, og töldu að þar væri gert ráð fyrir allt of naumu fjármagni til svo mikilsverðra framkvæmda. Ég ætla ekki að rifja upp hvaða orð þeir hv. þm. viðhöfðu þá, en niðurstaða þeirra varð sú, að einungis með aðild Sjálfstfl. að ríkisstj. yrði tryggt stóraukið fé til vegaframkvæmda fram yfir það sem gert var ráð fyrir í vegáætlun fyrir árið 1974.

Ýmsum kann því að hafa komið á óvart að í fyrstu- vegáætlun hæstv. núv: ríkisstj. vorið 1975 var gert ráð fyrir verulegum samdrætti í framkvæmdum í vegamálum. Það dróst svo langt fram á s. l. vor að vegáætlun fyrir árin 1976–1979 væri lögð fram, en hæstv. samgrh. taldi að ástæðan til þess væri augljós: það var alltaf verið að reyna að fá meira fé til vegaframkvæmda. Þegar vegáætlunin var loks lögð fram, þegar um það bil vika var eftir til þinglausna s. l. vor, kom í ljós að árangurinn í fjáröfluninni hafði verið í öfugu hlutfalli við erfiðið, því að enn var gert ráð fyrir verulegri minnkun framkvæmda frá vegáætlun fyrir árið 1975, að ekki sé nú titlað um áætlunina 1974.

Í ljós kom að sú upphæð, sem gerð var till. um að verja til nýrra þjóðvega árið 1976, var einungis 0.47% hærri að krónutölu en sú fjárhæð sem varið var á vegáætlun til sams konar framkvæmda árið 1975, og þessi fjárveiting, sem rýrnaði svo mjög að verðgildi vegna verðbólgunnar, var fengin með þeim hætti að gera ráð fyrir að ráðstafa til almennrar vegagerðar 500 millj. kr. upphæð sem aflað var með sérstakri heimild í lögum og skylt var að verja einungis til framkvæmda við Norður- og Austurveg. (Gripið fram í.) Þegar þessi uppbygging vegáætlunar og þessi fyrirætlan var þm. ljós fór svo, að afgreiðsla vegáætlunar lenti í algjöru óefni, og hæstv. ríkisstj., sem styðst við atfylgi 42 þm. af 60, reyndist sem fyrr risi á brauðfótum og gafst upp við að afgreiða vegáætlun til 4 ára samkv. gildandi lögum. Borin var saman bráðabirgðavegáætlun sem gilti einungis fyrir árið 1976 og með þeim hætti að af þeim 500 millj. kr., sem bundnar voru samkv. lögum við framkvæmdir við Norður- og Austurveg, var einungis varið 150 millj. kr. í þær framkvæmdir sem féð átti að fará til samkv. lögum, en 350 millj. kr. voru lánaðar til almennra vegaframkvæmda. Þá var enn fremur gert ráð fyrir að af heildarupphæðinni, sem var svo til óbreytt að krónutölu frá árinu 1975 og minnkaði svo mjög að raungildi, væri 250 millj. kr. fengnar með verktakalánum sem yrði að endurgreiða á 1–2 árum. Með þessum hætti var barin saman bráðabirgðavegáætlun til eins árs. Væntu þm. þess áreiðanlega að með þessari áætlun væri náð því lágmarki fjárveitinga til nýrra vegaframkvæmda, sem hæstv. ríkisstj. treysti sér að leggja fram till. um, og að því leyti væri jákvætt að slík afgreiðsla gilti aðeins fyrir eitt ár. Gert var ráð fyrir að ný vegáætlun til 4 ára yrði lögð fram haustið 1976 og afgreidd fyrir áramót, svo að fyrir hendi væri gildandi vegáætlun á nýju ári.

Í grg. með fjárlagafrv. s. l. haust var skýrt og skorinort tekið fram á hvern veg yrði staðið að þessu máli. Þar sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir afgreiðslu vegáætlunar samtímis afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1977 og mun samgrh. leggja hana fram í nóv. n. k.“

Hæstv. ríkisstj., sem með slíkum endemum hafði staðið að afgreiðslu vegáætlunar vorið 1976, tókst ekki að standa við þetta fyrirheit varðandi nýja vegáætlun, og árið leið svo að vegáætlun var ekki einu sinni lögð fram, hvað þá afgreidd, og engin vegáætlun var til á nýju ári. Það var komið fram í miðjan febrúar þegar till. sá loksins dagsins ljós.

Án efa hefðu flestir hv., alþm. látið sér þessa frammistöðu hæstv. ríkisstj. lynda ef í ljós hefði komið, þegar vegáætlun loks birtist, að tíminn hefði verið notaður til þess að leysa þann vanda, sem efnahagsóstjórn ríkisstj. hefur komið Vegasjóði í, og aflað hefði verið fjár a. m. k. í þeim mæli að stöðvuð væri sú öfugþróun að framkvæmdafé rýrnaði stórlega með hverri nýrri vegáætlun hæstv. ríkisstj., að ekki sé nú talað um ef framkvæmdafé í nýrri vegáætlun, þótt síðborin væri, hefði nálgast eitthvað það raungildi sem um var að ræða í vegáætlun, t. d. fyrir árið 1974. Alþm. og landsmenn yfirleitt hefðu án efa ekki sett fyrir sig seinkunina á birtingu vegáætlunar ef í ljós hefði komið, þegar hún seint og um síðir var lögð fram, að öfugþróuninni í málefnum Vegasjóðs í tíð núv. hæstv. ríkisstj., markvissum og stöðugum samdrætti í vegaframkvæmdum, hefði verið snúið við. En reyndin er því miður ekki sú. Öfugþróuninni hefur ekki verið snúið við. Hún hefur ekki einu sinni verið stöðvuð. Hún heldur markvisst áfram á sama hátt og í sama mæli og verið hefur síðan Sjálfstfl. og Framsfl. tóku við stjórnartaumunum.

Hæstv. ríkisstj. heldur af stefnufestu áfram á þeirri braut sem hún markaði í upphafi stjórnarferils síns, að skera niður vegaframkvæmdir með hverri nýrri vegáætlun sem hún leggur fram. Allt hjal um byggðastefnu er öfugmæli og endileysa þegar þannig er staðið að þeim málaflokki sem er ein aðalundirstaða byggðastefnu, uppbygging vegakerfisins í landinu.

Við afgreiðslu vegáætlunar s. l. vor blöskraði þm. yfirleitt, hversu samdráttur í framkvæmdum var stórkostlegur, og gerðu sér vissulega vonir um að uppgjöf ríkisstj. við að gera á þeim tíma áætlun um framkvæmdir á árinu 1977 á þeim sama grundvelli fjárveitinga þýddi í raun, að hæstv. ríkisstj. mundi nota tímann til að ráða einhverja bót á högum Vegasjóðs og að á annan og álitlegri hátt yrði staðið að áætlunargerð fyrir árið 1977 og næstu ár. Niðurstaðan því efni liggur nú fyrir í þeirri till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1977–1980, sem hér er til umr.

Grundvöllur fjárveitinga til vegaframkvæmda á þessu ári og hinum næstu er ekki sá sami og s. l. vor. Nei, lagt er til að á árinu 1977 verði varið til framkvæmda við nýja þjóðvegi 14 millj. kr. lægri upphæð en á s. l. ári, —14 millj. kr. lægri upphæð til allra nýrra framkvæmda á öllu landinu en í fyrra. Á bls. 20 í grg. með þáltill. segir, að líklegt megi telja að hækkun framkvæmdavísitölu vegagerðar frá vísitölu í ágúst 1976 verði um 25%. Það þýðir einfaldlega, að til þess að ráðstöfunarfé til nýrra þjóðvega á árinu 1977 væri jafngildi hliðstæðrar fjárhæðar í hinni vesölu vegáætlun í fyrra þyrfti á vegaáætlun nú að vera gert ráð fyrir 2 842.5 millj. kr., en samkv. þeirri áætlun, sem hér er lögð fram, er fjárhæðir 1977 2264 millj. Þar skortir nær 580 millj. kr. og þótti þó niðurskurðurinn í fyrra ærinn og fjárveitingin ekki beysin. Hver skyldi hafa trúað því í fyrra, þegar hæstv. ríkisstj. gafst upp við að afgreiða áætlun um framkvæmdir á árinu 1977 á sama grundvelli og fyrir árið 1976, að þessi yrði raunin í ár hrein lækkun í krónutölu samtímis 25% hækkun framkvæmdakostnaðar? En það, sem er alvarlegast, er að á þennan veg hefur niðurstaðan verið við hverja einustu afgreiðslu hæstv. ríkisstj. á vegáætlun. Óstjórnin í efnahagsmálunum, óðaverðbólga þrátt fyrir óverulegar verðhækkanir á innfluttum vörum og þrátt fyrir batnandi ytri aðstæður á allan hátt, er að koma Vegasjóði í algjört þrot. Tekjur Vegasjóðs verða að engu í óðaverðbólgunni, en ríkissjóður hirðir á sama tíma stórauknar tekjur af tollum og sölusköttum af bensíni og bifreiðum. En það fer allt til þess að standa undir síauknum rekstrarkostnaði ríkissjóðs, en fjárveitingar til verklegra framkvæmda ríkissjóðs eru einnig skornar niður.

Það vantaði ekki að fulltrúar þess flokks, sem fer með stjórnarforustuna og flestu ræður í ríkisstj., teldu að allt of litlum fjármunum ætti að verja til vegaframkvæmda á árinu 1974. Þá voru fluttar hér á hv. Alþ. yfirlýsingar um að eina ráðið til að stórauka framkvæmdir í vegamálum væri að fá Sjálfstfl. völdin. Hvað þyrftu framlög til nýrra þjóðvega að vera mikil á árinu 1977 til að jafngilda þeim fjárhæðum sem þm. Sjálfstfl. töldu allt of vesældarlegar í vegáætlun fyrir árið 1974? Fjárveitingin til nýrra þjóðvega á vegáætlun fyrir árið 1974 nam 1633.3 millj. kr., og framkvæmdavísitala vegagerðar nam í ágúst 1974 2094 stigum. Samkv. grg. með vegáætlun nú er áætlað að sama vísitala verði í sumar 5804 stig eða hafi hækkað um 177.2% á þrem stjórnarárum ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. Fjárveiting til nýrra þjóðvega á árinu 1977, sem væri jafngild fjárveitingu á vegáætlun 1974, þyrfti að vera ekki 2260 millj. kr., eins og hér er lagt til, heldur 4527.5 millj. kr. Til þess að vera jafngild — ekki hærri, eins og lofað var — þyrfti upphæðin að vera 4527.5 millj. kr. í stað 2260 millj, sem till. er gerð um í þeirri vegáætlun sem hér er lögð fram eftir dúk og disk.

Framkvæmdir við nýja þjóðvegi eiga samkv. þeirri till. til þál. um vegáætlun, sem hér er til umr., að nema 49.9% af hliðstæðum framkvæmdum á vegáætlun fyrir árið 1974, — 49.9% af þeim framkvæmdum sem þm. Sjálfstfl. þótti mikil fjarstæða að sætta sig við. Ef fjárhæðin, sem ætluð er til framkvæmda við nýja þjóðvegi á þessu ári, er á sama hátt borin saman við fyrri áætlanir af hendi núv. stjórnarflokka um þær sömu framkvæmdir, þ. e. a. s. þær framkvæmdir sem í 4 ára vegáætlun, sem samþ. var vorið 1975, var áformað að vinna á árinu 1977, kemur fram að miðað við vísitölu vegagerðar 3339 stig í ágúst 1975 og 5804 stig í ágúst í ár ætti fjármagn í þessari till. til vegáætlunar, sem hér liggur fyrir, að nema 3518 millj. kr. í stað 2260 millj. Fjárhæðin í þeirri vegaáætlun, sem nú er lögð fram, nemur því aðeins 64.2% af raungildi þeirrar fjárhæðar sem stjórnarflokkarnir ætluðu sjálfir til þessara framkvæmda á árinu 1977 í þeirri vegáætlun sem samþykkt var í maí 1975. Má þó bæta því við að frá þeirri upphæð, sem í vegáætlun nú er ætluð til nýrra framkvæmda við þjóðvegi á þessu ári, dragast endurgreiðslur framkvæmdalána, 158 millj. kr., bráðabirgðalán, sem unnið var fyrir 1976, nema um 60 millj. kr. Það fjármagn, sem á vegáætlun 1974 var áætlað til vegaframkvæmda í kaupstöðum og kauptúnum, nam 204:9 millj. kr. og svarar til 568 millj. á þessu ári, miðað við verðbreytingar. En í þeirri till. um vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er þessi tala 396 millj. kr. Fjárhæðin er að raungildi 69.7% af fjárhæðinni í vegáætlun 1974.

Fjárhæðin, sem ætlunin er að verja á þessu ári til nýrra þjóðvega, er því innan við 50% af'þeirri fjárhæð sem áætlað var fyrir þrem árum að verja til samsvarandi framkvæmda, og er þess þó enn að gæta, að hluti þeirrar fjárhæðar, sem á að ráðstafa á þessu ári, er fenginn með sérstakri skuldabréfasölu samkv. lögum frá 1975, þar sem samþykkt var að afla fjár til framkvæmda við Norður- og Austurveg til viðbótar almennum framkvæmdum í vegagerð. Við vitum hvernig tókst til um meðferð þess fjár við afgreiðslu vegáætlunar í fyrra, þegar 350 millj. kr. af þessari fjáröflun, sem samkv. lögum er mörkuð þessum sérstöku framkvæmdum; voru lánaðar til almennra framkvæmda með yfirlýsingu um að sú upphæð, 350 millj. kr., yrði síðan endurgreidd af framkvæmdafé til annarrar vegagerðar.

Nú eru heildarfjárveitingar til framkvæmda við nýja þjóðvegi enn rýrðar mjög verulega að raungildi, en þrátt fyrir það er í heildarfjárhæðinni gert ráð fyrir þessari sérmörkuðu fjáröflun sem lögbundið er að verði einungis varið til framkvæmda við Norður- og Austurveg. Rýrnun á framkvæmdafé til annarra framkvæmda er þá þeim mun meiri, og þykir þó víst flestum nóg um að rýrnunin er 50% nú á nokkrum árum:

Ég held að það sé alveg ljóst, að hefði það legið fyrir við afgreiðslu laga um fjáröflun til Norður- og Austurvegar árið 1975, að það fjármagn kæmi ekki til viðbótar þeim fjármunum sem þá var varið til vegamála, heldur ætti að dragast af heildarfjármagni til almennrar vegagerðar og jafnvel af stórrýrðu framkvæmdafé til annarrar vegagerðar í landinu, þá hefðu fæstir hv. alþm. samþykkt þessi lög. Þau voru óumdeilanlega samþykkt á þeirri forsendu að fjáröflunin yrði grundvöllur viðbótarframkvæmda, en framvindan yrði ekki sú sem raun hefur á orðið, að heildarfjármagnið, jafnvel að meðtöldu þessu fé sem átti að vera viðbót, yrði miklu minna, já, helmingi minna að raungildi. Lánveitingin á þessu fé frá Norður- og Austurvegi til almennrar vegagerðar í fyrra gerir þetta mál allt enn fráleitara þegar enn verður að rýra framkvæmdafé til annarrar vegagerðar með endurgreiðslum.

Stjórnarflokkarnir hafa haldið þannig á málum að grundvöllur lagasetningarinnar um fjáröflun til Norður- og Austurvegar er í raun brostinn. Þm. gátu fallist á að afla sérstaks viðbótarfjármagns til þessarar sérstöku vegagerðar. En það er ekki þar með sagt að þeir hefðu samþykkt að taka 500 millj. kr. á ári til þessara afmörkuðu framkvæmda af því framkvæmdafé sem fyrir hendi var, hvað þá ef legið hefði fyrir að það framkvæmdafé yrði stórminnkað, eins og gert hefur verið. Ég vek sérstaka athygli á þessu. Hér er farið að með algerum endemum. Ég tel að í raun sé ógerlegt að nota heimildina um lántöku til framkvæmda við Norður- og Austurveg með þessum hætti. Hún er byggð á því og samþykkt á þeim grundvelli af hv. þm. að um viðbótarfjármagn sé að ræða. En þannig blasir veruleikinn við. Hæstv. ríkisstj. hefur staðið svo að efnahags- og verðlagsmálum að það er engin leið greið til þess að leysa mál Vegasjóðs sem hún hefur komið í alger þrot.

Þeir þm. Sjálfstfl., sem harðast deildu á það vorið 1974 að áætlaðar fjárhæðir til framkvæmda væru allt of lágar, vísuðu óspart á ríkissjóð, ríkissjóður ætti í ríkara mæli að koma til styrktar Vegasjóði, því að hann hefði sífellt meiri tekjur af umferðinni og ætti að skila þeim aftur til framkvæmda við vegagerð. En hafa þá framlög ríkissjóðs til þessara mála ekki aukist frá þeirri áætlun sem þessir hv. þm. deildu mest á? Árið 1974 greiddi ríkissjóður vegna Vegasjóðs í afborganir og vexti og í beint framlag 785 millj. kr., samkv. því sem fram kemur í ræðum þáv. hæstv. samgrh. og hv. 1. þm. Suðurl. við umr. um vegáætlunina 1974–1977. Miðað við breytingar á vísitölu vegagerðarkostnaðar samsvarar þetta 2175.8 millj. kr. á árinu 1977. Menn skyldu nú ætla að þessi tala væri mun hærri í ár, þegar hafður er í huga sá mikli áhugi sem þm. Sjálfstfl. sýndu á því að ríkissjóður styddi Vegasjóð í mjög auknum mæli. Nei, þessi tala hefur þvert á móti minnkað að raungildi. Samkv. fjárl. er áætlað að ríkissjóður greiði um 1300 millj. kr. í afborganir og vexti af lánum Vegasjóðs, og samkv. þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er beint framlag ríkissjóðs á þessu ári áætlað 779 millj. kr., eða samtals 2079 millj. Skortir þá um 100 millj. kr. á að upphæðin sé jafngild þeirri sem þótti svo lág vorið 1974.

Á hinn bóginn hafa tekjur ríkissjóðs af bifreiðum og bensíni stórlega aukist. Það vantar ekki mikið á að innflutningsgjald af bifreiðum, ef það rennur í ríkissjóð, nemi jafnhárri upphæð og allt framlag ríkissjóðs, vextir og afborganir lána og beint framlag vegna vegagerðar. Innflutningsgjaldið er á þessu ári áætlað 1600 millj. kr., en afborganir og vextir af lánum Vegasjóðs og beint framlag ríkissjóðs nema samtals 2079 millj. kr., eins og ég áðan sagði. 1974 námu greiðslur ríkissjóðs til Vegasjóðs 785 millj., en innflutningsgjaldið í ríkissjóð 410 millj. kr., og var það hlutfall Vegasjóði mun hagstæðara en nú. Þróunin hefur því orðið sú, að með innflutningsgjaldinu einu fær ríkissjóður nær alla þá upphæð sem hann greiðir vegna vegagerðar, en þar til viðbótar er áætlað að á árinu 1977 nemi tekjur ríkissjóðs af tollum af bensíni 1250 millj. kr., af tollum af bifreiðum 2300 millj., af söluskatti af bensíni 1450 millj., af söluskatti af bifreiðum 1550 millj., eða samtals 6550 millj. kr. Með innflutningsgjaldinu nemur upphæðin 8150 millj. kr. á þessu ári, en framlög ríkissjóðs til Vegasjóðs eru, eins og ég áðan sagði, um 2079 millj. Þarna er um að ræða 6071 millj. kr. mismun nettó í ríkissjóð eða nær því þrefalda þá upphæð sem varið er til framkvæmda við nýja þjóðvegi á sama ári.

Um fjölmörg einstök atriði varðandi vegamál væri e. t. v. ástæða til að ræða við fyrri umr. um vegáætlunina, svo sem skiptingu fjár annars vegar til stofnbrauta og hins vegar til þjóðbrauta, ákvarðanir um skiptingu milli kjördæma, mismunandi mat á mikilvægi þess að leggja bundið slitlag þar sem umferð er mest og hins vegar á uppbyggingu vega í snjóþungum héruðum, og svo mætti lengi telja. Allt kemur þetta til kasta fjvn. við afgreiðslu málsins, og að sjálfsögðu ber að stefna að því að ná um þessi atriði sem bestu samkomulagi. Það verður erfitt, en ég held að það erfiða hlutverk verði síst auðveldað með því að festa sig um of í yfirlýsingum um einstök atriði á þessu stigi málsins og læt ég það því vera. En ég hef sérstaklega viljað vekja athygli á þeirri alvarlegu og stórfellda öfugþróun sem orðið hefur í vegamálum við hverja einustu vegáætlun sem hæstv. ríkisstj. leggur fram. Hér er um að ræða málaflokk sem er meðal hinna allra mikilvægustu af samfélagslegum framkvæmdum. Framvindan á þessu sviði ræður miklu um byggðaþróun í landinu, og aðrar aðgerðir sem kunna að verða gerðar til úrbóta í byggðamálum, koma ekki að því haldi sem þeim er ætlað ef áfram er staðið svo að vegamálum sem hæstv. ríkisstj. hefur gert. Það ríður því á miklu að hæstv. ríkisstj. takist ekki að halda áfram þeirri stefnu sinni að draga úr framkvæmdum í vegamálum með hverri nýrri vegáætlun. Þannig er ekki unnt að standa lengur að málum.