23.02.1977
Neðri deild: 52. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

145. mál, framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Benedikt Gröndal:

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert við efni þessa frv. í sjálfu sér að athuga, og mér er ekkert að vanbúnaði að veita því samþykki. En þar sem hér koma til meðferðar atriði varðandi tvær veigamiklar alþjóðastofnanir, sem við eigum mjög margvísleg viðskipti við, langar mig til að varpa fram tveim eða þrem spurningum til hæstv. viðskrh., hvort sem hann er við því búinn að svara þeim nú eða við síðari umr.

Við höfum fengið allmikil lán frá Alþjóðabankanum, og það hefur verið á flestra vitorði að þau lán muni, miðað við íbúafjölda íslendinga, vera einhver hin hæstu sem tíðkast. Nú hef ég lesið það einhvers staðar fyrir skömmu að Alþjóðabankinn teldi að íslendingar væru búnir að fá svo mikil lán, miðað við stærð þjóðarinnar og efnahagsumsvif, að bankinn hefði ákveðið að stöðva frekari lánveitingar til okkar. Mér leikur forvitni á að vita, hvort þetta er á nokkrum rökum reist. Ef svo er ekki, þá væri einnig fróðlegt að vita hvort nú eru nokkur áform uppi um frekari lántökur og þá til hvers.

Hin stofnunin, sem frv. fjallar um, er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Hann hefur á síðari árum starfað mikið að því að styrkja gjaldeyri hinna ýmsu þátttökuríkja, sem munu vera flest ríki heims að undanteknum kommúnistaríkjunum. Þetta hefur m. a. verið gert í formi svonefndra dráttarréttinda. Nú hefur mér skilist að íslendingar hafi mjög hagnýtt sér þessi dráttarréttindi í þeirri efnahagskreppu sem þjóðin hefur átt við að stríða. Mig minnir að ég hafi lesið það í skýrslu frá OECD, að íslendingar væru nú komnir mjög nærri því að hagnýta sér að fullu þessi dráttarréttindi, lántökur samkv. þeim. Mér leikur einnig nokkur forvitni á að vita hvernig þessum málum er háttað, þar sem fyrirhugað mun vera að Ísland taki um 20 milljarða kr. að láni erlendis á þessu ári, en af því mun rúmlega helmingurinn verða notaður til að greiða niður eldri lán og vexti þannig að hrein aukning yrði liðlega 10 milljarðar. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að það sé töluvert erfiðara fyrir okkur að fá lán með hagstæðum kjörum á opnum lánamarkaði heldur en innan marka sjóðsins, og þessi dráttarréttindi í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafa sannarlega orðið okkur til mjög mikillar hjálpar, sumum hefur sýnst svo mikillar hjálpar að án þeirrar aðstoðar hefði vel getað komið til þess að íslensku gjaldeyrisbankarnir hefðu komist í þrot með erlendan gjaldeyri.