24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Landbrh. (Halldór E. Sigurósson) :

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar alllangar og merkilegar, og út af fyrir sig er það svo sem nokkurt ánægjuefni að umr. um vegáætlun skuli taka orðið meiri tíma á hv. Alþ. heldur en umr. um sjálf fjárl., jafnvel þó að þau leggi þann ramma sem vegáætluninni er markaður, eins og þau gera nú og hafa reyndar alltaf gert. Nú skal ég ekki fara að fara langt út í einstakar ræður. Ég vil hins vegar segja það, að ræða hv. 11 landsk. þm. skar sig á margan hátt úr öllum þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar. Hún var, eins og hans var von og vísa, málefnaleg og rökstudd, þó að sumt væri í henni byggt á öðrum forsendum en þeim sem ég hafði. En hann gerði líka grein fyrir því og þess vegna var það eðlileg ræða af hálfu stjórnarandstöðu. Ég ætla því ekki að fara út í aths. í sambandi við það, sem þar kom fram, ekki síst þar sem hv. 11. landsk. þm. lýsti því yfir að mestu máli skipti að reyna innan fjvn., sem fjallar um þetta mál í umboði þingflokka og í samstarfi við þá, að ná sem bestri samstöðu. Þetta met ég og virði og mun því ekki fara frekar út í umr. um það.

Út af því, sem fram hefur komið hér á hv. Alþ. um að þáltill. væri seint á ferð, þá hefur það einnig komið fram, að þau lög, sem þessi þáltill. er byggð á, voru ekki samþykkt fyrr en í lok þingsins fyrir jólahléið, og það tók að sjálfsögðu eðlilegan tíma að koma vegáætluninni saman eftir það og prenta hana. Þingið kom saman seint í janúar og till, var lögð fram um miðjan febrúar. Ég verð því að segja það, að þó að hv. þm. haldi uppi gagnrýni á það, þá sé ekki ástæða til þess, því að það hlaut að fara svo, að það tæki nokkurn tíma frá því að vegalögin voru afgreidd þangað til vegáætlunin kæmi fram hér til umr.

Það, sem hefur komið fram í þessum umr. og hv. þm. hafa rætt einna mest um, eru framkvæmdaáætlanir þær, sem gerðar hafa verið og menn vilja halda í, og löggjöf, sem sett var hér um tekjuöflun og notkun þess fjár sem hún byggðist á. Nú verð ég að segja það um þessar framkvæmdaáætlanir, að um gildi þeirra hef ég litið svo á að þær væru ekki til eilífðarnóns. Hins vegar sagði ég það í framsöguræðu minni og get endurtekið það, að ég tel að vinna verði að þeim verkefnum, sem þar eru sett, og verði reynt við afgreiðslu þessarar vegáætlunar að fjármagna þau eins og önnur verk í vegagerð, þannig að þessu ljúki nú. Það sýnir okkur hins vegar að slíkar áætlanir geta á vissan hátt skapað verulega erfiðleika. En ég tek það skýrt fram, að það er a. m. k. mín hugsun, og ég vona að það verði ofan á hér í þinginu, að þessum verkefnum verði sinnt að því leyti sem hægt er innan þess ramma sem við höfum við afgreiðslu vegáætlunarinnar.

Um það, sem fram hefur komið og kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. um skýringuna á lögum um happdrættislán ríkissjóðs, þá vil ég þar um segja, að mér kom í hug, þegar hv. þm. var að skýra þessi lög, saga af gömlum sýslunga okkar, séra Árna Þórarinssyni prófasti, en það gerðist á þeim árum þegar segulbönd voru að ryðja sér til rúms. Þá kom séra Árni í hús eitt í bænum og sagði þar góða sögu sem var tekin upp á segulband án þess að hann vissi. Nokkru seinna kom hann svo aftur í þetta sama hús og þá sagði húsráðandi: Nú hef ég góðan sögumann hér í næsta herbergi og ætla ég að láta segja sögu án þess að þú fáir að sjá hann og biðja þig nú að hlusta og meta sögufrásögn hans. Hann spilaði svo segulbandið og þegar því var lokið sagði séra Árni: Æ, æ, æ, þetta er illa sögð saga. Þessa sögu skal ég segja miklu betur. — Ég held því að ég gæti líka, þó ekki sé ég lögfræðingur, lögskýrt þessi lög frá 16. maí 1975 um happdrættislán til Norður- og Austurvegar nokkuð á annan veg en kom hér fram, þar sem segir í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármunir þeir, er inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skulu renna til Vegasjóðs og skal þeim varið að 2/3 hlutum til þess að greiða kostnað við gerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur og að 1/3 hluta til að greiða kostnað við gerð Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða um Suðurland. Kostnaður við framkvæmd þessarar fjáröflunar greiðist af söluandvirði skuldabréfanna.“

Mér finnst hér skýrt tekið fram að þessa fjármuni eigi að nota til vegagerðar, annars vegar á vesturleiðinni til Akureyrar og hins vegar á austurleiðinni frá Reykjavík til Egilsstaða, en það sé ekki flokkað í lögunum að það sé þessi vegur eða þessi framkvæmd, en ekki hin, sem eigi að njóta. Það finnst mér að hljóti að verða matsatriði hverju sinni, en hitt sé lögbundið, að það, sem verði selt af þessum bréfum á þessu ári, sem ég geri ráð fyrir að verði 860 millj., verði að nota á þennan veg: 2/3 til Vestur- og Norðurvegar til Akureyrar, en hinn hlutinn um Suðurland austur til Egilsstaða. En að einhver hluti vegarins sé rétthærri en annar, það held ég að við höfum aldrei látið okkur detta í hug, heldur að koma þessum málum betur áfram. Ég held að við hv. 4. þm. Norðurl. v. höfum staðið að þessu og lagt á okkur þó nokkuð til að koma þessum málum fram í þeirri von að við greiddum fyrir vegagerð í landinu á þessum brautum með þessum hætti. Hitt getur líka alltaf orkað tvímælis og verið matsatriði, hvað af þessum fjármunum er umfram það sem að öðrum kosti væri veitt, það er alveg ljóst. Ég held því að Holtavörðuheiði, Kjósarskarðsvegur eða Kiðafellsvegur, Borgarfjarðarbrú og Norðurárdalur og hvað við nefnum það, Húnavatnssýslur og allt til Akureyrar hafi allt sama réttinn og það, sem sé okkar mál og okkar vandi, sé að skipta þessu á þessa staði og gerast þar ekki of frekir, en ekki hitt, að það megi allir þessir staðir nota þessa fjármuni. Alveg sama er að segja um Suðurland. Það breytir engu þó að þetta fé sé notað í áframhaldandi lagningu hraðbrautar eða lagningu malbiks eða olíumalar sem slitlags á vegi. Þó að hafi verið byrjað á því áður að gera þetta, þá lít ég á það með sama rétti og að ryðja skriðurnar fyrir Hvalsnes, þetta sé allt saman á einum báti í þessum tilfellum. Þetta held ég að sé alveg ljóst, og þess vegna vel ég nú frásögn af sögu Árna í samræmi við það að við gerum þetta betur með þessum hætti en að öðrum kosti.

Mergur málsins er svo það, að okkur skortir fjármuni til þeirra vegaframkvæmda sem við þurfum að vinna, og það hefur okkur skort lengst af. Við höfum verið að reyna að leysa það að þeim leiðum, sem hafa veríð færastar, og reynt að sameinast um það. T. d. var það svo árið 1974, þegar. við hv. 2. þm. Austurl. sátum saman í ríkisstj., að þá var það hlutverk þáv. hæstv. vegamálaráðh. og okkar hinna, sem á bak við hann stóðum, að við urðum að draga úr framkvæmdum, sem voru komnar inn á vegáætlun, vegna þeirra verðhækkana sem orðið höfðu, að krónurnar nægðu ekki til þess að gera eins mikið og við höfðum ætlast til. Við höfðum sett upp okkar áætlun miðað við þann kostnað, sem þá var þekktur, en gátum ekki komið í verk af því að fjármunirnir höfðu rýrnað í verðbólgunni. Og það hefur gert það að verkum að við urðum að fresta framkvæmdum.

Nú vil ég segja það eins og ég sagði líka í framsöguræðu minni fyrir þessari þáltill., að bensíngjaldið, sem er höfuðstofninn, hefur farið verr út úr þessu heldur en aðrir tekjustofnar, sem ég veit að þarf ekki að segja jafnglöggum manni og hv. 2. þm. Austurl. Eins og ég benti t. d. á, þá var þetta svo, að bensínskatturinn var 48–51% af heildarverði bensínsins, en er nú orðinn 25%. Þetta stafar af því að bensínverðið, grunnverð bensínsins, hefur hækkað verulega og er því ekki eins notadrjúgur stofn og áður. Jafnhliða þessu hefur svo það gerst, að söluskatturinn hefur einnig verið hækkaður og hluti hans í heildarverðinu er því orðinn margfalt meiri en hann áður var.

Nú er það alveg rétt, eins og hv. 2. þm. Austurl. sagði og hér hefur komið fram í umr., að það má krefja ríkissjóð um meira. En hvernig hefur okkur gengið að koma saman fjárl. síðustu árin og hvernig hefur staða þeirra orðið eftir að við höfum þó orðið að gera á þeim margar bætur eftir afgreiðslu þeirra? Það þarf enginn hv. þm. að vera neitt í vafa um það, að þegar ríkissjóður er með halla upp á 7.5 milljarð á einu og sama ári, eins og gerðist 1975, þá segir það eftir, ekki síst þegar samt var búið að bæta við nýjum tekjustofni eins og vörugjaldið var. Þetta kemur fram í öllum okkar framkvæmdum og kemur fram í þjóðlífinu í heild. Og við vitum það, hv. þm., og þeim mun betur sem menn hafa setið hér lengur á hv. Alþ., að fram hjá þessu áfalli verður ekki komist. Það kemur fram í þjóðlífinu, því að til þess að jafna þetta verðum við að ná í tekjustofna og þessir tekjustofnar koma svo aftur fram í verðlaginu sem við erum alltaf að kljást við. Ég get sagt það hér, að ég lagði mig mjög hart fram um að fá hækkað bensínverðið fyrir afgreiðslu fjárl. í haust. En ástæðan til þess, að ég fékk það ekki, var m. a. áhrifin sem bensínskatturinn hafði á verðlag á bensíninu og verðlag í landinu. Bensínverðið er komið upp í 80 kr. lítrinn og er samt verið að ræða um að það nægi ekki. Þetta hefur gert það að verkum, að málefnið er ekki eins auðvelt og menn vildu vera láta. Ég er ekkert að efast um að hv. þm. geri sér grein fyrir þessu. Hitt þekkjum við af pólitískum umr., að auðvitað notar stjórnarandstaðan alltaf veilur til gagnrýni og á að gera það. Það er hennar hlutverk að gera það. Og eins og ég sagði áðan, þá hafa margir gert það með rökum og við því er ekkert að segja. Enginn maður væri því fegnari en ég og gleddist meira yfir því, eins og kom fram í framsöguræðu minni, ef væri hægt að finna lausn á þessu máli með þeim hætti að auka fjármunina. En gæta verður þó að því, að í kjölfar þess arna sigli ekki sú verðhækkun sem geri meira en að eyða tekjuöfluninni.

Það verður að gæta að því að hjá þjóð eins og okkar þjóð, sem hefur búið síðan 1974, þá fyrst, og 1975 við halla á fjárl., vonandi verður það ekki 1976 þó ekki sé séð fyrir endann á því enn þá að mínu mati, en 1974 og 1975, halla á fjárl., gífurlegan viðskiptahalla, að það hlýtur að hafa áhrif í öllu hennar þjóðlífi, jafnvel að það snerti lífæðarnar líka, því að það eru auðvitað lífæðar hverrar þjóðar hvernig efnahagsstöðu hennar er komið. Það, sem er gert með þessari þáltill., er að færa sig upp á við aftur, reyna að ná því, sem tapast hefur, og stefna inn á þá braut að bati sá, sem kann að verða hjá þjóðinni í efnahagsmálum, komi einnig fram í vegamálunum. Þess vegna er það, að miðað við verðlag dagsins í dag er heildarfjárveiting til vegamála svipuð að magni og var á s.l. ári. Hitt er svo annað mál með vegina og t. d. hafnirnar og skólana eða sérstaklega hafnirnar, að riðhaldið í höfnunum er með allt öðrum hætti. Það er venjulega greitt af hafnargjöldunum nema um meiri háttar framkvæmdir sé að ræða. Viðhaldið á skólunum var eitt af því sem ríkissjóður færði yfir til sveitarfélaganna með löggjöf á s. l. ári. svo að það var síst að þar væri betur að staðið. Ég held líka að ef við lítum á málin í heild, þá hafi framkvæmdamáttur vegafjárins ekki rýrnað meira en framkvæmdamáttur í framkvæmdum yfirleitt á þessum erfiðu árum.

Ég vil líka minna á það, sem ég gerði fyrr við þessa umr., að einmitt á þeim árum sem best var að þessu staðið eða mest var til þess arna reynt, þá vorum við með stórframkvæmdir sem þá var a. m. k. haldið fram að væru alveg sérstakt en ekki blandað saman við vegáætlunina, eins og framkvæmdina á Skeiðarársandi. Sú framkvæmd tók á þriðja milljarð. Og þrátt fyrir allt talið, sem menn hafa nú verið með um Borgarfjarðarbrúna, hygg ég að það fari nú svo að hún reynist tæplega eins dýr og þessi framkvæmd. Við vorum sammála um þessa framkvæmd og við gerðum hana með miklu meiri hraða en við gerum Borgarfjarðarbrúna. Nú ætla ég ekki að fara að eyða neinum tíma í að ræða um þá framkvæmd. Menn geta haldið áfram, ef þeir vilja, að tala um hana, ef þeir hafa gaman af því. Ég var að hugsa um að það, sem ég ætti að gera til þess að ná fé í brúna, væri að skipta við hv. 5. þm. Vestf., því að hann tók til svo myndarlega fjárhæð að ég er alveg viss um að ég er ekki maður til þess að komast svo hátt. En það út af fyrir sig bíður einhvers tíma. Auðvitað þýðir það, að við höfum of lítið fjármagn, að við verðum lengur með þá framkvæmd eins og aðrar, eins og við höfum verið með landshlutááætlanirnar, en inn í þær hafa líka komið margir þættir sem ekki var reiknað með í upphaf í.

Nú skal ég ekki lengja þessar umr. Ég ætla mér ekki að fara hér út í neinar kappumr. um þessi mál hér, því að ég veit ósköp vel hvernig þau standa. Ég veit ástæðurnar ég hef ekkert dregið undan þar um og er ekki að biðjast á neinn hátt vægðar í sambandi við þetta mál, því að ég hef góða samvisku um að hafa sótt mál af fullu kappi í hópi þeirra aðila sem ég vinn með, þó að ég hins vegar hafi orðið að beygja mig fyrir staðreyndum og eins og aðrir talið mér skylt að taka tillit til efnahagsmála þjóðarinnar. Það, sem ég tel að við vinnum með þessari vegáætlun, er að við færumst inn á nýja braut með vegaviðhaldið, sækjum þar fram til þess að ná því marki að halda því í því horfi sem talið er skynsamlegt og eðlilegt að gera.

Í öðru lagi held ég að við munum við afgreiðslu þessarar vegáætlunar geta haldið einnig í horfi með framkvæmdirnar. Ég geri mér vonir um að við munum nú afgreiða hana með þeim hætti. Ég tel líka að við séum að færast inn á þá braut að lántökur okkar verði ekki miklu meiri en það sem við greiðum af þeim lánum sem tekin hafa verið vegna vegaframkvæmda. Allt er þetta spor í rétta átt. Svo tel ég jafnsjálfsagt og við höfum orðið að slaka á vegna fjárhagserfiðleikánna að fylgja eftir með framkvæmdir í vegamálum og fjárhæðir til vegamála með batnandi efnahagsafkomu þjóðarinnar. Ég efast ekkert um að hér á hv. Alþ. verður um það fullkomin samstaða. Ég tel líka að þeir, sem ábyrgð bera á landsstjórn á hverjum tíma, verði að gæta sín í því, sem þeir hafa vilja til og lögun, að miða það við þá getu sem þjóðinni sjálfri er hagkvæmast í heild. Við það er þessi vegáætlun miðuð þó að þörf væri á meira fé.