28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til athugunar frv. til l. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o. fl. og rætt það á nokkrum fundum. N. mælir með samþykkt frv., eins og fram kemur í áliti hennar á þskj. 337, með þeim breyt. sem fram koma í till. á þskj. 338. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Axel Jónsson og Jón G. Sólnes. Ragnar Arnalds og Jón Árm. Héðinsson skrifa undir með fyrirvara vegna óánægju þeirra með þá fjárhæð sem ákveðin var á fjárl. þessa árs til greiðslu þeirra verkefna sem frv. þetta fjallar um.

Eins og fram kom við 1. umr. málsins í þessari hv. d., er verið að útbúa ramma til skiptingar á því fjármagni sem fjárl. ætla hverju sinni til þess að draga úr þeim ójöfnuði sem margföldun á olíuverði á síðustu árum hefur valdið milli fólks eftir búsetu þess í landinu. Það munu hafa verið nokkuð skiptar skoðanir í upphafi um hvaða reglur skyldi hafa við úthlutun þessa fjármagns, en þrátt fyrir það hefur verið haldið þeirri reglu sem ákveðin var í upphafi, og með því frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir að svo verði einnig framvegis.

Við 1. umr. þessa máls var bent á tvo fámenna hópa í þjóðfélaginu sem hækkun olíuverðsins hefur bitnað mjög þungt á, án þess að nokkuð hafi verið reynt að draga úr því.

Annars vegar eru það þeir sem enga möguleika hafa á að fá raforku til heimilisnota á annan hátt en með rekstri dísilstöðva. Það er reynsla þeirra, sem þær hafa þurft að nota, en síðan fengið rafmagn frá samveitu, að orkan frá þeim sé miklu dýrari. En þessir aðilar eru að verða svo fáir að sá styrkur, sem lagt er til að þeir fái samkvæmt fyrri lið brtt., skiptir heildina litlu, en getur munað nokkru fyrir þá sem hans mundu njóta.

Hins vegar eru það þeir nemendur grunnskóla sem verða að dvelja í heimavist meðan á námi stendur, yfirleitt nokkra daga í viku, en síðan á heimilum sínum um helgar og verða því að hafa húsnæði á tveimur stöðum. Að vísu greiða viðkomandi sveitarfélög upphitunarkostnað heimavistarskólanna. En hann lendir þá beint á íbúum viðkomandi sveitarfélaga sem yfirleitt eru fámenn og búa við erfiða aðstöðu á margan annan hátt.

Hér er um að ræða tiltölulega lágar upphæðir miðað við þá heildarupphæð sem varið er til þess að greiða niður olíuverðið. Lauslega áætlað er þetta um 3 millj. kr. samkvæmt hvorum lið brtt.

Það er augljóst að með þessum ráðstöfunum verður ekki jöfnuð til fulls aðstaða þeirra aðila á því sviði sem ræðir um í frv., það verður aðeins gert með öðrum aðgerðum sem ég minntist aðeins á við 1. umr. þessa máls. En á meðan það hefur ekki verið gert er með þessum aðgerðum verið að reyna að draga nokkuð úr ójöfnuðinum.