28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

106. mál, innflutningur á olíupramma

Frsm. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa hf. Olíumöl innflutning á olíupramma.

Prammi sá, sem hér um ræðir, er að verða 117 ára gamall og á því að baki langa og merkilega sögu. Að undanförnu hefur Olíumöl hf. haft hann á leigu til flutninga hér við land. Reynsla fyrirtækisins af skipinu hefur verið þannig, að það óskar eftir að fá það keypt, en ákvæði laga nr. 52 1970, sem banna innflutning skipa eldri en 12 ára, koma í veg fyrir það. Hins vegar er samkv. sömu lögum heimilt að veita undanþágu frá því ákvæði ef ákveðnar ástæður eru fyrir hendi, m. a. ef skip eru með sérstökum vélbúnaði eða þau eru ætluð til sérstakra ferða í sérstökum tilgangi.

Siglingamálastjóri hefur skrifað samgrn. umsögn um þetta mál, og í henni kemur fram að vélbúnaður þessa skips er sérstakur þar sem hann er miðaður við notkun þess sem olíupramma, en ekki til að knýja skipið áfram, og enn fremur sé það ætlað til sérstakra ferða í sérstökum tilgangi þar sem það er innréttað sérstaklega til að flytja heit olíuefni. Hins vegar segir einnig í umsögn siglingamálastjóra, að vegna þess fordæmis, sem heimild til innflutnings þessa skips gæti valdið, telji hann réttara að láta ákvörðun um kaupin og heimild til skráningar koma til kasta Alþ., eins og gert er með flutningi þessa frv.

Eftir að hafa athugað málið leggur samgn. til að frv. verði samþ. óbreytt, en fjarverandi afgreiðslu málsins voru Jón Árnason, Jón G. Sólnes og Eggert G. Þorsteinsson.