07.03.1977
Efri deild: 48. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

106. mál, innflutningur á olíupramma

Frsm. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Á síðasta fundi þessarar hv. d. komu fram tilmæli um það, að lesið yrði upp bréf með umsögn siglingamálastjóra til samgrn., sem vitnað er til í nál. samgn. Vil ég verða við þeirri ósk, en bréfið hljóðar þannig:

„Varðandi erindi Olíumalar hf., dags. 4. mars s. l., sem fylgdi bréfi rn., dags. 24. mars, þar sem farið er fram á heimild rn. til að mega skrásetja olíupramma Fina 5 hér á landi, skal eftirfarandi tekið fram:

Prammi þessi er smíðaður úr járni árið 1860 sem farþegaskip og bolur þess er sagður vera meðal elstu skipa sem skráð eru í sænska skipastólnum. Samkvæmt c-lið 26. gr. laga nr. 52/1970, um eftirlit með skipum, má siglingamálastjóri því aðeins mæla með innflutningi skips að það sé eigi eldra en 12 ára. Samkvæmt 27. gr. getur ráðh. veitt undanþágu frá ákvæðum laganna skipum sem eru: a) sérstakrar gerðar, b) úr sérstöku efni eða c) með sérstökum vélabúnaði, svo og d) skipum sem gerð eru til sérstakra ferða í sérstökum tilgangi. Þó skal siglingamálastjóri mæla með undanþágunni.

Varðandi framangreind atriði skal tekið fram: a) Skipið sjálft, þ, e. a. s. bolur þess, er ekki sérstakrar gerðar nema að því leyti að bolur þess er mjög fornt farþegaskip, b) Bolur skipsins er úr járni og ekki úr neinu sérstöku efni miðað við þann tíma sem það var smíðað. e) Vélabúnaður þess miðast við notkun þess sem olíupramma, en er ekki til að knýja skipið áfram. d) Skipið er innréttað sérstaklega til að flytja heit olíuefni og því má segja að það sé ætlað til sérstakra nota.

Ekki verður fram hjá því gengið, að skipið er mjög gamalt orðið, smíðað árið 1860, þ. e. a. s. 116 ára gamalt. Ef innflutningur þess yrði leyfður þrátt fyrir ákvæði þeirrar meginkröfu laganna að skip, sem flutt eru til landsins, séu ekki eldri en 12 ára, þá þurfa að vera mjög mikilvæg rök fyrir því, að hér sé um alveg sérstakar ástæður að ræða, ef ekki slík undanþága yrði notuð til að styðja síðari umsóknir um innflutning skipa eldri en 12 ára. Veigamesta ástæðan fyrir umsókninni mun vera sú ástæða að skip þetta fæst keypt ódýrt, en það er mjög algengt að einmitt það atriði sé tiltækt þegar um kaup á gömlum skipum er að ræða. Þar eð skip þetta er dregið mannlaust milli hafna, þá er varla mikil hætta á slysum á mönnum.

Vegna þess fordæmis, sem heimild til innflutnings þessa skips gæti valdið, tel ég réttara að láta ákvörðun um kaupin og heimild til skráningar koma til kasta Alþingis, enda hafa áður verið sett sérlög um leyfi til skráningar skipa eldri en 12 ára, t. d. fyrir hvalveiðibátana og fyrir e/s Hæring.

Hjálmar R. Bárðarson.“

Eins og fram kemur í þessu bréfi og sagt var við 2. umr. málsins hér, eiga tvö atriði, sem vitnað er til að geti veitt siglingamálastjóra heimild til að veita undanþágu um aldur skipa, við olíupramma þann sem hér um ræðir. Hins vegar telur hann réttara að leitað sé heimildar Alþingis til þess vegna ótta við að annað muni valda erfiðleikum með því að skapa fordæmi.